Tölurnar sem enginn ætlaði að trúa

Fyrir réttum sex árum birtist frétt á Vísi undir yfirskriftinni „Maður ætlaði ekki að trúa þessum tölum.“ Þarna var vitnað í orð Matthíasar Imsland, sem var formaður starfshóps sem átti að kanna fýsileika þess að koma á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri.

Starfshópurinn lét framkvæma viðamikla greiningarvinnu á mikilvægi beins flugs til þessara landshluta út frá þjóðhagslegum ávinningi. Um málið sagði Matthías: „Við vissum að ávinningurinn yrði mikill en ekki svona mikill [...] Við erum að tala um mjög stórar tölur í þessu samhengi sem myndi þýða mikla hreyfingu á hlutunum [...] Það vissu allir að mikilvægi beins flug væri mikið en áhrifin yrðu meiri en fólk gerði ráð fyrir.“


Svo mörg voru þau orð. Rituð fyrir sex árum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, aðallega til Keflavíkur þó. Einungis hefur tekist að koma takmörkuðu millilandaflugi á fót um Egilsstaðaflugvöll, þrátt fyrir mikla vinnu við markaðssetningu flugvallarins. Á því eru eflaust margar skýringar en tvö atriði vil ég nefna sérstaklega sem hafa örugglega ekki hjálpað til. Annars vegar má nefna að öll markaðssetning ISAVIA hefur snúið að Keflavíkurflugvelli, enda ber ISAVIA, lögum samkvæmt, einungis að markaðssetja þann flugvöll. Hins vegar má nefna að á sama tíma og tugum milljarða hefur verið varið í uppbyggingu Keflavíkurflugvallar hefur Egilsstaðaflugvöllur legið óbættur hjá garði. Það var ekki fyrr en núna nýlega að fjármunir fundust til að setja nýtt slitlag á flugbrautina.

 

Nú þurfum við að girða okkur í brók og hefja stórsókn í málefnum Egilsstaðaflugvallar, m.a. með því að lengja flugbrautina (líkt og ráð er gert fyrir í aðalskipulagi), stækka flughlað og útbúa akbraut fyrir flugvélar meðfram lendingarbraut, auk þess sem tryggja þarf leiðsagnar- og aðflugsbúnað af nýjustu gerð á hverjum tíma. Áframhaldandi markaðssetning myndi svo tryggja völlinn í sessi sem alvöru fluggátt inn í landið fyrir flugvélar af öllum stærðum og gerðum, hvort sem þær flytja fólk eða frakt.

 

En til þess þarf pólitískan vilja. Ég mun svo sannarlega leggja mitt af mörkum, fái ég brautargengi við Alþingiskosningarnar í haust.


Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.