Orkumálinn 2024

Opið bréf frá leikskólastjórnendum á Austurlandi

Sent sveitarstjórnum Djúpavogshrepps, Fjarðabyggðar, Fljótsdalshéraðs, Vopnafjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Borgarfjarðarhrepps og stjórn Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi.

Kæru kjörnu fulltrúar

Við leikskólastjórnendur á Austurlandi viljum lýsa yfir áhyggjum okkar á stöðu mála í leikskólum á öllu svæðinu. Fjöldi menntaðra leikskólakennara á svæðinu er langt undir ásættanlegum mörkum og það gengur erfiðlega að ráða íslenskumælandi starfsfólk en einnig er áberandi skortur á starfsfólki yfir höfuð. Víða hefur ekki tekist að fullmanna leikskólana. Samkvæmt okkar upplýsingum þá er fjöldi menntaðra innan skólanna svona:

Bjarkatún, Djúpivogur: Nemendur eru 28. Það eru 10,25 stöðugildi í leikskólanum þar af
3 með B.ed gráðu í leikskólakennaranum,
1 með B.ed í grunnskólakennaranum,
4,50 leiðbeinendur, (0,75 í námi í leikskólakennaranum frá HA)
0,75 matráður og 1 skólaliði

Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóli: 15 nemendur, 1 með Bed próf í leikskólafræðum

Kæribær, Fáskrúðsfirði: 44 Nemendur. 2 með leyfisbréf í leikskóla og 1 með leyfisbréf í grunnskóla, 1 með Bed próf í leikskólafræðum.

Lyngholt, Reyðarfirði: Nemendur 102. Stöðugildi eru 30,4 þar af eru 26% eða 8.með B. Ed og eða M.ed próf í leikskólakennarafræðum. 13% eða 4. með BA eða BS próf í ýmsum greinum. Prófin eru ýmist frá Íslandi eða Póllandi. 61% eru ófaglærðir leiðbeinendur.

Dalborg, Eskifirði: Nemendur 68 þar af eitt barn er ein vika á mánuði, 7 börn koma í okt. og nóv og 1 á biðlista. Stöðugildi eru 24.6 þar af 1. með leyfisbréf og 5. með BA eða BS í ýmsum greinum, 1 af þeim mun ljúka meistaranámi í leikskólafræðum vorið 2020, 1 í löngu veikindafrí, 3 í veikindaleyfi fyrir fæðingu þar af ein með leikskólakennaramenntun og 3 í fæðingarorlofi þar af einn leikskólakennari.

Eyrarvellir, Neskaupstað: Nemendur eru 96 og 2. á biðlista . Það eru 28,31 stöðugildi sem skiptist á 3. leikskólakennara, 2. með aðra háskólamenntun, 3. með stuðningsfulltrúa, 20.leiðbeinendur, 3. í eldhúsi og 2. í veikindaleyfi. Þar vantar eina afleysingastöðu og afleysingu fyrir þessa tvo starfsmenn sem eru í veikindaleyfi.

Seyðisfjarðarskóli leikskóladeild (Sólvellir): Nemendur 29. Tveir eru með leyfisbréf til kennslu í leikskóla. 22% kennara með leyfisbréf sérkennari er ekki í þeirri tölu. 8,87 stöðugildi eru nú við skólann. Með leikskólakennaramenntun er 3,5 stöðugildi (þar af einn starfsmaður með sérkennslumenntun í 50% stöðu og annar með diplóma í menntunarfræðum í 55% starfi í stjórnun.) Önnur háskólamenntun 4,0 stöðugildi og leiðbeindur 1,37 stöðugildi. Af þessum eru 4,87 stöðugildi íslenskumælandi og 4 stöðugildi erlent starfsfólk sem hefur annaðhvort náð nokkrum tökum á íslenskunni eða er á byrjendanámskeiði. Þegar þetta er ritað eru 4. börn kominn á aldur og bíða eftir að komast inn í skólann.

Tjarnarskógur, Egilsstöðum: Nemendur eru 183. 49,4 stöðugildi eru við skólann. Þar af eru með leikskólakennaramenntun 20,8 stöðugildi, önnur háskólamenntun 7.95 stöðugildi og leiðbeinendur 20,6 stöðugildi að eldhússtarfsfólki meðtöldu.

Borgarfjörður Eystri: 1 barn og 1 leikskólakennari.

Brúarás: 7 leikskólabörn, enginn leikskólakennari, 2 stöðugildi.

Hádegishöfði, Fellabæ: Nemendur verða 38 í vetur, stöðugildin eru 13,46 sem skiptast þannig að 25% eru leikskólakennarar 3,3 stöðugildi, 40% eru með aðra háskólamenntun 5,4 stöðugildi og 35% eru leiðbeinendur 4,7 stöðugildi.

Brekkubær, Vopnafirði: Nemendur 35. Þar eru 6 leikskólakennarar með leyfisbréf og ein af þeim er í veikindaleyfi. Ein er að taka B.ed í grunnskólakennarafræðum og 8 leiðbeinendur eru við skólann.

Í þessum leikskólum eru 646 nemendur

Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla,2008 nr. 87 12. júní, stendur í kaflanum um ráðningar á leikskólakennurum í leikskóla:

III. kafli. Starfsréttindi og ráðningar í leikskólum.
9. gr. Leikskólakennarar og ráðning þeirra.
Til þess að verða ráðinn kennari við leikskóla skal umsækjandi hafa öðlast leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari skv. 3. og 21. gr.
Að lágmarki 2/ 3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skulu teljast til stöðugilda leikskólakennara.
Sveitarstjórn, eða sá sem sveitarstjórn felur umboð sitt, eða aðrir rekstraraðilar, ráða leikskólakennara og skólastjórnendur við leikskóla í samræmi við lög þessi, fyrirmæli laga um leikskóla og ákvæði sveitarstjórnarlaga.
10. gr. Ráðning skólastjóra í leikskólum.
Til þess að verða ráðinn leikskólastjóri eða aðstoðarleikskólastjóri við leikskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið leikskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á leikskólastigi.

Eins og glöggir sjá þá eigum við langt í land með að manna alla skólana okkar af fagfólki og köllum við eftir hugmyndum, leiðum og lausnum af hálfu sveitastjórnarfulltrúa okkar. Hvernig viljum við að leikskólarnir okkar séu og viljum við ekki að þeir séu reknir í samræmi við lög og reglur landsins okkar? Aðalnámskrá er sú námskrá sem allir leikskólar í landinu eiga að fara eftir og þegar ekki eru uppfylltar þær kröfur að a.m.k. 2/3 starfsmanna á leikskólum séu með leyfisbréf í leikskólafræðum hvernig förum við þá að því að uppfylla önnur ákvæði aðalnámskrár.

13. gr. Aðalnámskrá.
Ráðherra setur leikskólum Aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega. Í henni koma fram helstu markmið leikskólastarfs og uppeldis- og menntunarhlutverk leikskóla, sbr. 2. gr. Í aðalnámskrá skal m.a. leggja áherslu á gildi leiks í öllu leikskólastarfi. Einnig skal fjallað um markmið fyrir námssvið leikskólans, foreldrasamstarf, þróunarstarf, mat á leikskólastarfi og tengsl leikskóla og grunnskóla. Í aðalnámskrá skal skilgreina hæfniþætti á námssviðum leikskólans í samræmi við aldur og þroska barna.

Hvernig eiga starfsmenn sem ekki hafa náð fullum tökum á íslensku að starfa skv. aðalnámskrá leikskóla? Má einnig vekja athygli á hve mikil orka fer hvert haust hjá fagfólki við að þjálfa nýtt starfsfólk, það er afar vanmetinn þáttur. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að ábyrgðin er okkar leikskólastjórnenda en án þess að viðmið sé sett um hvaða kunnátta þarf að vera til staðar fyrir þá sem sinna yngstu nemendum okkar. Viðmið um hvaða kunnátta þarf að vera til staðar fyrir þá sem sinna yngstu nemendum okkar eru sett í mörgum löndum Evrópu og þykir okkur sem og foreldrum sem hafa komið að máli við okkur það sérstakt að ekki séu sett slík viðmið hér á landi. Eigum við að sætta okkur við það að ómálga barn hafi jafnvel ómálga starfsmann sem sinn helsta umönnunar aðila og móðurmálskennara.

Sífellt er verið að leggja áherslu á bættan námsárangur og að efla læsi barna. Það á sterka tengingu við máltöku yngstu barnanna sem hefja skólagöngu sína í leikskólum þar sem þau eru á mikilvægu máltökuskeiði. Nýjar rannsóknir benda til að börn nái ekki fullum tökum á móðurmáli sínu nema máltakan fari fram fyrir 4-6 ára aldurinn svo ef við viljum bæta námsárangur leik- og grunnskólabarna þá er algjörlega ljóst að við þurfum að einblína á málumhverfi barna allt frá 1 árs aldri/þegar þau hefja leikskólagöngu sína.

Stóra spurningin hjá leikskólastjórnendum á Austurlandi í dag er hvert leikskólastarfið er að þróast í því ástandi sem við stöndum frammi fyrir í dag í tengslum við ráðningu starfsmanna og manneklu. Erum við fyrsta skólastigið með sóma eða ætlum við einblína á að leikskólastigið sé fyrst og fremst eða nær eingöngu þjónusta/gæsla sem sinnir grunnþörfum barna? Hvað geta sveitafélögin á Austurlandi gert til að breyta þessari stöðu sem hefur mikil áhrif á þroska, nám og daglegt líf fjölda barna á aldrinum 1-6 ára.

Við viljum minna á að lítið hefur heyrst frá sveitafélögunum okkar um langa vinnudaga nemenda okkar. Fáir fullorðnir sætta sig við 9 tíma vinnudag en þetta er því miður orðið algengara en það að börn fái að njóta samvista með foreldrum sínu. Hvenær ætlum við að átta okkur á því að uppeldi barna ætti að eiga sér stað að mestu leyti inna veggja heimils þeirra en ekki á stofnunum. Minnum við því á eftirfarandi ályktun:

Ályktun frá samráðsfundi Félags stjórnenda leikskóla
Flúðum 28. - 29. september 2017.
Samráðsnefnd FSL vill koma á framfæri áhyggjum sínum um stöðu barna í leikskólum landsins. Skýrsla OECD sýnir að börn á Íslandi hafa lengsta viðveru hvern dag og flesta leikskóladaga á ári. Rými fyrir hvert barn í leikskólum á Íslandi er of lítið með tilliti til fjölda barna og dvalartíma. Mikið álag er fyrir ungt barn að vera í stórum hópi í litlu rými svo langan dag. Viðvera barna hefur aukist síðustu ár og dvelja þau í leikskóla að meðaltali yfir átta klukkustundir á dag. Áhyggjur okkar beinast að því að börn geti orðið fyrir röskun á geðtengslamyndun sem getur leitt til kvíða og einbeitingarskorts. Viðvarandi starfsmannavelta eykur einnig á þennan vanda. Við viljum beina orðum okkar til foreldra, sveitastjórna/rekstraraðila leikskóla og til atvinnulífsins alls.
Stöndum saman að velferð barna og finnum leiðir til að bæta aðstöðu þeirra nú og til framtíðar.
Samráðsnefnd Félags stjórnenda leikskóla

Margir skólar búa við misgóða aðstöðu fyrir starfsfólk sitt, vinnuaðstaða með nemendum sem og undirbúningsrými/vinnuaðstaða kennara. Þetta er gríðarlega mikilvægt í augum okkar sem sinnum leikskólastjórnun á svæðinu. Fram undan er eitt leyfisbréf sem gildir á öllum skólastigum. Hvernig ætlum við að fara að því að halda í okkar fámenna hóp sem er hjá okkur í dag þegar þeim stendur til boða fjölbreyttara kennsluumhverfi og allt aðrar aðstæður og vinnutími með nemendum sem við höfum ekki haft kost á að bjóða upp á í leikskólum.

Stórt skref í þessu væri ef ákveðið væri að allir skólar leik-, grunn- sem og framhaldsskólar væru lokaðir milli jóla og nýárs. Svona áform væru til þess fallin að skapa okkur fjölskylduvæna sérstöðu í þessum landshluta en einnig gera það enn meira aðlaðandi fyrir starfsfólk að vinna hjá okkur. Við höfum áhyggjur af því að þegar lög um eitt leyfisbréf taka gildi í janúar 2020 munu enn fleiri leikskólakennarar fara úr störfum í leikskólunum og yfir í grunnskólana.

Leikskólastigið er mikilvægur hlekkur í skólastarfi landsins og því miður erum við sem sinnum því starfi hér á Austurlandi farin að upplifa að okkar starf sé ekki metið að verðleikum. Vonandi verður það sýnt í verki á næstu vikum og mánuðum að þetta er röng ályktun hjá okkur. Það er því okkar ósk að sveitastjórnarmenn og konur taki höndum saman og vinni með okkur leikskólastjórnendum að bættu náms- og starfsumhverfi yngstu bæjarbúa okkar.

Með virðingu og vinsemd
Lísa Lotta Björnsdóttir,  Gerður Ósk Oddsdóttir, Svandís Egilsdóttir, Bryndís Skúladóttir, Sigríður H. Pálsdóttir, Lembi Seia Sangla, Guðrún S. Sigurðardóttir, Halla Höskuldsdóttir, Ragnheiður Björk Harðardóttir, Sigurveig Halldóra Dagbjartsdóttir (í fæðingarorlofi), Guðmunda Vala Jónasdóttir, Kolbrún Nanna Magnúsdóttir, Madlena Todorova Petrova, Davíð Brynjar Sigurjónsson, Ásta Eggertsdóttir, Guðný Elísdóttir, Sandra Konráðsdóttir, Halldóra S. Árnadóttir, Þórdís Mjöll Benediktsdóttir (í fæðingarorlofi)


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.