Orkumálinn 2024

Sveitarstjórnarpistill 4 – skipulagsmál 3: Fjarðarheiðargöng

Fjarðarheiðargöng eru ekki enn komin inn á aðalskipulag þéttbýlisins beggja vegna Lagarfljóts né heldur leið til tengingar ganganna Héraðsmegin. Hvað veldur þeim seinagangi af hálfu sveitarstjórnar?

Þessi seinagangur er óafsakanlegur af hálfu sveitarstjórnarmanna og ber ekki vott um framsýni og hagsmunagæslu sem þeim er ætlandi. Fjarðarheiðargöng eru aðeins fyrsti áfangi að áframhaldandi tengingu um Mjófjörð til Fannardals í Norðfirði, „Samganga“ sem er eitt allra mesta hagsmunamál þróunar byggðar á mið-Austurlandi í seinni tíð.

Til að unnt verði að hefjast handa við gerð Fjarðarheiðarganga á tilætluðum tíma verður aðgengi í fyrstu að gangamunnanum við Dalhús aðeins frá Seyðisfjarðarvegi inn með Eyvindaránni norðanverðri eftir gömlu þjóðleiðinni, sem þar hefur til skamms tíma verið akfær. Hún þarfnast nú í fyrstu aðeins lagfæringa inn eftir því sem kallað hefur verið „norðurleið“. Efni úr göngunum nýtist síðan beint til uppbyggingar leiðarinnar án nokkurrar teljandi haugsetningar við gangamunnann. Annars fyrirhuguð brúargerð á móts við gangamunnann mun aðeins tefja upphaf framkvæmda Héraðsmegin þó það gæti annars e.t.v. þjónað mögulegri „mið- og suðurleið“

Norðurleiðin

Með norðurleiðinni verður þungaflutningum best aflétt af ætluðum miðbæ Egilsstaða. Með henni fara malar- og fiskflutningar o.fl. til fjarða strax af Fagradalsbrautinni upp í gegnum Egilsstaði (miðleiðinni). Þungaflutningar til og frá ferjuhöfn Seyðisfjarðar fara þá ekki lengur þar um heldur. Leiðin skapar einnig besta tengingu þungaflutninga um Fagradal meðan beðið verður frekari gangatengingar Samganga til Fjarðabyggðar.

Norðurleiðin tengist einnig best Úthéraðsvegi til Borgarfjarðar og gömlu leiðinni um Fjarðarheiði, sem áfram verður viðhaldið. Leiðin tengist beint niður á Egilsstaðanesið SA-flugvallarins. Þar yrðu til hin eiginlegu framtíðar vegamót Austurlands á vel hönnuðu hringtorgi, sem tengi Austfirði best við flugvöllinn, Norðurlandsveginn í framtíðinni um nýja brú á Lagarfljót við Fellabæ og til miðbæjar Egilsstaða með hjáleið áfram suður um til Héraðs og Breiðdalsheiðar og Öxi. Umferð Austfirðinga er hvergi meiri en til og frá Egilsstaðaflugvelli og fjarðamenn eiga með tilkomu norðurleiðarinnar jafnframt áfram greiða leið um miðbæ Egilsstaða með þeirri hringtengingu, sem leiðin býður uppá með viðhaldi núverandi Fagradalsbrautar upp um Egilsstaðaskóg.

Höfundur er verkfræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.