Veistu af okkur?

Krabbameinsfélag Austfjarða og Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélags Íslands eru búin að vera á flandri um Austfirði. Þær Hrefna Eyþórsdóttir frá Krabbameinsfélagi Austfjarða og Margrét Helga Ívarsdóttir Ráðgjafi hjá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Íslands ákváðu að heimsækja alla þéttbýliskjarna sem Krabbameinsfélag Austfjarða sinnir sem eru Djúpivogur og Fjarðabyggð.

Við ákváðum að fara á alla staði með spjallfundi og segja frá því hvað við erum að gera, hvað er í boði og hvernig við getum hjálpað. Okkur fannst mikilvægt að heimsækja alla byggðakjarna og gerðum ráð fyrir að fá þannig betri mætingu á fundina heldur en ef við héldum kannski bara 2 fundi og fólk þyrfti að keyra lengra til. Þetta var fróðlegt og skemmtilegt verkefni og náðum við okkur í nokkra talsmenn og nýja félagsmenn til að vita af og segja frá okkur. Það var markmiðið með þessum heimsóknum, að fleiri í samfélaginu vissu af okkur og geta þá látið krabbameinsgreinda og aðstandendur í nærumhverfinu vita af okkur.

Þrátt fyrir auglýsingar í flestum miðlum bæði nú og áður eru ótrúlega margir sem vita af tilveru Krabbameinsfélags Austfjarða en ekki hugmynd um hvað við gerum. Félagið styður við krabbameinsgreinda félagsmenn á svæðinu en allir á þjónustusvæðinu sem greinast með krabbamein geta gengið í félagið og fengið þá aðstoð sem við bjóðum upp á. En okkar helstu verkefni eru að greiða gistikostnað og kostnað við bílaleigubíla og leigubíla meðan á meðferð stendur. Við bjóðum upp á ókeypis sálfræðimeðferð í 5 skipti og svo bjóðum við upp á viðtöl hjá fjölskylduráðgjafa, einnig félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Skrifstofan okkar er staðsett á Reyðarfirði og er opin einu sinni í viku og hægt er að leita eftir upplýsingum og aðstoð þangað og reynum við allt sem við getum til að aðstoða fólkið okkar, hvort sem það erum við sem náum að veita því aðstoðina beint eða leiðbeina því á rétta staði eftir aðstoðinni.

Svo er það Ráðgjafaþjónusta Krabbameinsfélagsins sem er nýtt starf hér á Austurlandi. Þar er Margrét Helga, sem er læknir, í ráðgjafastarfi og er bæði að taka á móti símtölum, tölvupóstum og hitta fólk í viðtölum. Hún veitir ýmisskonar fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur, hvort sem það eru fjölskyldumeðlimir, vinir eða vinnufélagar. Markmið Ráðgjafaþjónustunnar er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu við þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Margrét Helga er með viðtalsaðstöðu á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum, Reyðarfirði og í Neskaupsstað og hægt er að hringja í hana eða senda tölvupóst til að bóka tíma hjá henni. Þetta er tilraunaverkefni sem lagt var upp með til eins árs og byrjaði í febrúar. Við viljum endilega halda þessari þjónustu hér eystra sem er ókeypis fyrir alla en til þess þurfum við að nýta okkur hana og hvetjum ykkur til þess.

Endilega hafið samband við okkur og munum að við þurfum fólk eins og ykkur til að geta hjálpað fólkinu okkar og eru nýir félagsmenn alltaf velkomnir í hóp þeirra dyggu félagsmannna sem við nú þegar eigum.

Krabbameinsfélag Austfjarða
Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. s.474-1530

Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélagsins
Netfang: MargréThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. s. 831-1655 / 800-4040

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.