Sameining Austurlands

Fyrir tíu árum sendi ég stjórn SSA hugmynd að skipulagi sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi byggða á byggðakjörnunum. Málið kynnt. Síðan hefur orðið til Múlaþing og SSA er orðið vígvöllur tveggja stjórna. Öllum ætti að vera orðið ljóst að þetta er ekki lýðræði til framtíðar. Það verður að taka þetta mál á dagskrá. Búinn að aftursenda erindið til SSA.

Með hugmynd minni sendi ég þennan texta:

Sveitarfélagið Austurland

Sameining sveitarfélaga er á dagskrá á Austurlandi. Yfir minni sveitarfélögunum vofir þvinguð sameining við þau stærri og SSA er með sameiningarmálin á oddinum. Við verðum því að móta stefnu í málinu sem tekur mið af reynslu fyrri sameininga og er ásættanleg fyrir þau sveitarfélög sem ekki hafa séð hag sínum borgið í því mynstri sameiningar sem hingað til hefur viðgengist.

Inngangur

Stjórnkerfi sveitarfélaga og lýðræðislegt fyrirkomulag á sér þær rætur að sérhver byggðakjarni sé sérstakt sveitarfélag. Í sameiningarferli síðustu áratuga hefur ekkert tillit verið tekið til þessa kjarna kerfisins heldur er haldið í stjórnsýsluformið og það plástrað inn í fjölbyggðasamfélagið. Niðurstaðan er að sérstaða, hagsmunagæsla og samfélagsstarf hvers einstaks byggðakjarna hefur engan vettvang. Við hefur tekið embættismannakerfi og yfirstjórn sem hvorki hefur staðarþekkingu eða umboð til að gæta þess sem mestu skiptir, starfseminni í hverjum byggðakjarna, nærsamfélaginu.

Áhrifin og afleiðingarnar eru augljós í sameiningarferlinu í fjölbyggða samfélaginu á Austurlandi. Þrátt fyrir marga augljósa kosti sameiningar þá hefur byggðarígur aukist og áhrif íbúa á umhverfi sitt minnkað. Samstarfsvettvangur sveitarfélaganna (SSA) er orðinn vígvöllur Fjarðarbyggðar og Héraðs án ítaka þeirra sveitarfélaga sem enn starfa á grundvelli einstaks byggðarlags. Þar er kvíði um hugsanlega þvingaðar sameiningar, um að hagsmunir einstakra byggða verði undir í sameinuðu sveitarfélagi og um að allt stjórnkerfi hverfi úr fyrir byggðalagið.

Það er ljóst að ef sátt og samhugur á að verða um frekari sameiningar og ef einhugur á að skapast innan þeirra samfélaga sem þegar hafa sameinast þá þarf að byggja upp nýtt stjórnsýslukerfi sem tekur mið af því að innan sveitarfélagsins verða áfram sem áður sjálfstæðir byggðakjarnar með sín innri málefni og margvíslega sérhagsmuni sem eingöngu verður gætt af viti og í sátt undir stjórn heimamanna á hverjum stað.

Í leit að slíku kerfi tel ég rétt að líta til sameiningarumræðunnar á 8. og 9. áratugum síðustu aldar. Þá voru hér fjölmörg sveitarfélög, eitt í hverjum kjarna. Þá gerðu menn sér skýra grein fyrir nauðsyn hagsmunagæslu og sjálfstjórn hvers byggðakjarna. Á þessum tíma var ég fylgjandi hugmyndum um þriðja stjórnsýslustigið, héraðsstjórnir. Sú umræða á ekki við lengur en hins vegar er nú rætt um sameiningu alls þess svæðis sem áður var hugsað sem Austurhérað. Hugmyndir sem þá voru ræddar um valddreifingu og miðstjórnarvald finnst mér að gætu gagnast í sameinuðu sveitarfélaga Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.