Ungir Austfirðinga skiptast á skoðunum um Fjarðarheiðargöng

Tveir ungir Austfirðingar hafa kveðið sér hljóðs um Fjarðarheiðargöngin í Austurglugganum/fréttum. Annar er Seyðfirðingur , Gauti Skúlason , 10. maí sl. Hinn er Norðfirðingur, Sigurður Steinn Einarsson , 21. maí sl.. Sitt sýnist hvorum eins og gengur. En þakkir eiga þeir skildar fyrir sín skrif.

Báðir hafa þessir ungu menn alist upp á Austurlandi . Annar á Seyðisfirði og barist við mikla ófærð á Fjarðarheiði, sem í 40 ár er eini Euro-vegurinn og út úr landinu. Hinn í Neskaupstað og barist um í Oddskarði sem nú hefur fengð lausn með nýjum Norðfjarðargöngum. Báðir þekkja því vel hvað þessir hæstu fjallvegir að og frá bæjum þeirra geta og hafa verið mikil hindrun og erfiðir viðureignar fyrir fjölskyldur, atvinnu- og félagslíf staðanna.

Ellilífeyrisþegi á Seyðisfirði, sem sækir líkamsræktina, hlustaði þar á líflegt samtal fjögurra ungra Austfirðinga sem þekkja vel til. Þeir voru að spjalla um skrifin og virtust hafa á þeim mjög ákveðnar skoðanir. Upplifun þeirra er umhugsunarefni, sem getur verið eitthvað á þessa leið:

„Ný og glæsileg, vel upplýst, jarðgöng til Norðfjarðar,sem kostuðu víst ekki mikla peninga, hafa leyst af háa erfiða fjallveginn um Oddskarð og er það vel. Ungi Austfirðingurinn sem þar býr keyrir nú frjáls og glaður fram og til baka í öllum veðrum og lætur ekkert stoppa sig.

Hinn, sá býr á Seyðisfirði, situr fastur í bíl sínum á Fjarðarheiði í 600 metra hæð í blindbyl, biður um hjálp og bíður eftir því að björgunarsveitin sæki hann. Hann fór til að sækja mjólk, brauð, rjóma, bleyjur og nagla í Egilsstaði - miðstöð verslunar, þjónustu og samganga á Austurlandi.

Ungi maðurinn sem ekur fram og til baka vel upplýst og hlý Norðfjarðargöngin sendir félaga sínum á Fjarðarheiðinni tóninn og segir að honum verði ekki bjargað það sé svo svakalega dýrt. Verður áttunda dýrasta framkvæmd í alheiminum og gagnist fáum segir hann.

Seyðfirðingurinn, pikkfastur á Fjarðarheiðinni, segist ekki skilja af hverju félaginn í Fjarðabyggð geti ekki stutt sig. Pabbi hans og afi hafi stutt gerð hæstu stíflu i Evrópu (Kárahnjúkastífla) svo að stærsta álver í alheimi, Alcoa, fengi rafmagn til að bjarga og búa til stóru stóru Fjarðabyggð.

„Var þá ekki talað um LSD langstærstu framkvæmd sögunnar? Af hverju getur þú ekki stutt Fjarðarheiðargöngin, svo að ég fái að aka um í upplýstum flottum göngum eins og þú?“

„Vegna þess,“ segir vinurinn í Fjarðabyggð. „Það finnast engin faglega unnin gögn á netinu um rannsóknir á Fjarðarheiðargöngum. Falda Eflu-skýrsla ykkar Seyðfirðinga er falskt ónýtt plagg.“ Hann segist hisvegar hafa fundið fagleg og vel unnin gögn á netinu, frá því skömmu eftir síðustu aldamót, sem segja skýrt að ekki sé góður kostur að fara undir Fjarðarheiðina.

„Já, en síðan eru liðin mörg ár og margt breyst á Seyðisfirði og í Fjarðabyggð á þeim langa tíma,“ segir Seyðfirðingurinn.

„Já það er rétt,“ segir Norðfirðingurinn. „Ykkur hefur fækkað mikið en okkur fjölgað mikið. Það er ekki lengur ykkar einkamál hvernig og hvenær ykkur verður bjargað. Við og Árneshreppur ráðum því. Þið eruð í vinnu hjá okkur. Þið verðið bara að hætta þessum látum. Jarðgöng verða ekki byggð með tilfinningavæli og frekju,“ segir Norðfirðingurinn,sem ekur glaður um í upplýstum.,upphituðum og vel fóðruðum Norðfjarðargöngum, með dýru hljómflutningstækin í flotta kagganum sínum í botni.

„En hvað með margítrekaðar samþykktir allra sveitarfélaganna á Austurlandi ( SSA), þar á meðal Fjarðabyggðar, um að Fjarðarheiðargöng verði forgangsframkvæmd næst á eftir ykkar Norðfjarðargöngum?“ spyr Seyðfirðingurinn .

„Aldrei heyrt þær nefndar,“ segir Norðfirðingurinn. „Þeir vilja ekkert kannast við slíka samþykkt. Kóngarnir okkar hér í Fjarðabyggð. Hættið þessu kjördæmapoti ykkar. Þið vitið vel að við verðum að standa þétt saman og vera vinir. Okkur hér í Fjarðabyggð þykir svo svakalega vænt um ykkur skrítna og freka fólkið þarna norður á Seyðisfirði.“

„Ok,“ segir Seyðfirðingurinn. „Björgunarsveitin Ísólfur er komin að sækja mig. Bílinn minn er pikkfastur. Það er glórulaus bylur.Mér er orðið skítkalt og ég er svangur. Aktu varlega í flottu Norðfjarðargöngunum þínum félagi. Guð blessi þig,“ voru síðustu orð Seyðfirðingsins um leið og hann fór brosandi upp í björgunarsveitarbílinn á Fjarðarheiðinni á leið heim í fjörðinn fagra sem er einn eftirsóttasti staður á Austurlandi.

- Ellilífeyrisþegi sem hlustaði vel á unga fólkið í líkamsræktinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar