Raunhæfar umbætur í sjávarútvegi

Um daginn heyrði ég frambjóðanda Sósíalista boða fjórða þorskastríðið, þingmannsefni Viðreisnar þenja sig um að bjóða út veiðiheimildir til hæstbjóðanda og Sjálfstæðismann muldra um að best væri að breyta litlu sem engu.

Ef litið er á umræður um sjávarútveginn sem skák þá væru þessir frambjóðendur að bjóða okkur upp á að ráðast á mótherjann, hvolfa taflborðinu eða gefa skákina. Ég vil tefla skákina við hin sterku hagsmunaöfl í útveginum áfram og ná fram vænlegri stöðu til raunhæfra umbóta. Vinstri græn hafa sýnt fram á að sú leið er fær.

Fjárfestingar í sjávarútvegi skipta sköpum

Sjávarútvegur er undirstöðugrein á Austfjörðum. Þar er tímabil uppbyggingar í sjávarútvegi. Framkvæmdir eru fyrirhugaðar eða hafnar á Fáskrúðsfirði, Vopnafirði, Eskifirði og Norðfirði. Stækkun á vinnslum, aukning afkastagetu og bygging frystigeymsla er á döfinni. Þá er nýlokið framkvæmdum á Norðfirði til þess að skip Síldarvinnslunnar geti slökkt á ljósavélunum og notað rafmagn úr landi þegar þau liggja í höfn. Það er algerlega ótækt við þessar aðstæður að ætla sér að hvolfa taflborðinu þegar hundruð starfa í fjórðungnum eru í veði ásamt lífsviðurværi þúsunda. Lágmarkskrafa er að talað sé um sjávarútvegsmál af þekkingu og ábyrgð.

Vitinn sýnir rautt í loftslagsmálum og því tel ég að eitt stærsta framlag sjávarútvegsins næstu árin verði að ná verulegum árangri í umhverfismálum. Þar er um að ræða orkuskipti í veiðum en einnig gæti útvegurinn stuðlað að bindingu kolefnis í samstarfi við bændur í fjórðungnum. Það er mikið í húfi. Við sjáum breytingarnar nú þegar. Þurrkar voru á Austurlandi í sumar, en úrhellisrigningar síðasta vetur sem ollu hamförum á Seyðisfirði. Loðnan hvarf um tveggja ára skeið með tilheyrandi áhrifum á tekjur fólks í sjávarbyggðum Austurlands og víðar. Þetta eru allt dæmi um það sem vísindin hafa sagt að muni gerast, veður gerast vályndari og fiskgengd ótryggari.

Leiðréttum óréttlætið með markvissum hætti

Kollsteypur í þeim kerfum sem tengjast sjávarútvegi munu einungis leiða til þess að ekki verður farið í þær fjárfestingar sem nauðsynlegar eru til þess að auka verðmætasköpun og ná auknum árangri í loftslagsmálum. Við Vinstri-græn höfum þá sýn að það þurfi að leiðrétta óréttlætið sem felst í því að tiltölulega fámennur hópur fer með nýtingarréttinn á fiskinum í kringum landið sem eign sína.

Þetta má leiðrétta með tímabundnum samningum um veiðirétt að okkar mati. Útgerðum verði boðið upp á að breyta veiðiheimildum sínum í tímabundna samninga ellegar sæta tiltekinni árlegri fyrningu. Enn fremur þarf að stoppa í lekann í kvótaþakinu og við höfum tillögur í þeim efnum. Við teljum að til lengri tíma þurfi að tvöfalda það magn aflaheimilda sem fara í byggða- og strandveiðikvóta. Þá teljum við að það þurfi að koma í veg fyrir að afli flæði óunnin úr landi til Evrópu og með því fari störf á erlenda grundu sem annars gætu verið unnin hér. Allt er þetta gerlegt án þess að tefla atvinnulífinu í uppnám.

Farsælar leiðir Vinstri grænna ráðherra

Vinstri græn er sá flokkur sem hefur haft duginn til þess að gera umbætur í sjávarútvegi án þess að vera með byltingarvaðal og kollsteyputal eins og nú tíðkast. Það var í tíð Vinstri græns sjávarútvegsráðherra sem strandveiðikerfinu var komið á. Það var í tíð Vinstri græns fjármálaráðherra sem veiðigjöldum var komið á. Það var í tíð Vinstri græns forsætisráðherra sem veiðigjöldin voru færð nær í tíma og hönnuð með þeim hætti að þau hvetja til aukinna fjárfestinga og hafa í för með sér afslætti fyrir minni útgerðir. Engin þessara umbóta hefur leitt til unnins tafls. Allar voru þær þó farsælir leikir og hafa skapað réttlátari stöðu á taflborði sjávarútvegsmála út frá sjónarmiði byggða og almennings í landinu.

XV 25. september

Höfundur skipar fjórða sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.