Örhugvekja í „grænni messu“

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að umhverfisvandamálin sem steðja að okkur eru með stærstu áskorunum sem við og komandi kynslóðir þurfum að glíma við. Loftslagsbreytingar, mengun, röskun vistkerfa og minnkun lífbreytileika ásamt fylgjandi stríðsátökum og flóttamönnum knýja á aðgerðir og það strax. Við megum ekki bíða.

En við höfum því miður þá tilhneigingu að bíða t.d. eftir aðgerðum stjórnvalda og tæknilegum lausnum og áttum okkur ekki almennilega á því að við sjálf erum bæði hluti af vandamálunum en getum einnig orðið hluti af lausnum líka.

Við hér á Íslandi erum neyslufrekasta þjóð jarðar samkvæmt vistsporsmælingum á heimsvísu. Vistspor er ein af fjölmörgum aðferðum sem notaðar hafa verið til að mæla hve mikið maðurinn hefur gengið á auðlindir jarðar. Vistspor annarra vestrænna þjóða er einnig mjög stórt. Græðgi og ofneysla eru m.a. rót vandans.

Að undanförnu hefur hérlendis orðið einhver vakning t.d. hvað varðar matarsóun og plastnotkun sem er góð byrjun á breytingum. En það er svo miklu meira sem við verðum að breyta og gera.

Lifum á kostnað annarra

Við þurfum ekki nýjasta snjallsímann, stærsta bílinn, stöðugt ný föt, útlensk jarðarber á veturna, ost og kjöt frá útlöndum. Við eigum allt of mikið, teljum okkur hafa þörf á hinu og þessu. Og við viljum geta keypt allt sem ódýrast en hugsum lítið um það hvernig vörurnar eru framleiddar, kannski með stóru vistspori í sínum heimalöndum og jafnvel með miklu óréttlæti gagnvart starfsfólkinu eða jafnvel með barnaþrælkun.

Við erum neysludrifið samfélag.

Í opinberum umræðum um loftslagsbreytingar og önnur umhverfisvandamál hér á landi er lítið talað um þau áhrif sem hinn aukni innflutingur á vörum hefur á umhverfið og réttlæti í öðrum löndum. Við lifum á kostnað annarra landa, þeirra auðlinda og íbúa. Færum vandamálin bara yfir til þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar hafa m.a. sagt að það þurfi umbreytingu samfélaga ef við ætlum að taka alvöru skref í átt að sjálfbærri þróun. Lykillinn að slíkum skrefum eru breytingar í okkar hugsunarháttum, lífsmynstri og viðhorfi. Að þykja vænt um náttúruna, vera meðvituð um umhverfisvandamálin og flokka rusl sem dæmi, eru bara pínu lítil fyrstu skref og engan veginn nóg til þess að minnka vistsporin okkar. Við þurfum að skilgreina upp á nýtt kjarnagildin okkar í lifinu og huga einnig betur að siðfræðinni.

Kærleikurinn að hugsa um hag næstu kynslóða

Hér getur trúin og kristileg gildi hjálpað okkur. Siðfræðin sem líf Jesú kennir okkur inniheldur m.a. kærleika, réttlæti, virðingu, þakklæti, frið, trú, von og hófsemi.

Við þurfum að lifa kærleika sem temur okkur til að hugsa ekki aðeins um eigin hag heldur annarra og einnig næstu kynslóða. Kærleikur og samkennd sem af sprettur ætti að hafa þannig áhrif á okkur, að okkur væri ekki sama um það við hvaða kringumstæður snjallsíminn okkar, peysan okkar eða súkkúlaðið okkar er framleitt.

Kærleikur og virðing fyrir náttúrunni sem við erum hluti af og er sköpunarverk Guðs sem við eigum að vernda og nýta af umhyggju fyrir lífi.

Réttlætiskenndin okkar þarf nauðsynlega nýjar víddir til þess að við breytum neysluvenjum okkar og lifum ekki á kostnað annarra.

Hófsemi er dyggð

Það er ekki langt síðan að horft var á hófsemi sem eina af höfuð dyggðunum hér á landi en í dag er oft sett samasem-merki milli hófsemi og nísku. Slíkri hugsun þurfum við að breyta. Hófsemi eða nægjusemi eru m.a. nauðsynleg skilyrði sjálfbærrar þróunar og minnkunar á vistspori okkar.

Hefur okkur ekki svolítið mistekist að lifa eftir þeim samfélagssáttmála sem boðorð Guðs benda á? Og er það ekki hlutverk í lífi okkar að bæta okkur?

Við öll berum ábyrgð og við öll getum gert meira en við höldum. Hver á sínum forsendum.

Við, hvert og eitt, verðum að minnka neyslu okkar og velja þær vörur sem við kaupum eftir framleiðsluháttum gagnvart umhverfinu og velferð dýra, ferðalagi vörunnar frá upprunastað og réttlæti gagnvart starfsmönnunum.

Ef við stöndum saman getum við t.d. knúið á breytingar í verslunum og hjá framleiðendum hérlendis. Svo verðum við að minnka sóunina, henda ekki mat og fara að gera við föt og tæki. Við getum alveg notað bílinn minna, fækkað flugferðum til útlanda og margt fleira. Við þurfum að breyta stemmingunni í samfélagi okkar í þessa átt.

Það sem skiptir hér lykilmáli er að við hugsum um þessar breytingar ekki sem einhverja fórn heldur sem tækifæri til þess að tileinka okkur lifsstíl sem inniheldur mikilvægar dyggðir og gildi sem fylla okkur ánægju, kærleika, þakklæti og færir okkur auk þess úr skammtímahugsunin yfir á hugsun um alvöru framtíðarsýn í átt að sjálfbærri þróun.

Hugvekjan var flutt sunnudaginn 22. apríl í Grænni messu í Egilsstaðakirkju sem haldin var í tilefni af Dagi Jarðar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar