Orkumálinn 2024

Í svikamyllu fortíðarinnar

BRÉF TIL BLAÐSINS
gudmundur_karl.jpg
Guðmundur Karl Jónsson áhugamaður um samgöngur skrifar frá Reykjavík

Djúpstætt ósamkomulag innan Austurlandsfjórðungs um gerð heilsársvegar yfir Öxi vekur spurningar um hvort oddvitar fortíðarinnar muni síðar iðrast þess að hafa barist gegn öllum samgöngubótum í formi jarðganga sem fráfarandi ríkisstjórn tók ákvörðun um á síðasta ári fyrir vestan, austan og undir Vaðlaheiði. Fram hafa komið efasemdir hjá Vegagerðinni á Austurlandi og í Reykjavík um að uppbyggður vegur um Öxi verði öruggur í 530 m hæð fyrir miklum blindbyl, snjóþyngslum og veðurhæð sem sem farið getur í 30 til 40 metra á sekúndu.
Hindrunarlaus verður þessi vegur aldrei allan ársins hring þegar veðrabreytingar hrella vegfarendur. Fljótlega munu þeir kalla þennan eltingarleik við, veðurfarið, slysahættuna í brekkunum upp úr Berufirði og snjóþyngslin í þeirri hæð sem Öxi stendur yfir sjávarmáli leik kattarinns að músinni. Með uppbyggðum Axarvegi verður 80% erfiðara að losna við öll snjóþyngslin í stað þess að grafa tvenn veggöng inn í Breiðdal sem tryggja heilsárstengingu Djúpavogs við Egilsstaði og Fljótsdalshérað enn betur. Slysagildra í stað jarðganga verður þessi vegur líka kallaður af þeim vegfarendum sem sett hafa traust sitt á þessa framkvæmd.

Tímaskekkja að byggja veg í 5-600 metra hæð
Á sama tíma og framfarir aukast í jarðgangagerð viðurkenna sveitarstjórnirnar á landsbyggðinni að það sé tímaskekkja að beina allri vetrarumferð upp í 500 til 600 m hæð. Þeir sem keyra stystu leið milli Djúpavogs og Egilsstaða vara við slysahættunni í brekkunum upp úr Berufirði vegrna mikillar hálku og ennfremur að veðurskilyrði á Öxi séu mjög erfið og ekki alveg hættulaus. Það skýtur skökku við að fulltrúar fortíðarinnar skuli leggja áherslu á uppbyggða vegi á stórhættulegum og snjóþungum svæðum á meðan sveitarstjórnirnar berjast fyrir því að þessir vegir fari niður fyrir 200 m hæð. Þingmaður Siglfirðinga sem settist í stól samgönguráðherra á síðasta ári fullyrti í Morgunblaðinu 1 febr. s.l. að tími fjallveganna væri liðinn. Sjaldan fæ ég skammir fyrir þessar fullyrðingar frá stuðningsmönnum Héðinsfjarðarganga á Austurlandi sem telja það hafið yfir allan vafa að Austfirðingar þurfi engin jarðgöng. Síðar myndu þeir flýta sér til Reykjavíkur og biðja samgönguráðherra um 10 km löng veggöng úr Berufjarðardal undir þennan snjóþunga þröskuld eða tvenn stutt göng inn í Breiðdal sem grafin yrðu úr Skriðdal og Berufirði þegar snjómokstrar á Axarvegi verða óframkvæmanlegir vegna blindbyls og veðurhæðar.

Loforð um veðurútlit fæst ekki
Á meðan efasemdir um þessa framkvæmd þagna ekki stendur talsverður styr innan Austurlandsfjórðungs og Vegagerðarinnar um hvort Axarvegur í stað jarðganga undir Breiðdalsheiði og úr innanverðum Berufirði sé heppilegasta leiðin til að tryggja sameiningu Djúpavogs við Fljótsdalshérað. Líkurnar fyrir því að Djúpivogur, Egilsstaðir, Austur-Hérað og Fljótsdalshérað verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði með tilkomu Axarvegar eru einn á móti miljón. Spurning sem er hvort Djúpavogsbúar og Berufirðingar vilji keyra í gegnum Fáskrúðsfjarðargöngin og um Fagradal ef Vegagerðin gefst upp á snjómokstrum yfir Öxi vegna veðurhæðar sem farið getur upp í 35 til 40 metra á sekúndu. Til eru dæmi um að Breiðdalsheiði hafi verið fær á sama tíma og Öxi hefur lokast. Rök þeirra sem vilja Axarveg tek ég góð og gild, en loforð frá mér um að veðurútlit á þessum þröskuldi sé 100% öruggt næstu áratugina fá þeir ekki. Fljótlegra er að reikna svona dæmi vitlaust þegar menn festast viljandi í svikamyllu fortíðarinnar í stað þess að leggja meiri áherslu göng sem tryggja öryggi byggðanna enn betur en þessar slysagildrur í 500 til 600 m hæð. Hér eftir geta þær aldrei í þessari hæð yfir sjó um ókomna framtíð staðist alþjóðlegar kröfur sem ganga jafnt yfir Ísland eins og nágrannalöndin. Hverju svara þá blessaðir erindrekar fortíðarinnar ef Skipulagsstofnun ríkissins fellst ekki á Axarvegin?   

Guðmundur Karl Jónsson farandverkamaður   
Stangarholti 7  
105 Reykjavík 
 Sími 696 7683

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.