Styðjum fjölbreytta atvinnuuppbyggingu

Sveitarstjórn Múlaþings samþykkti á síðasta fundi sínum drög að umsögn um frummatsskýrslu vegna 10.000 tonna laxeldis í Seyðisfirði. Að baki liggur skýr vilji mikils meirihluta sveitarstjórnar en níu af ellefu fulltrúum greiddu atkvæði með tillögunni.

Nokkrar umræður hafa skapast varðandi fyrirhugaða uppbyggingu og sýnist sitt hverjum sem meðal hefur endurspeglast á samfélags- og svæðismiðlum. Gagnrýnendur halda því meðal annars fram að samráð hafi skort við íbúa og sveitarfélagið í aðdraganda alls þessa. Einnig voru staðsetningar kvíanna gagnrýndar og þá einkum við Háubakka. Heimastjórn tók umrædd atriði fyrir og brást Fiskeldi Austfjarða við hvoru tveggja, með því að hætta við staðsetninguna við Háubakka og leggja drög að frekari kynningum til íbúa.

Aðrir hafa gagnrýnt erlent eignarhald á fyrirtækjum í laxeldi og því að lög um skipulag haf- og strandsvæða skuli ekki ná til fyrirætlana um laxeldi í Seyðisfirði. Enn aðrir benda á mögulega sjónmengun og draga í efa að tekjur og umsvif verði næg til að réttlæta framkvæmdina. Á öllu þessu má hafa mismunandi skoðanir.

Framhjá því verður þó ekki litið að í þeim sveitarfélögum þar sem fiskeldi og starfsemi því tengd hefur náð sér á strik hefur það haft mikil og afgerandi efnahagsleg áhrif. Beinar heildartekjur hafnarinnar á Djúpavogi af laxeldi verða rúmar 60 milljónir á yfirstandandi ári. Útsvarstekjur af starfsfólki í Búlandstindi og starfsfólki fiskeldisins á staðnum eru tæpar 70 milljónir. Af áætluðum afleiddum störfum eru útsvarstekjur rúmar 13 milljónir. Samtals eru því tekjur af fiskeldi, eingöngu á Djúpavogi, áætlaðar rúmlega 140 milljónir á yfirstandandi ári. Gangi áætlanir eftir er ljóst að tekjur Múlaþings af fiskeldistengdri starfsemi eiga eftir að aukast mikið á næstu árum. Þær tekjur eiga eftir að skipta máli varðandi þjónustu og uppbyggingu í sveitarfélaginu í framtíðinni.

En lífið er meira en peningar. Líkt og í hefðbundnum sjávarútvegi þar sem tækniframfarir hafa verið örar undanfarin ár hafa menntunar og hæfniskröfur í fiskeldi aukist til muna. Samhliða uppbyggingu og auknum umsvifum í tengslum við eldið sjálft hefur því önnur uppbygging átt sér stað. Nokkur fjöldi starfsfólks hefur þegar aflað sér viðeigandi menntunar meðal annars í Háskólanum á Hólum og þegar þetta er ritað eru að minnsta kosti 6 nemendur frá Austurlandi að mennta sig í greininni og sveitarfélagið á vonandi eftir að búa að þeim mannauði til framtíðar

Í Múlaþingi reynum við að taka vel á móti hverjum þeim sem hér vill taka þátt í ábyrgri uppbyggingu í atvinnulífi. Gildir þá einu hvort um er að ræða ferðaþjónustuaðila, smiði, hárgreiðslufólk, menningarstarfsemi, bifvélavirkja – eða fiskeldi. Reynslan hefur sýnt að varhugavert er að hafa öll eggin í sömu körfunni og enn og aftur er það fjölbreytnin sem skiptir öllu máli. Verði samdráttur í einni grein atvinnulífsins þurfa aðrar að geta tekið við. Þannig verður gifturík framtíð sveitarfélagsins tryggð.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.