Sameiningar sveitarfélaga: Er eftir einhverju að bíða?

Fjöldi krefjandi verkefna bíður nú sveitarfélaga á Íslandi við að þjónusta íbúa sína betur. Kröfurnar aukast sífellt. Mörg þeirra eiga erfitt með að mæta þeim. Sum geta það alls ekki. Tekjurnar duga ekki fyrir útgjöldum. Þau svara því ekki kröfum tímans verða undir og dæmast að lokum úr leik til búsetu. Stöðnun og óbreytanleiki, í síbreytilegu nútíma samfélagi, er stysta leiðin að endalokunum. Að vera á hliðarlínunni í skjóli horfa á en þiggja, vera ekki þátttakandi, getur ekki verið í boði mikið lengur.

Stjórnsýslustigin í landinu eru tvö, ríki og sveitarfélög. Ríkið sem er miklu öflugra og allt um kring ræður að mestu ferðinni. Tekjuskiptingin milli þessara tveggja stjórnsýslustiga er búin að vera stóra þrætueplið í marga áratugi. Sterkara og öflugra bakland sveitarfélaganna er liður í að árangur náist í þeirri baráttu. Helmingur sveitarfélaga á Íslandi er með íbúafjölda undir 1000. Of mörg þeirra ekki sjálfbær í dag.Sveitarfélögin hafa kallað á hjálp. Löggjafinn svarar kalli og býr sig nú ákveðið undir aðgerðir. Festa skal í sessi lágmarksíbúatölu sveitarfélaga við 250 Sú tala mun hækka í 1000 íbúa innan fárra ára. Það stefnir því í að helmingur sveitarfélaga á Íslandi verði færður, nauðugur viljugur, til sameiningar á næstu árum. Hvernig er best að bregðast við þeirri stöðu? Getur ekki svarið verið að taka frumkvæðið sjálf heima fyrir. Vera á undan og fara í viðræður með t.d. vinum sínum í næsta sveitarfélagi? Það virðist ekki vera í boði að bíða mikið lengur.

Íbúarnir vilja skoða sameiningu. Á síðasta ári samþykktu sveitar-og bæjarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar að hefja formlegar sameiningarviðræður sveitarfélaganna. Áður höfðu farið fram könnunarviðræður meðal íbúanna um viðhorf þeirra til sameiningar. Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur kusu að taka ekki þátt.

Sveitarfélagið Austurland er vinnuheiti verkefnisins. Það verður landfræðilega langstærsta sveitarfélag landsins með fjóra byggðakjarna og umfangsmikið dreifbýli. Tryggar samgöngur og skilvirkar almenningssamgöngur er grunnur að því að vel takist til við sameininguna og að íbúar sjái með því tækifæri í því að samþykkja tillögu um sameiningu. Samgöngubætur sem settar eru í fyrsta forganga eru Fjarðarheiðargöng, Axarvegur, Borgarfjarðarvegur og Egilsstaðaflugvöllur. Þær hafa verið kynntar rækilega fyrir þingmönnum- samgöngu og sveitarstjórnarráðuneyti og fjárveitingavaldinu Alþingi. Það er því alls ekki tilviljun sem ræður því nú að áralöng baráttumál hafa fengið nýtt líf fyrir nokkrum dögum í drögum að nýrri samgönguáætlun. Vegur um Öxi og Fjarðarheiðargöng eru færð fram sem forgangsverkefni með upphaf á fyrsta tímabil (2020-24) áætlunarinnar og stefnan sett á að Egilsstaðaflugvöllur verði byggður upp sem aðalvaravöllur alþjóðaflugs á Íslandi. Góður gangur hefur verið í veginum til Borgarfjarðar. Heldur betur spennandi áskorun sem opnar mörg ný tækifæri til að vinna með í öflugu nýju sveitarfélagi.

Samstarfsnefnd, skipuð fulltrúum allra sveitarfélaganna, hefur verið að störfum ásamt öflugu ráðgjafa teymi. Haldnir hafa verið nokkrir íbúafundir á hverjum stað, rýnt í og greindar óskir væntingar og áhyggjur íbúanna. Þeir velta eðlilega fyrir sér t.d. mismunandi skuldastöðu sveitarfélaganna og hvernig tryggja megi áhrif jaðranna, á ákvarðanatöku þ.e. að sá stóri gleypi ekki þá minni. Hvað verður um skólann minn? Íþróttafélagið mitt, eldri borgara o,fl .

Áhersla er lögð á að varðveita sérkenni hvers sveitarfélags. Íbúar á Seyðisfirði verða áfram Seyðfirðingar í sínum fallega alþjóðlega ferðamanna-lista-og menningar-bæ með sinn skóla, íþróttafélagið Huginn og öfluga inn- og útflutningshöfn. Bláa kirkjan og Regnbogagatan fara ekkert. Stærsta sveitarfélagið er með hæsta skuldahlutfallið hin lægra. Það minnsta nánast skuldlaust. Á móti kemur að hjá þeim minni er mikil og meiri þörf á innviða-fjárfestingu og viðhaldi. Til að mæta þeirri stöðu og milda í nýju sveitarfélagi leggur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga til um 1.400 milljjónir króna sem á að nota m.a. til að lækka skuldir og mæta innviðafjárfestingu í minni sveitarfélögunum. Ný nálgun til að styrkja smærri byggðakjarnana þrjá til áhrifa á ákvarðanatöku er þriggja manna heimastjórn sem kosið verður til í hverjum byggðarkjarna (Seyðisfirði-Borgarfirði-Djúpavogi).* Heimastjórnir fara með umsjón nærþjónustuverkefna. Miðað við núverandi stöðu og greiningu er nýtt sameinað sveitarfélag með góðan fjárhag og fjárfestingargetan er góð*. (*=úr skýrslu samstarfsnefndar )

Í dag er sveitarfélagið Fjarðabyggð (sameinað úr 7 sveitarfélögum) fjölmennasta og öflugasta sveitarfélagið á Austurlandi. Það hefur alla burði og sýnir sig í að geta veitt sínum íbúum góða þjónustu og betri en víðast hvar annarsstaðar í sveitarfélögum á Austurlandi. Styrk sinn hafa þeir nýtt til að efla sína innviði og um leið bjartsýni íbúanna svo eftir er tekið. Þeir nýta vel og njóta stærðar sinnar og afls í samskiptum við önnur smærri sveitarfélög í landshlutanum . Nýtt öflugt sameinað sveitarfélag á Austurlandi réttir við m.a. þann halla sem nú er á getu sveitarfélaganna til að mæta betur góðri þjónustu við íbúa sína og atvinnulíf. Tíminn mun síðan leiða í ljós hvenær, ekki hvort, Austurland allt verður eitt öflugt sveitarfélag. Það mun vera nær í tíma en marga grunar.

p.s. kunnugir segja að yngra fólkið okkar kjósi með sameiningu, fyrir framtíð sina á Austurlandi. Ég vil fylgja þeirra framtíðarsýn.

Þorvaldur Jóhannsson, eldri borgari á Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.