Um innviðauppbyggingu

Innviðauppbygging er orð sem kemur reglulega upp þegar farið er á vef Stjórnarráðs Íslands. Orðið innviðauppbygging og markmiðin sem því fylgja eru mikilvæg og ættu að hafa mikla tengingu við samfélögin vítt og breitt um landið.

Í flestum tilfellum er metnaðarfull aðgerðaáætlun sett fram til að fylgja eftir markmiðum innviðauppbyggingar. Þar má nefna uppbyggingu öflugs gagnanets, bættar samgöngur, fjölgun menntaðra einstaklinga á varnarsvæðum landsins, fjölbreytt atvinnulíf og nýsköpun um allt land í samræmi við Atvinnustefnu fyrir Ísland og dreifingu opinberra starfa. Þá kemur fram að fyrir árslok 2019 skuli hvert ráðuneyti hafa skilgreint hvaða störf verði hægt að vinna utan ráðuneytisins. Í framhaldi af því skuli 5% auglýstra starfa vera án staðsetningar fyrir árslok 2021 og 10% fyrir árslok 2024.

Áhugavert væri að fá upplýsingar um hvort ráðuneytin hafi farið í þessa vinnu. Skilgreint hvaða störf hægt væri að vinna utan ráðuneytisins og hvað mörg störf er búið að ráða í utan höfuðborgarsvæðisins, samkvæmt þessari lagagrein.

Þrátt fyrir markmið í lögum um byggðaáætlanir og sóknaráætlanir fyrir hinar dreifðu byggðir, virðist lítið um efndir. Þess heldur fækkar störfum hins opinbera á landsbyggðinni sem leiðir til fólksfækkunar. Þetta gerist þrátt fyrir að frá árinu 2000 til ársins 2018 fjölgaði opinberum starfsmönnum um 20 þúsund. Á sama tíma horfum við upp á sífellda fækkun opinberra starfa sem skýrð er með hagræðingu. Nýlega voru sameinuð embætti á vegum ríkisins á Austurlandi sem átti að leiða til betri þjónustu, sem sameiningin leiddi af sér. Niðurstaðan varð hins vegar að sú að lækka varð starfshlutfall hluta starfsfólks og skerða opnunartíma, vegna skertra fjárframlaga. Þá eru nýleg dæmi um stjórnunarstarf í fjórðungnum á vegum hins opinbera sem lagt var niður þar sem viðkomandi yfirmaður fór á eftirlaun. Við slíka ráðstöfun verða eftir lægra launuð störf. Þá má benda á að stofnanir ríkisins sem falla undir opinber hlutafélög (ohf.) sem virðast markvisst fækka störfum á landsbyggðinni.

Með breyttum atvinnuháttum og fækkun starfa í okkar hefðbundnu atvinnugreinum er mikilvægt að ný störf verði til á landsbyggðinni. Ný tækni í fjarskiptum sem ljósleiðaravæðing landsbyggðarinnar hefur skapað, hefur rutt úr vegi hindrunum til að vinna störf úr stjórnsýslu höfuðborgarsvæðisins vítt og breitt um landið. Ef 5% reglan um störf án staðsetningar hefði gilt frá síðustu aldamótum, þá væri hægt að færa rök fyrir því að eitt þúsund ný störf hefðu orðið til á landsbyggðinni, einungis vegna nýrra starfa hjá ríkinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.