Opið bréf til kjörinna fulltrúa bæjarstjórn Fjarðabyggðar vegna fyrirhugaðrar sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar

Sæl öll, kjörnir fulltúar og umboðsmenn okkar kjósenda í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

Það sem er hér í gangi í Fjarðabyggð er kannski lítið í stóra samhenginu í orkumálum landsins eða bara heimsins, en í raun bara smærri mynd af því sem hefur gerst og er að gerast enn í dag.

Ég tel að það séu fáir á Íslandi sem eru með hugann í dag við það að selja frá sér auðlindir sínar til dæmis kvóta, virkjanir, einkasölurétt á svo sem rafmagni og slíka hluti nema viðskiptabankinn og/eða lánadrottnar þeirra sé búinn að stilla þeim upp við vegg og þeir geta ekkert annað gert en að selja til þess að þeir verði ekki gerðir gjaldþrota.

Staðreyndir í þessu máli eins og ég skil þær eru þessar:

Rafveita Reyðarfjarðar var stofnuð 1930, allir bæjarbúar sameinuðust í þessu stórvirki á þeim tíma. Til eru sögur af því að stór hluti bæjarbúa vann við þetta stórvirki í sjálfboðavinnu dögum saman við að handgrafa skurði o.fl. Það eru alla veganna tvö skipti, fyrir utan það sem er núna í gangi þar sem sveitarstjórn/bæjarstjórn hefur ætlað sér að selja Rafveitu Reyðarfjarðar á þessum árum sem eru liðin síðan hún var stofnuð.

Í þessi tvö skipti hefur sveitarstjórn/bæjarstjórn hætt við þegar menn fengu að komast að með röksemdir um það hverju þessi Rafveita hefur skilað í peningum og aurum til sveitarfélagsins. Ég hef ekki séð neitt á blaði um rekstur Rafveitunnar í dag sem rökstyður það að nú séu meiri rök með því að selja Rafveitu Reyðarfjarðar en í hin tvö skiptin. Auðvitað eru miklar tilfinningar hjá þeirri kynslóð hér fyrir austan sem eru börn eða barnabörn þeirra sem komu þessu stórvirki þess tíma á laggirnar með því t.d. að moka með handskóflum dögum saman fyrir lögnum og því sem þurfti.

Það lítur því miður þannig út að bæjarstjórn Fjarðabyggðar hafi ætlað að samþykkja á fundi 11.12.19. að selja Rafveitu Reyðarfjarðar en hafi svo ákveðið að halda kynningar fund á Reyðarfirði 16.12.19. þegar þeir höfðu veður af því hvað margir bæjarbúar ætluðu að mæta á bæjarstjórnarfundinn 11.12.19. og ákváðu svo í framhaldinu að halda fund 17.12.19. þar sem þeir ætla að samþykkja sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar.

NB. ég hef ekki séð hvernig fyrsta fundarboðið til bæjarfulltúranna leit út, þið ein vitið það sem fenguð þetta fundarboð.

Við höfum svo sem ekki neitt upp úr því að blanda tilfinningum í þetta, en mig langar til að Fjarðabyggðarbúar fái fulla vissu um að við séum að fá eðlilegt verð fyrir Rafveitu Reyðarfjarðar ef við ætlum að selja hana, að það sé örugglega hagur Fjarðabyggðar að selja Rafveitu Reyðarfjarðar og ég vil að íbúar Fjarðabyggðar fái að sjá þá úttekt á blaði sem segir að Rafveita Reyðarfjarðar eigi eftir að vera baggi á sveitarfélaginu í framíðinni og því skuli setja Rafveitu Reyðarfjarðar í söluferli.

Það er staðreynd eftir því sem ég veit best að þetta er síðasta Rafveitan á Íslandi sem er í beinni eigu sveitarfélags. Kannski er það frekar „sveitó.“ ;ér finnst það ekki, enda tel ég að sveitarfélög ættu ekki að vera að selja innviði sína til annarra, ætli Suðurnesjamenn væru til dæmis ekki alveg til í það að eiga HS Orku ennþá.

Það er líka staðreynd að einkafyrirtæki eru að byggja virkjanir og eru að leggja mikið á sig til að komast inn á rafmagnsmarkaðinn hér á landi, og það er jafn mikil staðreynd að þau væru ekki að gera það ef þau sjá fram á að tapa á því.

Það að eiga einkasölurétt á raforku í vaxandi hverfi innan bæjarfélagsins okkar er eitthvað sem ég tel að hafi stærri verðmiða en þann sem menn virðast vera búnir að setja á pakkann allan. Auðvitað er virkjunin lítil en hún malar gull hverja einustu mínútu sem hún er í gangi. Er hægt að auka nýtni hennar? Er raunhæft að stækka hana? Eru aðrar leiðir til orkuöflunar? Hefur það verið skoðað? Hefur stjórn rafveitunnar skoðað þessa hluti? Hver er framtíðarsýn stjórnar rafveitunnar? Hafa komið einhverjar tillögur frá henni í þessu sambandi? Er það raunhæfur kostur fyrir sveitarfélag af þessari stærðargráðu sem Fjarðabyggð er að búa til ohf. félög (sem Fjarðabyggð ætti að öllu leiti) um til dæmis alla orkuöflun og annað ohf. um alla sölu á orku og þjónustu veitna? Hvað segja lög og reglugerðir um það?

Kom tillagan um þessa sölu á RR. frá veitunefnd og/eða eða þeirri nefnd sem fer með málefni Rafveitu Reyðarfjarðar, Hitaveitu Eskifjarða og fjarvarmaveitur á Neskaupsstað og Reyðarfirði, vatnsveitur og fráveitur í allri Fjarðabyggð? er kannski næsta tillaga sem kemur frá þeirri nefnd að selja Hitaveitu Eskifjarðar? Hvað er Hitaveita Eskifjarðar að framleiða og selja mikinn hluta af þeirri orku sem fer til húshitunar í Fjarðabyggð? er það nægilega stór prósenta til þess að þið kjörnir fulltrúar og umboðsmenn okkar kjósenda í Fjarðabyggð teljið að Fjarðabyggð eigi að vera að standa í því að reka hana áfram?

Hvar liggja fjarvarmaveiturnar á Reyðarfirði og í Neskaupstað, eru þær nægilega stórar í prósentum miðað við heildina svo verjandi sé að reka þær og eiga? eigum við kannski frekar að selja þær og halda Hitaveitu Eskifjarðar og loka sundlaugunum á Reyðarfirði og Neskaupsstað - því klárlega er hagstæðara fyrir Fjarðabyggð að reka eina sundlaug miðsvæðis fyrir þessi þrjú hverfi og alltaf hlýtur að vera kostur að hafa hana þar sem eina hitaveitan er á svæðinu?

Þetta eru allt atriði sem þið kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Fjarðabyggðar þurfið að setja niður fyrir ykkur og vera alveg viss að þið séuð að vinna að hagsæld Fjarðabyggðar og íbúa hennar.

Er þessi einsskiptisgreiðsla sem er í þessum drögum að samningi við Rarik/Orkusöluna réttur verðmiði(ef við ætlum á annað borð að selja RR.) fyrir:

1. Einkasölurétt á rafmagni/dreifingu til þéttbýlisins og nágrennis á Reyðarfirði
2. Innviða/rafmagnsdreifikerfi og virkjun Rafveitu Reyðarfjarðar.
3. Varaafl fyrir vatnsveitu Reyðarfjarðar og hvað annað það er sem telst sem fylgihlutir með rafveitunni í drögum af samningnum sem enginn nema þið hafið fengið að sjá, þið hafið vonandi skoðað þessi drög að samningnum vel áður en þið tókuð þá ákvörðun að veita þessu máli brautargengi á fundinum 11.12.19.

Hvaða fyrirtæki fékk Fjarðabyggð til að gera óháð verðmat fyrir sig á Rafveitu Reyðarfjarðar áður en ákveðið var setja hana í söluferli og var það eitthvað nálægt því sem drögin að samningnum milli Fjarðabyggðar og Rarik/Orkusölunnar hljóða upp á ?

Á fundargerð númer hvað hjá veitunefnd og/eða þeirri nefnd sem fer með veitumál Fjarðabyggðar finnið þið þá ákvörðun að mæla með sölu á Rafveitu Reyðarfjarðar?

Á fundargerð númer hvað hjá Bæjarráði/Bæjarstjórn getið þið séð hverjum það gaf umboð til að semja við og/eða gera drög að samningi með Rarik/Orkusölunni?

Er einhversstaðar í málefnasamningi þess meirihluta sem er starfandi núna og undirritaður var 11. júní 2018 af fulltrúum Fjarðalistans og Framsóknarflokks eitthvað um það að finna að það sé komin þörf fyrir nýbyggingu á íþróttahúsi einhvers staðar í Fjarðabyggð? Eina sem ég sé að sé nefnt um nýbyggingu að einhverju tagi er nýbygging á elliheimili í Neskaupsstað.

Ekki er neitt sem ég kem auga á, hvort sem það er í aukningu á mannfjölda í hverfunum frá júní 2018 þar til núna eða annað, sem þarfagreining gæti hafa leitt í ljós um þessa hluti sem bendir á að þörf sé á nýju íþróttahúsi einhvers staðar í Fjarðabyggð, ef íþróttahúsin á Eskifirði og Reyðarfirði, sem voru vel að merkja byggð Þegar þessi hverfi voru um helmingi minni en þau voru í júní 2018, voru nægilega stór 2018 þá eru þau líklega nægilega stór 2019.

Ef þeir flokkar sem fóru í þetta meirihluta samstarf 11. júní 2018 voru sammála um að ekki væri þörf á stærri íþróttahúsum á Eskifirði og Reyðarfirði, miðað við þann fjölda sem var þá á stöðunum, heldur væri næsta nýbygging sem þeir teldu þörf á væri elliheimili í Neskaupsstað, hvað hefur breyst á þessu eina og hálfa ári? Hefur orðið einhver drastísk fækkun á eldra fólki í Neskaupsstað eða hefur orðið einhver drastísk fjölgun á fólki í hverfum 730 og 735 á þessu eina og hálfa ári?

Ef þið eruð 100% viss um að þið séuð að vinna samkvæmt ykkar eigin sannfæringu og að hagsæld Fjarðabyggðar og fólksins í Fjarðabyggð með því að veita þessu máli brautargengi þá skulið þið gera það því til þess voru þið kosin af kjósendum í Fjarðabyggð - ekki satt?

Virðulegu bæjarfulltrúar endilega sýnið sjálfum ykkur og öllu öðrum íbúum Fjarðabyggðar þá virðingu að ræða það ekki á sama fundinum kl. 20.00 16.12.19. hvort selja eigi Rafveitu Reyðarfjarðar og það hvort byggja eigi íþróttahús einhversstaðar í Fjarðabyggð. Þetta eru málefni sem ættu ekki að tengja saman á nokkurn hátt.

Með vinsemd og virðingu,
Guðni Kristinn Þorvaldsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.