Orkumálinn 2024

Samvinna um kaup í Síldarvinnslunni

Þau stórtíðindi bárust frá Norðfirði á dögunum að Síldarvinnslan ætli sér endurkomu í Kauphöllina. Félagið var á markaði frá 1994 en var afskráð eftir 10 ár, eða 2004.

Ástæða er til að fagna því að Síldarvinnslan verði skráð að nýju því þar með undirgengst félagið ríkar skyldur, meðal annars um upplýsingagjöf og jafnræði hluthafa. Það átti að vera almenningshlutafélag í upphafi og skráð félag getur vissulega verið í dreifðri eignaraðild. Raunar segir frá því í heimildarmyndinni Litlu Moskvu í viðtali við Stellu Steinþórsdóttur, fiskverkakonu og fyrrverandi bæjarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokks, að verkafólki hafi ekki litist á þá þróun sem varð eftir að félagið var skráð á markað. Eignarhluti heimamanna hafi þynnst út og fáir aðilar setið eftir með áhrif yfir félaginu.

Ég tel að nú sé ráð fyrir heimamenn og starfsfólk að bindast samtökum um það að kaupa drjúga hluti í félaginu til þess að tryggja betur heimilisfesti félagsins á Austfjörðum. Það mætti hugsa sér að stofna samvinnufélag til þess arna. Það getur haft veruleg áhrif til góðs ef að heimamenn eiga fulltrúa í stjórn Síldarvinnslunnar því ekki er á það að treysta að fjárfestar hafi alltaf sömu hagsmuni og heimafólk.

Skínandi dæmi

Nærtæk dæmi eru um það á Austfjörðum hversu miklu máli skiptir að útgerðarfélög séu í sterkri félagslegri eigu. Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði er skínandi dæmi um vel rekið félag sem fjárfestir arðinn í heimabyggð. Fyrirtækið hefur endurfjárfest til þess að byggja upp öfluga bolfisksvinnslu ásamt því að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtæki sem hafa mun heimilisfesti á Fáskrúðsfirði. Nærtækast er þó auðvitað það að hluti af Síldarvinnslunni hefur alltaf verið í eigu heimafólks. Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað á ennþá 10% í félaginu. Það eignarhald hefur verið Norðfirðingum dýrmætt í gegnum tíðina og á samvinnufélagið sér glæsta sögu sem spannar allt aftur til 1932. Samvinnufélagið rekur verslanir og hefur nýtt arðinn af eign sinni í Síldarvinnslunni til þess að styrkja menningar- og félagsmál í heimabyggð af miklum myndarskap.

Sömuleiðis hljóta það að vera hagsmunir lífeyrissjóða starfsfólks á Austfjörðum að eignast hlut í þessu öfluga og vel rekna fyrirtæki. Þar með væri heimilisfestin treyst betur og verðmætin sem skapast í sjávarútvegi Norðfirðinga rynnu að hluta í lífeyrissjóð starfsfólks.

Sjálfstæði sjávarútvegs

Ætla má að á næstu árum fari fleiri sjávarútvegsfyrirtæki á markað. Kemur það til vegna þess að sú kynslóð útgerðarmanna sem byggði upp fyrirtæki eftir að kvóti varð framseljanlegur er að verða roskinn og kynslóðaskipti í aðsiglingu eða hafin. Ólíklegt verður að teljast að allir erfingjar vilji halda eftir eign sinni í sjávarútvegsfyrirtækjum heldur óski eftir því að verða keyptir út. Í sumum tilvikum hafa þessar útgerðarfjölskyldur haft miklar tengingar við þau pláss sem ólu þær upp og óvíst hvort að sömu tengsl séu við fjárfesta í kauphöllinni.

Það ættu því allir íbúar sjávarplássa, sem reiða sig á útgerð, að velta því fyrir sér með hvaða hætti þeir geti tryggt það að heimafólk eigi hlutdeild í atvinnutækjunum. Tangarsókn þarf, lífeyrissjóða og heimafólks, til þess að tryggja sjálfstæði sjávarútvegs og tengja hann við heimaslóð. Að öðrum kosti er hætt við því að böndin sem tengt hafa útgerðir við heimabyggðina taki að trosna og að veiðiheimildir og störf sogist til örfárra staða í kringum landið. Með tilheyrandi áhrifum á byggðafestu og sjálfstæði sjávarplássa.

Framsækinn erfðafjárskattur

Í huga þess sem þetta ritar ætti að sjálfsögðu að vera framsækinn erfðafjárskattur svo að sanngjarnt hlutfall sé greitt í sameiginlega sjóði fyrir þau forréttindi að erfa stóra hluti í verðmætustu fyrirtækjum landsins. Fyrir þau sem fæðast með slík forréttindi ætti það að vera hægðarleikur að greiða tuttugu til þrjátíu krónur fyrir hverjar þær hundrað sem þeim hlotnast sökum ætternis. Augu almennings munu beinast að þessu á næstu árum þegar kynslóðaskipti ganga fram og þau miklu auðæfi sem orðið hafa til vegna þeirrar ákvörðunar íslensks samfélags að takmarka sókn í fiskveiðiauðlindina deilast út til erfingja eigenda eignarhluta í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Höfundur er frambjóðandi í forvali Vinstri Grænna í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.