Sameining

Nú er horft til þess að sameina þau sveitarfélög á Austurlandi sem ekki eru í Fjarðabyggð. Að undanskildum auðvitað Fljótsdalshrepp sem áfram hefur allar tekjur af Kárahnjúkamannvirkjunum. Þá myndast langur kragi um Fjarðarbyggð með miðstöð á Egilsstöðum. Með þessu væri verið að kerfisbinda sundurlyndi í fjórðungnum. Það á sér langa sögu í pólitíkinni en enga stoð í samtvinnuðu samfélagi Austurlands nútímans. Þá verður SSA aðeins vígvöllur tveggja póla.

Í þessu nýja sveitarfélagi eru fámennar fjarlægar sjávarbyggðir og einn stór þjónustukjarni sem öllu mun ráða í krafti meirihlutans. Í lýðræðinu ræður sjóndeildarhringur meirihlutans. Raunin er að fólk sér almennt ekki mikið út fyrir hagsmuni sína og það hefur meira þol gagnvart því sem snertir það ekki beint. Allir þekkja þetta vel. Umburðarlyndi gagnvart málefnum minnihlutans er þá blessun. Mér heyrist samt á Héraði að þar fylgi menn sameiningunni af aumingjagæsku við ósjálfbjarga strandbyggðir. Það yrði ekki til að styrkja þær í stórsamfélaginu.

Við sameininguna verður stjórnun markvissari, betur upplýst og vísindalegri. Stjórnun verður vettvangur starfandi opinberra fræðimanna með vísindalegan skilning á því hvað er nauðsynlegt og hvernig það skuli gert. Í þessu tilviki yrðu þeir búsettir á Egilsstöðum sem að sjálfsögðu myndi engin áhrif hafa á fræðilegar niðurstöður þeirra varðandi veruleikann.

Sérhæfð stjórnun felur í sér að upplýsingum er safnað á vísindalegan hátt til að öðlast vitneskju og skilning á viðfangsefnunum. Ákvarðanataka er á grundvelli viðurkenndra fræða um hvað sé til batnaðar. Framkvæmd er fagverk og stjórnast af fagfólki til hagkvæmustu málalykta. Viðbrögð íbúanna (skjólstæðinganna) eru svo mæld og vísindalega greind. Þetta er skrifræði.

Lýðræðið er hins vegar virkast þegar þú ræður mestu um það sem þér er næst. Þá þarf ekki að safna álitum og upplýsingum til að vita hvert málefnið er, þú upplifir það á eigin skinni og ert hæfastur til að ákvarða þar um. Gerir þú mistök þá bitna þau á þér og þú reynir að leiðrétta þig með aðstoð bestu ráðgjafar.

Við sameiningu sveitarfélaga verður að varðveita lýðræðið og tryggja að byggðarhagsmunir og byggðarsjónarmið fá notið sín, að nærsamfélag hvers og eins verði í hans forsvari. Sameiningin á í raun að efla sjálfákvörðunarrétt varðandi staðbundna hagsmuni og um leið á hún að skapa vettvang fyrir samhljóm um sameiginleg málefni.

Við sameiningu á Austurlandi tel ég rétt að horfa til níunda áratugarins. Þá voru hér fjölmörg sveitarfélög og á SSA þingum voru fulltrúar nánast allra hagsmuna saman komnir. Þá var annars vegar rætt um að stofna sérstakt stjórnsýslustig fyrir landshlutann með yfirtöku ýmissa ríkisverkefna auk sameiginlegra málefna i samstarfi við staðbundin sveitarfélög. Hins vegar var rætt um að sameinast næstu sveitarfélögum og smám saman myndu þannig öll sveitarfélögin sameinast án sérstaks stjórnsýslustigs.

Síðari kosturinn varð ofan á og nú stendur til að að stofna „Austurkraga“ þannig að Austurland verði í raun tvö sveitarfélög. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að sameina skuli öll sveitarfélög og skapa lýðræðislega stjórnsýslu sem tryggðir byggðahagsmuni og bregst við staðbundnum málum auk þeirra sameiginlegu. Austurkraginn mun ekki leysa vandamál einstakra byggða, fjarlægðir eru of miklar og samskipti þeirra í raun lítil.

Þegar ég vara við skrifræði þá er ég ekki að hrósa lýðræðinu okkar. Sveitarstjórnarmál eru í kreppu, en með því að setja lýðræðið á hilluna og ganga sérfræðingunum á hönd þá leysum við ekki vandann. Lýðræðið hverfur bara og þar með verður vandinn ekki lengur til. Ég fæ ekki séð að sameiginleg skrifstofa leysi til dæmis mengunarvanda Seyðfirðinga, hitaveitumálið, skólamálin, félagsmálin og svo framvegis. Það verður best gert af þeim sem búa við aðstæðurnar. Þeir eru sérfræðingar án skólagráðu og vita hvernig til hefur tekist án skipulegra fyrirspurna. Í virku lýðræði leita kjörnir fulltrúar sér sérfræðilegar ráðgjafar við lausn málefna, þeir láta valdið ekki í hendur sérfræðilega sem galdra svo fram vísindalega ómótmælanlegar lausnir.

Ég sé ekki að Austurkraginn auki samstarf á Austurlandi. Tilurð hans skapar frekar tvo póla á Austurlandi og gerir okkur enn vanhæfari en áður við lausn sameiginlegra málefna. Allt verður öðrum hvorum aðilanum meira í hag og er þar með ómögulegt fyrir hinn. Það er hins vegar ótrúlegt að upplifa hvað sameining fjarðabyggðanna hefur breitt hugarfari milli byggðakjarnanna, hve vel hefur tekist til við að byggja samkennd. Ég sé ekkert slíkt gerast við sameiningu Borgarfjarðar, Héraðs, Seyðisfjarðar og Djúpavogs. Væru öll sveitarfélög á Austurlandi hins vegar sameinuð þá birtist allt annar veruleiki öllum til hagsbóta í einu samfélagi sem tekur fullt tillit til sérstöðu og sérhagsmuna allra byggðarlaganna.

Sigurður Gunnarsson, Seyðisfirði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar