Sveitarstjórnarpistill 2 – skipulagsmál 1: Fjarðarheiðargöng

Á haustmánuðum 2019 lagði Vegagerð ríkisins fram tillögu að matsáætlun umhverfisáhrifa fyrir Fjarðarheiðargöng. Matið hefur snúist um þrjár veglínur, sem vegagerðin taldi í boði í og við Egilsstaði. Nú einu og hálfu ári síðar liggur enn ekkert opinberlega fyrir um úrvinnslu matsins. Er það með nokkrum ólíkindum, eins mikilvægt og mál þetta er til undirbúnings framkvæmda.

Sveitarstjórn Múlaþings fjallaði á fundi sínum 9. mars s.l. um „niðurstöður í vinnugögnum“ Vegagerðarinnar eftir fund með fulltrúum. Umfjöllunin er bókuð undir yfirskriftinni „Aðalskipulagsbreyting, Fljótsdalshérað, Fjarðarheiðargöng“ en tiltekur að öðru leyti ekkert er varðar ætlaðar aðalskipulagsbreytingar. Við umfjöllun var þó á fundinum réttilega bent á „…að flýta sem kostur er staðsetningarvali á Lagarfljótsbrú.“ Læt ég umfjöllun þar um bíða að sinni.

Undirbúningur að framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng hefur miðað hægt og segjast verður að sveitarstjórn hefur ekki verið að flýta fyrir eða búa í haginn. Á það við um sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs áður rétt eins og Múlaþings nú. Fyrirliggjandi aðalskipulag Egilsstaða og Fellabæjar er frá því síðla árs 2009 og gildandi fyrir 2008 – 2028. Skipulagið sýnir ekkert er varðar Fjarðarheiðargöng þó greinargerð nefni hugmynd um „Samgöng“ er tengi saman Hérað og fjarðabyggðirnar frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Fannardals í Norðfirði enda þá verið til umfjöllunar um árabil.

Árið 2000 samþykkti Alþingi Jarðgangaáætlun þar sem horft var til langs tíma og afstaða tekin til þess hvar næstu jarðgöng skyldu gerð. Þeirri jarðgangaáætlun hefur verið fylgt að mestu leyti. Alþingi samþykkti 29. júní 2020 samgöngu-áætlun til 2020-2034 þar sem næstu jarðgöng yrðu Fjarðarheiðargöng, sem ætlað hefur verið að bjóða út síðar í ár og í framhaldinu Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng.

Aðalskipulagið

Aðalskipulagið frá 2009 er um margt vanhugsað og skiptir þar mestu að ekkert er þar hugsað fyrir tilkomu Fjarðarheiðarganga og æskilegri þróun samgangna um vegamót. „Hér verða vegamót“ eru fræg ummæli, sem fylgt hafa þróun byggðar á Egilsstaðajörðinni um 130 ára skeið. Þá var e.t.v. aðeins fyrirséð að Lagarfljót yrði brúað en annars voru aðeins reiðleiðir, sem lágu þar um hlað og nokkuð í að bílvegir krossuðust þar og flugvöllur kæmi í túnið. Í skipulagsmálum skiptir víðsýni og framsýni öllu máli. Aðalskipulag Egilsstaða og Fellabæjar hefur þó séð fyrir þá öru byggðaþróun, sem orðið hefur.

Í tímans rás hefur byggðin þanist út í allar áttir, en þó án þess að eiginlegur miðbær hafi náð að þróast og er þar öðru fremur um að kenna legu og umferðarþunga Fagradalsbrautar. Það eru orðin 40 ár síðan menn þóttust sjá fyrir að Egilsstaðabyggðin myndi þróast norður fyrir Eyvindarána enda væri þá fyrirséð að búskapur væri þar að leggjast af. Það var þá strax einnig talið æskilegt að beina umferðarþunganum af Fagradalsbrautinni og það eitt kom til greina að tengja Norðurlandsveginn um Melshorn á nýrri brú og nýrri Fagradalsbraut upp með Eyvindaránni norðanverðri inn Fagradal. Hugmyndir hlutu þá ekki brautargengi, Eyvindaráin var brúuð á sömu slóðum og áður, byggðinni stefnt til suðurs og umferðarþunga Fagradalsbrautar áfram beint að bensínstöðvunum, sem menn töldu stuðla að æskilegri miðbæjarmyndun.

Nú virðast menn vera farnir að sjá hvaða mistök hafa verið gerð, byggðin hefur þrátt fyrir allt verið að þróast norðan Eyvindarár enda skipulagið opnað á það samhliða því að byggðin hafi verið þvinguð til suðurs og austurs. Miðbærinn hefur hins vegar lítið breyst enda skorinn sundur af sífellt þyngri umferð.

Leiðaval að gangamunna

Tenging vegganganna hefur mikil áhrif á skipulag Egilsstaða. Valið stendur í raun ekki um að beina umferðarþunganum lengur um núverandi Fagradalsbraut.

Mönnum eru löngu ljósir kostir þess að þróa byggð norðan Eyvindarár. Til þess er æskilegt að fá vegtengingu eins og áður voru hugmyndir um með „norðurleið“ upp með ánni norðanverðri með brúm á þann farartálma, sem Eyvindaráin hefur verið. Komin yrði á hringtenging því vegurinn um Hálsenda, núverandi Fagradalsbraut yrði þar áfram. Tengingin eykur augljóslega til stórra muna nýtingarmöguleika alls landsvæðisins til langrar framtíðar. Vandséð er hins vegar hvaða tilgangi hugmyndir þjóni um flutning umferðarþunga af Fagradalsbraut á nýja „suðurleið“ svo sem vegagerðin hefur lagt til. Sjónarmið vegagerðarinnar eiga ekki að ráða afstöðu sveitarstjórnarmanna til þróunar byggðar á vegamótum.

Vegagerðin eltir í hugmyndum sínum um norðurleiðina vanhugsaða leið aðalskipulagsins niður um Melshorn og gerir illt verra, m.a. með því að setja krossgötur Seyðisfjarðar/Borgarfjarðarvegar í tvö T-gatnamót í stað þess að leysa í einu hringtorgi. Einnig hefði þurft að færa vegstæðið yfir gamla Eyvindarártúnið meir til norðurs. Hvorutveggja hefði sveitarstjórn þurft að hafa frumkvæði að, svo og að gæta þess að staðsetning skólphreinsistöðvar við Melshorn hindri ekki vegar- og brúarstæðið á þeim slóðum.

Val Vegagerðarinnar stóð til að byrja með um gangnamunna Héraðs megin ofan Steinholts eða við Dalhús. Sveitarstjórn gerði þá enga tilraun til að skoða hvaða áhrif það hefði á nýtingu lands, skipulag og mögulega þróun byggðar. Sveitarstjórn lét vegagerðinni 2020 eftir að velja Dalhús þó ekki liggi fyrir ástæður. Þetta er afgreiðsla sem ekki hefur fengið formlega staðfestingu en þó ekki vert að hrófla nú við úr því sem komið er.

Sveitarstjórnarmenn Múlaþings eiga enn möguleika á að bæta ráð sitt og búa svo í haginn með framsýni og víðsýni að allt sé gert til að nýta til hins ýtrasta möguleika til eflingar byggðar á vegamótum Austurlands. Til þess þarf nú umræðu um skipulag samgangna og byggðaþróun í víðasta skilningi. Menn mega ekki hræðast þá umræðu eða láta stjórnast af þröngum viðhorfum Vegargerðarinnar eða fjarðamanna. Það eru heildarhagsmunir fjórðungsins að þjónustumiðstöð Austurlands eflist á vegamótum og rutt sé úr vegi öllum hindrunum.

Höfundur er verkfræðingur

fjardarheidargong vegir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.