Svar við grein Hjörleifs Guttormssonar um Litlu Moskvu

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Austfirðinga, skrifaði grein í Morgunblaðið þann 24. nóvember sl. þar sem hann gagnrýnir heimildarmyndina Litlu Moskvu sem undirritaður leikstýrði og sýnd verður í Egilsbúð um helgina. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Hjörleifi og því sem hann hefur staðið fyrir, sér í lagi baráttu hans fyrir náttúru Íslands.

Það kom mér samt ekki endilega á óvart að Hjörleifur hafi haft ýmislegt út á myndina að setja. Í fyrri hluta greinarinnar gagnrýnir hann kvikmyndatökuna og söguþráðinn í myndinni. Ég ætla ekki að svara þeim athugasemdum eða reyna að réttlæta listrænar ákvarðanir mínar en vil bara segja það að sumt efnið í myndinni er hrárra en annað. Það var tekið upp snemma í framleiðsluferlinu þar sem lá á að taka upp viðtöl við fólk sem átti ekki langt eftir ólifað. Ég tók það efni upp sjálfur á ódýra kameru á meðan að stærstur hluti myndarinnar er tekin upp af alvöru kvikmyndatökumanni og á betri búnað.

Hjörleifur gagnrýnir þá ákvörðun mína að láta myndina heita Litla Moskva. Segir það vera „skrípanafngift“ og kemur með þá söguskýringu að Smári Geirsson og Einar Már Sigurðsson hafi fundið upp þessa nafngift á 10. áratugnum. Ég hef kynnt mér málið og rætt við marga Norðfirðinga og komist að því að þetta er ekki rétt hjá honum. Nafngiftin er miklu eldri og því til staðfestingar bendi ég á viðtal við Reyni Zoëga, fyrrverandi bæjarfulltrúa, í Morgunblaðinu árið 1979 þar sem hann talar um „Litlu Moskvu“.  Samkvæmt munnlegum heimildum mínum þá er þessi nafngift mun eldri. Mér finnst undarlegt að þetta hafi farið framhjá Hjörleifi sem að bjó lengi í bænum og var þingmaður Austfirðinga um árabil.

Hjörleifur mótmælir því að trú manna á Sovétríkin hafi verið jafn útbreidd í bænum og gefið er í skyn í myndinni. Þar vitnar hann einnig í viðtal við mig í Fréttablaðinu þar sem ég ræði almennt um tengsl íslenskra sósíalista við Sovétríkin og nefni dæmi um hvernig þau birtust í Neskaupstað. Þarna skynja ég ákveðna afneitun hjá Hjörleifi sem er algeng á meðal sósíalista af hans kynslóð. Ef maður flettir gömlum tölublöðum af Austurlandi, einkum frá 6. áratugnum, þá kemur fram bullandi dýrkun á Sovétríkjunum. Menn fóru í boðsferðir til Sovétríkjanna og skrifuðu um það í blaðið, oft í trúarlegum stíl. Ritstjóri blaðsins, Bjarni Þórðarson, sem jafnframt var bæjarstjóri lengi, fór í boðsferð til Sovétríkjanna og skrifar jákvæðar greinar um Sovétríkin langt frameftir 7. áratugnum. Hér má sjá grein úr blaðinu frá árinu 1967. 

Þegar fjallað er um trú manna á Sovétríkin þá skiptir máli hvaða tímabil er verið að vísa til. Við getum sagt að saga sósíalistanna í Neskaupstað hefjist upp úr 1930, þegar þremenningarnir koma fram, og endi árið 1998 þegar Fjarðarbyggð verður til. Trúin á Sovétríkin var augljóslega mun meiri á fyrri hluta þessa tímabils en minkaði þegar leið á öldina, einkum eftir að glæpir Stalíns komu í ljós 1956 og eftir innrásina í Tékkóslóvakíu 1968. Í viðtalinu var ég að vísa til fyrri hluta þessa tímabils.

Hjörleifur mótmælir einnig þeim ummælum mínum að kommarnir í Neskaupstað hafi verið „iðnaðarkommar“. Þetta hugtak er þekkt í umræðunni þótt það finnist tæplega í orðabók. Alþýðubandalagið var alltaf klofið í afstöðu sinni til stóriðju, allt frá því að álverið í Straumsvík var reist seint á 7. áratugnum. Þeir sem studdu stóriðjuna voru kallaðir „iðnaðarkommar“, oft menn sem höfðu sterk tengsl við verkalýðshreyfinguna.

Þegar hugmyndin kemur upp að reisa álver á Reyðarfirði eru það leiðtogar Alþýðubandalagsins í Neskaupstað sem eru helstu stuðningsmenn. Þetta kemur skýrt fram í myndinni í máli þeirra sjálfra. Þó að Hjörleifur og einhver hópur í kringum hann hafi verið mótfallnir byggingu álversins, þá studdi mikill meirihluti Alþýðubandalagsmanna í Neskaupstað þessar framkvæmdir. Og ef maður skoðar hugmyndafræði gömlu kommana í Neskaupstað, sem gekk út á „öflugt atvinnulíf“ og að „allir hefðu vinnu“, þá er ekki langsótt að segja að stóriðjustefnan í kringum síðustu aldamót hafi verið framhald af þeirri hugmyndafræði.

Þegar ég las grein Hjörleifs í Morgunblaðinu þá velti ég því strax fyrir mér hvort ég ætti að svara henni. En ég komst að þeirri niðurstöðu að ég væri sennilega of mikill kommúnisti til að skrifa í Moggann. Þess vegna ávað ég að birta hana hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.