Orkumálinn 2024

Öflugt opinbert heilbrigðiskerfi

Heilbrigðismál eru eitt stærsta málið fyrir þessar kosningar. Í mannlegu samfélagi nútímans breytast hlutirnir hratt og ekki síst innan heilbrigðisþjónustunnar. Nýjar áskoranir í bland við gamlan vanda innan kerfisins gera það að verkum að stjórnvöld, stofnanir og starfsfólk þurfa stöðugt að vera á tánum og vinna að uppbyggingu.

Við á Austurlandi þurfum, auk þess að takast á við dagleg mál heilbrigðiskerfisins, einnig eins og aðrar dreifðar byggðir að vinna að jafnara aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Fjarþjónusta mikilvæg viðbót

Á kjörtímabilinu hafa náðst miklar framfarir og stór skref verið stigin. Þetta snýst ekki bara um fjármagn, mönnun heilbrigðisstofnanna á landsbyggðinni er viðvarandi áskorun og því mikilvægt að leita stöðugt fjölbreyttra og nýrra leiða til að viðhalda og bæta þjónustu.

Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur verið að þróa fjarheilbrigðisþjónustu um nokkurt skeið og er einna fremst á norðurlöndum varðandi þá þróun. Með hag íbúa að leiðarljósi verður þróun slíkra tæknilausna haldið áfram enda verður fjarþjónusta mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem hverju sinni er hægt að veita á staðnum.

Frumkvæði um jákvæða heilsu

Við verðum alltaf meðvitaðri um mikilvægi geðheilbrigðis þjóðarinnar og í hraða nútímans, með öllu sínu áreiti þarf að standa vörð um andlega heilsu. Stór skref hafa verið stigin í átt að traustri og áreiðanlegri geðheilbrigðisþjónustu á Austurlandi. Hér eru sálfræðingar og geðheilsuteymi eins og hjá öðrum heilbrigðisstofnunum og ráðinn hefur verið yfirlæknir geðheilbrigðismála fyrir Austurland. Frumkvæði HSA á landsvísu um að innleiða hugmyndafræði jákvæðrar heilsu (Positive Health) er liður í að bæta alla þjónustu, m.a. geðheilbrigðisþjónustu.

Áhersla núverandi heilbrigðisráðherra á að efla heilsugæsluna með t.d. þverfaglegri nálgun, lækkun á kostnaðarhlutdeild sjúklinga og auknum fjárveitingum til tækjakaupa er stórt framfaraskref, sem verður að halda áfram. Það er í takt við þá stefnu að heilsugæslan eigi að vera fyrsti snertiflötur fólks við heilbrigðiskerfið og styrkir sjúkrahúsin sem geta betur einbeitt sér að verkefnum sem þurfa hátt þjónustustig.

HSA í fararbroddi

Með þessu verða verkefni heilsugæslunnar hins vegar fjölbreyttari og í enn fleiri horn að líta. HSA hefur verið í fararbroddi þegar kemur að því að bjóða uppá fjölbreytta þjónustu í heilsugæslu og var t.d. fyrst stofnanna til þess að bjóða upp á beinar tímabókanir hjá sjúkraþjálfara í heilsugæslu. Það hefur gefist mjög vel og er þjónustan vel nýtt. Síðastliðin tvö ár er þjónusta félagsráðgjafa í boði innan heilsugæslu HSA, hefur mælst vel fyrir og eftirspurnin er mikil. Vilji er til þess að auka enn fjölbreytni þjónustu heilsugæslunnar m.a með því að ráða fíkniráðgjafa í nánustu framtíð enda mikilvægt að heilsugæslan geti þjónustað fjölbreyttar þarfir íbúa.

Með stefnu VG og Svandísi Svavarsdóttur í brúnni á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hafa innviðir heilbrigðisþjónustu verið efldir svo um munar. Það er mikilvægt að hið opinbera sjái áfram um heilbrigðiskerfið þar sem allar manneskjur geti komið málum sínum í farsælan farveg innan kerfisins. Kjósum jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Það skiptir máli hver stjórnar. Kjósum VG.

Jódís Skúladóttir er lögfræðingur og skipar 2. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi
Pétur Heimisson er heimilislæknir og fulltrúi VG í umhverfis- og framkvæmdaráði Múlaþings


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.