Verðmætin í því litla, framandi og einstaka.

Fjöldinn allur af spennandi litlum fyrirtækjum hafa sprottið upp á Austurlandi síðustu ár. Hugvit og dugnaður íbúa hefur skapað fjölda nýrra og spennandi starfa, ekki síst í menningu og ferðaþjónustu; skotið fleiri stoðum undir atvinnulífið, gert mannlífið fjölbreyttara og bæina hver öðrum fegurri.

Þetta hefur skerpt á dýrmætri sérstöðu svæðisins; skapað sóknarfæri til að laða að innlenda ferðamenn í sumar og þá erlendu þegar þeir fara að skila sér aftur. Þá hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hvað landshlutinn hefur fundið sér kröftugan farveg í sameiginlegu kynningarátaki, sem sveitarfélögin standa öll að saman. Nú þegar við horfumst í augu við djúpa efnahagslægð og aukna samkeppni um hvern ferðamann þarf að standa vörð um sérkenni, fjölbreytni og störf.

Samþjöppun í atvinnulífinu er því miður alltof þekkt afleiðing kreppu. Smærri fyrirtæki, þar sem minna má út af bregða, lenda oft fyrr í erfiðleikum. Stærri keppinautar, sem hafa betra aðgengi að fjármagni - og bankarnir hafa jafnvel veðjað miklu á - sjá sér leik á borði og kaupa upp þau minni. Verði þetta niðurstaðan nú gæti störfum á landsbyggðinni fækkað, best launuðu störfin horfið en hin orðið eftir, fábreytni aukist og við sætum uppi með miðstýrðari, einsleitari og fátæklegri ferðaþjónustu en ella. Nú þegar við horfum fram á mikla kólnun í efnahagslífinu til einhvers tíma, þarf að verjast þessu af alefli.

Sóknarfæri Íslands í ferðaþjónustu mun í framtíðinni fyrst og fremst felast í hinu einstaka, sérkennilega og framandi; í náttúru landsins og fámenninu, fremur en hinu einsleita og almenna; fjöldatúrisma. Það er því hagur allra landsmanna að lítil fyrirtæki og einstök landssvæði haldi þeim þrótti og sköpunargleði sem hefur byggst upp síðustu ár. Það verður að sporna við þeirri þróun að ferðalag til Íslands verði ein allsherjar kynnisferð úr flugvél, upp í rútu, á hótel, um borð í hvalaskoðunarbát og alla leið ofan í hugguleg jarðböð, þar sem allt er meira eða minna staðlað og í eigu sömu aðila. Slíkt kæmi niður á gæðum og fjölbreytni þessarar mikilvægu atvinnugreinar, rýrði aðdráttarafl Íslands til lengri tíma, veikti byggðir um allt land og setti fólkið þar í aukinn vanda. Allar aðgerðir stjórnvalda til stuðnings atvinnulífinu í kjölfar veirufaraldursins verða því að taka mið af þessum veruleika. Þess vegna er þörf á frekari aðgerðum í þágu lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum greinum, ekki síst á landsbyggðinni.

Við eigum að virkja hugvit heimafólks, tilfinningu þess fyrir staðarandanum og kraftinum sem felst í því að vilja sínu svæði aðeins það besta. Hjálpa sveitarfélögum að efla nýsköpun og veita öfluga stoðþjónustu í gegnum farvegi sem þegar eru til staðar, t.d. með stórauknu framlagi í uppbyggingarsjóð landshluta. Auka og bæta aðgengi að sprotafjármagni sem stuðlar að hugvitsamlegri og verðmætri vöruþróun til framtíðar. Síðast en ekki síst verður að ráðast af meiri krafti í það að skapa aðstæður til jafnari dreifingu ferðamanna um allt land með uppbyggingu, markaðssetningu og loks millilandaflugi til Egilsstaða- og Akureyrarflugvallar. Vinna Íslandsstofu og Ferðamálastofu verða að taka meira mið af þessu en hingað til. Nú þegar veita á ívilnanir til alþjóðlegrar kvikmyndagerðar, væri til dæmis upplagt að kynna sérstaklega fjölbreytni landsins og freista þess sérstaklega að verkefnin dreifist um landið. Þá gæti hið opinbera að sama skapi vera miklu duglegra að halda ráðstefnur sínar utan höfuðborgarsvæðisins.

Margt fleira þarf að sjálfsögðu að koma til en eitt er víst; koma verður í veg fyrir of mikla samþjöppun og einsleitni í atvinnulífinu. Það mun alltaf skaða aðdráttarafl og sérstöðu Íslands til lengri tíma.

Höfundur er formaður Samfylkingarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.