Til hamingju með Hallormsstaðaskóla

Þann 1. nóvember voru 90 ár liðin frá því Húsmæðraskólinn á Hallormsstað var settur í fyrsta sinn. Ég vil óska íbúum Austurlands og aðstandendum skólans innilega til hamingju með þau tímamót.

Ég vil líka óska Hallormsstaðaskóla til hamingju með að nú hefur námsbraut skólans í sjálfbærni og sköpun farið í gegnum allt staðfestingarferli nýrra námsbrauta. Þetta er stór áfangi í sögu skólans, menntunar á Austurlandi og fjölbreytileika menntunar á Íslandi. Aðsókn er góð og heimavist fullnýtt.

Nýja námsbrautin byggir á grunni húsmæðra- og hússtjórnarnámsins. Sjálfbærni í daglegu starfi var hluti af hugmyndafræði skólans í upphafi og hefur verið rauður þráður í starfinu allt frá 1930. Innan veggja skólans er til staðar mikil þekking í nýtingu auðlinda, fullnýtingu hráefna og sköpun. Þá er skólinn í umhverfi sem er einstakt á Íslandi, í friðuðu húsi með mikla sögu, í stærsta skógi landsins – það felst mikil lærdómur í að dvelja þar vetrarlangt.

Traust undirstaða fyrir þróun og aðlögun

Í 90 ára sögu hefur skólinn reglulega þurft að uppfæra og aðlaga námið í takt við samfélagsbreytingar og alltaf hefur það tekist þrátt fyrir tímabundnar kreppur. Síðustu ár hefur ekki alltaf blásið byrlega og því hefur jafnvel verið hreyft að leggja skólann niður. Með seiglu og þrautseigju hefur stjórnendum og bakhjörlum skólans nú tekist að snúa vörn í sókn. Þá hafa þingmenn kjördæmisins talað máli skólans og hvatt forsvarsmenn til að dáða. Skólinn er sjálfseignarstofnun og bakhjarlar hans eru Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Samband austfirskra kvenna, Búnaðarsamband Austurlands og Ferðamálasamtök Austurlands. Einnig byggir starfið á samningi við menntamálaráðuneytið.

Námið hefur alla tíð nýst vel sem undirbúningur fyrir ýmiss konar nám í skapandi greinum, textílvinnu, matreiðslu og framreiðslu en einnig við að byggja upp almenna lífsleikni. Nám í sjálfbærni og sköpun á 4. hæfniþrepi er mikilvæg viðbót við námsframboð á landsvísu á tímum þar sem við þurfum öll að tileinka okkur sjálfbærari lífsstíl.

Skólinn er hreyfiafl í samfélaginu

Skólinn er mikilvægur á landsvísu. Námið laðar fólk víða að til að stunda sérhæft nám. Skólinn hefur alla tíð flutt inn fólk til búsetu á Austurlandi og ekki er síður mikilvægt að fólk sem þar hefur dvalið hefur góða sögu að segja frá Austurlandi hvar sem það haslar sér völl að námi loknu. Þannig hafa nemendur skólans eflt Austurland og borið hróður þess víða.

Skólinn er mikilvægur samfélagi sem þarf að finna nýjar leiðir til að nýta betur hráefni nærumhverfisins og auka sjálfbærni. Öll landsvæði ættu að eiga skóla með sérstöðu á landsvísu. Það skapar mótvægi við þann fjölda nemenda sem þurfa að sækja sérhæfingu til annarra landsvæða. Til eru mörg dæmi um nemendur sem stundað hafa nám á Hallormsstað og koma aftur inn á svæðið á fullorðinsárum. Þá oft með viðbótarmenntun ásamt aukinni þekkingu og reynslu.

Á Austurlandi þarf að standa vörð um grunnstoðir menntunar; í leikskólum, tónlistarskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, en það þarf líka að tryggja tilvist sérskóla eins og á Hallormsstað. Á þessum tímamótum þurfa íbúar Austurlands eftir sem áður að standa með skólanum eins og þeir hafa gert síðustu 90 árin.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokkins í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.