Sterk rödd á Austurlandi

Undanfarnar vikur hafa frambjóðendur fyrir sveitastjórnarkosningarnar á Austurlandi kynnt stefnuskrá sína, helstu áherslur og þá frambjóðendur sem bjóða fram krafta sína til að vinna gott verk í þágu nærsamfélagsins.

Það fer ómæld vinna við slíkt framboð og það er ánægjulegt að sjá hve mikill kraftur er í frambjóðendum. Sjálfboðaliðar í grasrótinni vinna svo baki brotnu þessar stundir til að koma hugsjónum sínum og annarra á framfæri. Þessir einstaklingar eiga svo sannarlega gott klapp á bakið skilið, fyrir óeigingjarnt starf í þágu heildarinnar.

Kraftmikið framboð í Múlaþingi

Framboð Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi er samsett af reynslumiklum einstaklingum og nýjum frambjóðendum sem allir eru tilbúnir að leggja hönd á plóg fyrir samfélagið sitt. Þar fremst á lista er Berglind Harpa Svavarsdóttir, sem kom ný inn í pólitík fyrir örfáum árum en hefur komið virkilega sterk inn og sett málefni landsbyggðarinnar rækilega á dagskrá. Henni fylgir mikill kraftur, en einn besti eiginleiki Berglindar Hörpu, er hversu einlæg hún er í baráttu sinni fyrir jafnræði á landsbyggðinni og sérstaklega þeim málum er snúa að Múlaþingi.

Frambjóðendum á lista flokksins í Múlaþingi treysti ég fyrir áframhaldandi uppbyggingu, fjölgun íbúa, sókn í atvinnulífinu og ábyrgri fjármálastjórn. Ungt fólk skipar meirihluta á lista Sjálfstæðisflokksins og því er til mikils að vinna. Listinn leggur mikla áherslu á að gera betur við unga fólkið og það er mikilvægt að treysta unga fólkinu til að framfylgja stefnumálum er snúa að yngri kynslóðinni.

Framtíðin er björt í Fjarðabyggð

Baráttuhugurinn er mikill hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð. Þar hefur orðið mikil atvinnuppbygging síðustu árin og íbúafjölgun fylgt þar eftir. Framboðið hefur bent á að rekstur Fjarðabyggðar sé í miklum ólestri og nauðsynlegt sé að taka fjárhaginn föstum tökum.

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð er Ragnar Sigurðsson, traustari mann er erfitt að finna. Hann brennur fyrir samfélaginu sínu og íbúum þess. Hann talar af mikilli þekkingu og reynslu um rekstur sveitarfélagsins og ég er ekki í neinum vafa um að Sjálfstæðisflokkurinn mun láta verkin tala í sveitarstjórn undir forystu Ragnars.

Valið er skýrt

Við göngum til kosninga á morgun, laugardaginn 14. maí. Valkostirnir eru skýrir. Oddvitar Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi og Fjarðabyggð hafa sterka tengingu við landsmálin, sem varaþingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi hafa sterka rödd á landsvísu.

Fjölmennum á kjörstað. Setjum x við D!

Höfundur er þingmaður Norðausturkjördæmis

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.