Sameinuð í einu sveitarfélagi – Opnum hugann

Ungt fólk í dag horfir ekki bara á bæjarkjarnann sinn sem mögulegan stað til búsetu í framtíðinni, heldur er heimurinn allur undir þegar ungt fólk velur sér stað til búsetu. Því er mikilvægt að við opnum hugann og stöndum saman um að nýta öll þau tækifæri sem í boði eru í hverjum bæjarkjarna og horfa þannig á sveitarfélagið sem eina heild. Þá einnig Austurland sem eina heild.

Í sveitarfélaginu eru fjölbreytt tækifæri er varða atvinnu, íþrótta og menningarstarfsemi. Ef við horfum á þetta allt sem eina heild er líklegra að unga fólkið vilji búa hér í framtíðinni. Við höfum góðar samgöngur hér í Fjarðabyggð sem við ættum að nota meira. Við höfum líka fjölbreytt íþróttamannvirki og alls kyns afþreyingamöguleika t.d. fótbolta, blak, fimleika, golf, siglingaklúbba, karate og fleira, svo eitthvað sé nefnt. Sundlaugamannvirkin okkar eru t.d. glæsileg og það er frítt fyrir yngri en 18 ára hér í Fjarðabyggð. Við höfum margar bæjarhátíðir og gott menningarlíf í hverjum bæjarkjarna. Við eigum að nýta samgöngurnar okkar enn meira, það er frítt fyrir yngri enn 16 ára í þessar ferðir. Okkur finnst ekkert mál að keyra frá Mosfellsbæ niður í miðbæ Reykjavíkur, þá ætti heldur ekki að vera mál að keyra hérna á milli bæjarkjarna í Fjarðabyggð.

En af hverju er sameining mikilvæg? Ég hef æft fótbolta síðan ég var fjögurra ára gömul. Ég byrjaði að spila fyrir Þrótt Neskaupstað og þá var samkeppni milli hvers bæjarkjarna hér í Fjarðabyggð. Í dag spila ég fyrir Fjarðabyggð/Leikni/Hött, stelpur frá sitthvorum bæjarkjarnanum komnar saman sem ein heild og þétt staðið saman. Ég keyri á æfingar á hverjum degi upp í Egilsstaði og til Reyðafjarðar, til skiptis. Þá er 3. flokkur kvenna Fjarðabyggðar/Leiknis/Hattar sameinaður Sindra Hornafirði og leikmenn keyra á Hornafjörð til að spila sem sameiginlegt lið. Þó þetta sé vissulega oft erfitt þá gerir þetta fyrirkomulag okkur félagslega sterkari. Sterkari sem leikmenn og hefur opnað huga okkar fyrir því að sameinuð erum við sterkari.

Ég útskrifast núna úr Verkmenntaskóla Austurlands þar sem ungmenni úr öllum bæjarkjörnum hér í Fjarðabyggð stunda nám. Sem formaður nemendafélagsins hef ég lagt áherslu á skemmtilegt félagslíf um allt Austurland fyrir ungt fólk, enda á ekki á að skipta mestu máli hvar skemmtunin er haldin.

Fjarðabyggð er ein heild og það er nauðsynlegt að við séum með opin huga fyrir því. Sameining gerir okkur sterkari sem heild, við styrkjumst félagslega og lífið verður miklu auðveldara. Mér finnst við unga fólkið í Fjarðabyggð vera lengra komin með að opna hugann en margir þeir sem eldri eru. Félagslíf, íþróttalíf, menning og tónlistarlíf er ekki í einum bæjarkjarna heldur út um allt í Fjarðabyggð. Opnum hugann!

Höfundur skipar 17. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.