Réttur til lífs og frelsis

Fyrir tæpum 220 árum steig á land í Djúpavogi farþegi af dönsku kaupskipi. Hann hét Hans Jónatan og var þræll í Danmörku, landi þar sem þrælahald var bannað samkvæmt lögum en það kom samt ekki í veg fyrir að danskir dómstólar felldu þann dóm að hann skyldi fluttur til Vestur-Indíum þar sem eigandi hans hugðist selja hann.

Áður en til brottflutnings kom tók þessi ánauðugi maður málin í sínar hendur og flúði til Íslands. Hörundslitur hans og fortíð virðast ekki hafa orðið honum til trafala í íslensku sveitasamfélagi en Djúpavogi vann hann við verslunarstörf, sem leiðsögumaður og bóndi.

Þessum flóttamanni og frelsisbaráttu hans á 19. öld var reistur minnisvarði á því herrans ári 2021. Verkið heitir Frelsi og er staðsett við Voginn þar sem Hans Jónatan steig fyrst fæti á íslenska grund. Framan við þennan minnisvarða frelsisins fer ekki hjá því að manni verið hugsað til þess að í dag er eitt prósent mannkyns á flótta, þar af eru börn ríflega 10 miljónir. Nú undanfarnar vikur og daga flýja þeir sem mögulega eiga þess kost frá Afganistan þar sem konur og börn sjá fram á að verða svipt frelsi sínu og þurfa að lifa í ánauð rétt eins og Hans Jónatan á 19. öld.

Það var ekki ævintýraþrá sem rak Hans Jónatan til Íslands og það er ekki hennar vegna sem flóttamenn á 21. öldinni yfirgefa heimili sín og ættjörð og leggja upp í óviss, erfið og jafnvel lífshættuleg ferðalög. Fólk flýr til að bjarga lífi sínu, það flýr stríðsátök, hættur, hungursneyð, örbirgð og vegna barna sinna. Það flýr til að öðlast frelsi.

Nú þegar Múlaþing hefur sýnt minningu Hans Jónatans þá virðingu að styðja við að gerð minnismerkis um frelsisbaráttu hans er ekki út vegi að sveitarfélagið styrki annað minnismerki. Minnismerki fyrir baráttu fólks fyrir mannsæmandi lífi, lífi í frelsi, án ógnana og hungurs, án ótta um líf og heilsu barna sinna og þess sjálfs. Það minnismerki þarf ekki að vera úr graníti og gleri, það þarf ekki að afhjúpa með viðhöfn. Tignarlegasta minnismerkið má nefnilega reisa úr mannúð. Með því að taka á móti flóttamönnum, veita þeim húsaskjól og tækifæri til mannsæmandi lífs rétt eins og Katrín Antoníusdóttir og samfélagið á Djúpavogi veitti Hans Jónatan í upphafi 19. aldar. Þau minnismerki skilja meira eftir sig en harður steinn, þau skilja eftir sig líf.

Höfundur er fulltrúi Austurlistans í umhverfis og framkvæmdaráði Múlaþings og varamaður í sveitarstjórn.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.