Uppbygging íbúðarhúsnæðis og metfjöldi lóða umsókna

Að búa í víðfeðmu fjölkjarna samfélagi getur oft á tíðum verið flókið en það er jafnframt mjög lærdómsríkt því hver og einn byggðarkjarni býr yfir einstakri sögu sem einkennir hann og skilgreinir.

Frá því ég tók sæti sem bæjarfulltrúi í maí hefur ýmislegt gengið á eins og venja er fyrir á þessum vettvangi. Verst finnst mér þegar fólk festist í því að ræða eingöngu neikvæða hluti, við verðum að muna að þakka fyrir og vera stolt af því sem vel er gert og því flotta samfélagi sem við búum í. Ég hef passað að temja mér ávallt framsýni og velta mér ekki upp úr orðnum hlutum sem ég get ekki breytt. Ég vil heldur einbeita mér að framtíðinni og þeim markmiðum sem ég vil ná fyrir samfélagið okkar á þeim tíma sem mér hefur verið úthlutað. Ég brenn fyrir samfélagið okkar og vil að allir geti notið þess að lifa hér, starfa og njóta.    

Við búum í samfélagi sem hefur farið í gegnum margar stórar áskoranir og má þar helst nefna byggingu Alcoa fjarðaráls sem hefur verið gríðarleg lyftistöng fyrir samfélagið. Í kjölfarið fengum við mikið af nýju fólki og samfélagið varð fjölbreyttara en jafnframt mikið opnara. Þá sem og nú varð uppsveifla í sveitarfélaginu, núna skýrist uppsveiflan þó að öðru en hér er mikið atvinnuframboð, góð launakjör og frábært umhverfi fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga að setjast að.

Það sem hefur staðið okkur fyrir þrifum er framboð á íbúðarhúsnæði sem hefur verið mjög takmarkandi þáttur og bitnar á mörgum. Þar má til dæmis nefna fyrirtæki sem hér starfa og vilja stækka og efla sína starfsemi en geta ekki bætt við sig starfskröftum vegna íbúðarskorts og það sama á við um iðnaðarmenn sem vilja koma hingað að vinna.

Ég sé þó blikur á lofti í þessum málum. Það er orðið mun fýsilegra að byggja í sveitarfélaginu nú en áður þar sem íbúðarverð hefur loksins náð skurðpunkti byggingarkostnaðar í flestum þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar. Það er fljótt að skila sér þar sem eftirspurn eftir lóðum síðustu mánuði hefur farið fram úr björtustu vonum. Sem formaður Umhverfis- og Skipulagsnefndar finnst mér ótrúlega gaman að segja frá því að í október á þessu ári höfðum við úthlutað 35 lóðum fyrir íbúðarhús og sjö fyrir atvinnu húsnæði sem er mikil aukning frá síðustu árum.

Að finna kraftinn og samheldnina í íbúum hér er ótrúlega hvetjandi, ég held og veit að Fjarðabyggð sem og Austurland allt býr yfir miklum tækifærum ef haldið er rétt á spöðunum. Ég á mér stóra drauma varðandi uppbyggingu, afþreyingu og þjónustu fyrir alla í sveitarfélaginu og tel að í góðu samstarfi við grasrótina, íbúa og starfsfólk Fjarðabyggðar getum við náð ansi langt sem ein heild, Fjarðabyggð.

Höfundur er formaður umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.