Umferðaröryggi
Ég sat fund Umferðarráðs í dag í fyrsta sinn í langan tíma. Það var fróðlegt. Kynnt var námsefni í umferðarfræðslu fyrir framhaldsskólanema, sem hugsað er til notkunar í lífsleikni, mér fannst efnið afar áhugavert og trúverðugt og trúi vart öðru en að það veki ungmenni til umhugsunar og vitundar um mikilvægi þess að vera vandaður ökumaður.
Þá fengum við fína fræðslu um stöðuna hjá ökumönnum léttra bifhjóla og áhugaverðast fannst mér að heyra að of lágur hámarkshraði þessarra ökutækja er líklegur til að valda vandræðum og jafnvel slysum því hraðinn er ekki í neinum takti við hraða annarra ökutækja.
Enn og aftur kom rígur milli höfuðborgar og landsbyggðar fram í því að einhverjir töldu fjármagni best varið til umferðaröryggismála í borginni. Í það á að sjálfsögðu að verja talsverðu fjármagni en ekki má gleyma því að margir íbúar landsbyggðarinnar búa við algerlega óviðunandi samgöngur sem eru ekki í neinum takti við nútímann. Þar er eðlilegt fyrir mig að minnast á samgöngur yfir Fjarðaheiði, hæsta fjallveg landsins milli Héraðs og Seyðisfjarðar og einbreið jarðgöng í ótrúlegri hæð, með blindhæð, milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Engar aðrar landsamgöngur eru í boði fyir það fólk sem býr á Norðfirði og Seyðisfirði en þessir vondu fjallvegir. Á Neskaupstað er fjórðungssjúkrahús Austfirðinga og eina fæðingardeild fjórðungsins og á Seyðisfjörð kemur eina farþegaferjan sem siglir til Íslands. Þetta eru staðreyndir sem leggja á áherslu á ekki síður en umferðaröryggi í Reykjavík og næsta nágrenni – með því að tala af virðingu um allt Ísland og mannlífið þar náum við smám saman að minnka ríg og leiðindi milli svæða.
Jónína Rós Guðmundsdóttir