Verum til staðar – alþjóðlegur dagur forvarna gegn sjálfsvígum

Hvert líf sem týnist vegna sjálfsvígs er einu lífi of mikið. 10. september ár hvert er helgaður forvörnum gegn sjálfsvígum og af því tilefni verður minningarstund haldin í Egilsstaðakirkju kl. 20 laugardaginn 10. september.

Með þessum fáu orðum viljum við vekja athygli á þeim erfiða en mikilvæga málaflokki sem forvarnir sjálfsvíga eru. Þar getum við öll lagt hönd á plóg. Við erum öll manneskjur og við upplifum erfiðleika, álag, þrot og bugun. Það er eðlilegur hluti lífsins. Og þegar við finnum okkur í þeim aðstæðum að okkur finnst við ekki getað haldið lengur áfram að lifa, þá eru tengslin við aðrar manneskjur svo mikilvæg. Við erum hér fyrir hvert annað, til að hlusta, til að halda utan um, til að biðja fyrir. Til að hjálpast að við að takast á við verkefni sem geta sýnst svo erfið.

Marteinn Lúther skrifaði um kirkjuna að hún væri „áningarstaður og hressingarhæli fyrir þau sem eru sjúk og í þörf fyrir heilbrigði.“ Þessi mynd af kirkjunni minnir okkur einmitt á að við erum samfélag viðkvæmra einstaklinga sem allir þurfa hjálp. Og hún minnir okkur líka á að við trúum á vonina sem felst í fyrirheiti fagnaðarerindisins um að við verðum heil.

Þannig erum við öll samtímis viðkvæm og heil. Við erum minnt á hlutverk okkar sem er að gefa – og þiggja – hjálp. Með því að bera hvert annars byrðar lærum við að vera samfélag sem þorir að biðja um hjálp og líka að veita hana.

Þegar þér líður illa, mundu þá að þú líka ert umvafin/n samfélagi sem vill hjálpa, hlusta og veita aðstoð. Vertu dugleg/duglegur að hvíla í því samfélagi og þora að biðja um hjálp. Vinur eða fjölskyldumeðlimur, sem kann að hlusta og vera nálægur í kærleika, er ómetanlegur.

Sársaukinn og byrðarnar verða svo miklu léttari þegar við deilum þeim með öðrum. Og við erum öll í þeirri stöðu að þurfa á hjálp að halda og að verða heil. Það er engin skömm í því að líða illa og það getur bjargað lífum ef við lærum að tala og hlusta á hvert annað og bera hvert annars byrðar.

Prestar og djáknar þjóðkirkjunnar bjóða upp á sálgæslusamtöl við hvern sem þess óskar, óháð trúfélagsaðild eða trúarskoðun. Reglulega er einnig boðið upp á stuðningshópa fyrir þau sem hafa misst ástvini. Nýr hópur fer af stað á Héraði í haust. Tekið skal fram að þjónustu kirkjunnar eftir áföll eða við fólk í erfiðleikum er ekki að neinu leyti ætlað að koma í staðinn fyrir sérhæfðari aðstoð eða meðferð, t.d. sálfræðings eða annars heilbrigðisstarfsfólks.

Kirkjan vill hins vegar vera staður þar sem við fáum hlé í stormum lífsins, eigum samastað og þiggjum huggun og hjálp.

Höfundar eru prestar í Egilsstaðaprestakalli


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.