Orkumálinn 2024

Viðrini svarað!

Eyþór Stefánsson, frambjóðandi Austurlistans, ritaði nýverið grein sem í grófum dráttum gengur út á að hann sé sjálfur pólitískt viðrini, en að það sé bara gott og að slíkum viðrinum sé betur treystandi en öðrum til þess að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélaga. Ég leyfi mér þá að taka hann á orðinu og nefna hann þessu nafni hér í fyrirsögn, sem vonandi móðgar engan, enda held ég að við báðir göngum út frá því að merking orðsins sé fyrst og fremst einstaklingur sem er ekki félagi í, eða skilgreinir sig sem stuðningsmann ákveðins stjórnmálaflokks.

Pólitík án pólitíkur?!

Ég geri engar athugasemdir við að fólk kjósi að standa utan stjórnmálasamtaka. Ég vil nú samt benda Eyþóri á að hann er í stjórnmálasamtökum, þau nefnast Austurlistinn og þó hann bjóði ekki fram í fleiri en einum kosningum eða á landsvísu eru þetta samt stjórnmálasamtök rétt eins og hin sem bjóða fram. Ég hef aldrei séð göfgina í því að bjóða sig fram til starfa í pólitík til þess eins að berja sér á brjóst og hæla sér af því að leggja ekki stund á pólitík. Þeim sem er illa við pólitík vil ég benda á að starfskraftar þeirra kæmu sér án efa vel í ungmennafélagshreyfingunni, hjá kvenfélögum eða öðrum frjálsum félagasamtökum.

Óþolandi dylgjur!

Ekkert af framangreindu hefði hins vegar gefið mér nokkurt tilefni til að svara grein Eyþórs ef hann hefði ekki helgað stóran hluta greinar sinnar því að ásaka sveitarstjórnarfólk sem tilheyrir stjórnmálaflokkum á landsvísu um að spyrja sig fyrst og fremst um „hvað sé best fyrir flokkinn sinn“, að því sé ekki treystandi til að taka ákvarðanir byggðar á bestu mögulegu upplýsingum hverju sinni og aftur að það taki ákvarðanir „út frá hagsmunum stjórnmálaflokks“.

Ég veit ekki hvort Eyþór gerir sér fulla grein fyrir því hvað hann er að saka mig og annað sveitarstjórnarfólk sem tilheyrir stjórnmálaflokkum á landsvísu um. Á okkur hvílir bæði lagaleg og siðferðisleg skylda til að haga ákvörðunum okkar aðeins í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins sem okkur er trúað fyrir. Það geri ég undantekningalaust og sárnar að vera borið annað á brýn. Þetta er annað af tvennu, vanhugsað úr hófi fram af Eyþórs hálfu, eða óþolandi dylgjur sem ekki er hægt að sitja undir.

Sérkennileg dæmi

Þau dæmi sem Eyþór velur máli sínu til stuðnings eru líka sérkennileg í meira lagi. Hann gumar af því að í hreppsnefnd Borgarfjarðarhrepps séu málin afgreidd í sátt og samlyndi meðan allt logi í illdeilum í bæjarstjórn Seyðisfjarðar. Í fyrsta lagi vil ég nefna að innan bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, hvar ég hef setið í 10 ár, heyrir það til svo mikilla undantekninga að mál séu ekki afgreidd samhljóða að ég efast um að það nái einu máli á ári sem svo hefur verið þennan tíma. Í bæjarstjórn Seyðisfjarðar sitja hins vegar meðframbjóðendur Eyþórs á Austurlistanum í meirihluta, kannski kalla þau sig líka viðrini líkt og hann, og lesendur ráða því hversu trúverðugt það telst að allar deilur innan bæjarstjórnar þar séu aðeins illum, flokkspólitískum minnihluta að kenna.

Sameiginleg gildi

Í stjórnmálaflokkum kemur saman fólk sem deilir sýn og gildum. Flokkurinn er vettvangur til að leggja sitt af mörkum í þágu samfélagsins á grundvelli þess sem þú trúir á. Í mínu tilfelli og Framsóknarflokksins er það sú skoðun að lausna á vandamálum samfélagsins sé ekki að leita í öfgafullum kreddum til hægri eða vinstri, heldur þurfi að skoða hvert verkefni og leita bestu lausna, upphefja manngildi yfir auðgildi og jafnrétti á kostnað misréttis. Í Framsóknarflokknum starfa ég með hundruðum annarra um allt land sem deila þessum gildum með mér. Við lærum hvert af öðru, styðjum hvert annað og hjálpum hvert öðru að ná fram markmiðum sem við byggjum á þessum sameiginlega grundvelli.

Er það ekki betra en að vera viðrini?

Höfundur skipar fyrsta sætið á lista Framsóknarflokksins í nýju, sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.