Þá er þetta að hefjast!

Íslandsmótið í knattspyrnu, 1. deild kvenna og 2. deild karla hefst á laugardaginn. Við hér í Fjarðabyggð mætum nú í fyrsta skipti sameinuð til leiks í meistaraflokki karla undir merkjum KFA; Knattspyrnufélags Austfjarða.

Einnig keppir venslafélag okkar, Boltafélag Norðfjarðar í fjórðu deildinni í ár og verður skemmtilegt að fylgjast með þeirra baráttu.

Verkefnið KFA er að halda sæti sínu í 2. deild og það verður verðugt viðfangsefni.

Okkur er og verður spáð falli á öllum helstu miðlum, enda hafa úrslitin á undirbúningstímabilinu ekki verið til að hrópa húrra yfir. Stór hópur leikreyndustu uppöldu leikmannanna okkar reri á önnur mið eftir tímabilið í fyrra eða lagði skóna á hilluna. Þannig varð hópurinn í vetur mjög lítill þó um tvö sameinuð lið væri að ræða. En við höfum verið að fylla í skörðin og ætlum okkur að koma á óvart í sumar. Margir erlendir leikmenn hafa bæst í hópinn og sumir þeirra mjög spennandi.

Eitt af mikilvægustu verkefnum okkar sem tekið hafa að sér að vera í forsvari fyrir KFA, er að byggja upp ungu knattspyrnumennina okkar. Það gerum við með því að skapa þeim aðstöðu og andrúmsloft til að halda áfram að bæta sig. Við eigum góðan hóp af verulega spennandi ungum leikmönnum, en þeir eru ekki allir tilbúnir fyrir 2. deildina. Eitt af hlutverkum þjálfaranna núna er að finna út bestu leiðina fyrir hvern og einn af ungu strákunum. Hvort það sé að berjast fyrir sinni stöðu í KFA eða fara á láni í BN. Hvora leiðina sem ungu strákarnir fara núna, þá mega þeir vita að þeir eru framtíðin og við vitum að það býr mikið í þeim.

En talandi um unga knattspyrnumenn. Vonandi vita núorðið allir íbúar Fjarðabyggðar að sameining meistaraflokka Leiknis og KFF er bara fyrsta skrefið í að búa til nýtt félag sem meiningin er að taki yfir lang stærstan hluta skipulegs knattspyrnustarfs í sveitarfélaginu. Taki sem sagt yfir starfsemi YFF (yngri flokka Fjarðabyggðar) og meistaraflokkanna. Við sjáum fyrir okkur að allt starfið í kringum boltann verði markvissara og öflugra. Betur verði hægt að búa að yngri flokkunum og auðveldara verði að sækja stuðning til okkar glæsilegu og blómlegu fyrirtækja hér í Fjarðabyggð. En til þess að þetta geti orðið að veruleika vantar okkur tilfinnanlega félagsaðstöðu. Ýtum nú á lokametrunum við frambjóðendum til sveitastjórnar, að setja það í forgang að koma upp félagsaðstöðu við Höllina á Reyðarfirði. Ásamt því að klára byggingu hennar, með því að einangra og klæða loksins þakið.

Að lokum, þeir sem spila fyrir KFA og BN eru STRÁKARNIR OKKAR, hvort sem þeir eru fæddir á fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, á Spáni eða í Króatíu. Og stelpurnar í Fjarðabyggð/Hetti/Leikni (FHL) eru STELPURNAR OKKAR, hvort sem við getum rakið ættir okkar saman á Íslendingabók eða þær koma erlendis frá til að styrkja hópinn.

Það er von mín að íbúar Fjarðabyggðar fylki sér á bak við liðin sín; KFA í 2. deild, FHL í Lengjudeildinni og BN í fjórðu deild.

Með knattspyrnukveðju,
Magnús Ásgrímsson, formaður KFA

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.