Öflug og einlæg samstaða í Fjarðabyggð í baráttunni við COVID-19

Samkomubann vegna heimsfaraldurs af völdum COVID – 19 hefur nú varað í sléttar tvær vikur. Það hefur sett líf flestra úr skorðum á einn eða annan hátt.

Stofnanir Fjarðabyggðar hafa á undanförnum vikum brugðist hratt og fumlaust við þeim aðstæðum sem það hefur skapað. Starfsfólk Fjarðabyggðar hefur staðið sig með stakri prýði og kappkostað að reyna að halda þjónustunni gangandi eins vel og unnt er við afar krefjandi aðstæður.

Í leik- og grunnskólum hefur tekist vel til að halda úti öflugu skólastarfi. Starfsfólk skólanna okkar hefur lagst á eitt við að halda starfinu gangandi. Vissulega hefur ástandið haft áhrif á starfið, opnunartími hefur verið skertur á leikskólum og frístundaheimilum, börn koma fyrr heim úr skólanum á daginn og treyst hefur verið á meiri fjarkennslu en áður hefur þekkst. Allt hefur þetta verið gert í góðu samráði skóla og foreldra og hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hve samstíga allir hafa verið í því að láta þetta ganga upp.

Því miður hefur faraldurinn einnig haft mikil áhrif á íþróttalíf og hreyfingu. Íþróttamiðstöðvarnar okkar eru lokaðar og engar íþróttaæfingar í gangi hjá börnum og fullorðnum. Samt höfum við sennilega aldrei haft meiri þörf fyrir hreyfingu og einmitt núna. Þá þarf að finna aðrar leiðir til að hreyfa sig og hvet ég alla til að nýta sér aðra kosti í útiveru eins og að ganga og hlaupa. Vorið færist sem betur fer nær og þá er um að gera að við njótum þess að vera úti.

Mig langar til að benda á upplýsingasíðu varðandi COVID-19 inn á www.fjardabyggd.is. Þar birtast allar tilkynningar sem Fjarðabyggð sendir frá sér og varða breyta þjónustu sveitarfélagsins, auk annara tilkynninga til almennings sem varða faraldurinn.

Fyrstu COVID-19 smitin greindust á Austurlandi í síðustu viku. Þegar þetta er skrifað hafa sex smit greinst í fjórðungnum öllum og rúmlega 200 manns eru í sóttkví. Það hlaut að koma að því að smitaðir einstaklingar myndu greinast í okkar nær umhverfi. Nú ríður á að við stöndum saman og tökumst saman á við þennan vágest. Það gerum við sem fyrr með öflugum sóttvörnum hjá okkur sjálfum og að við öll fylgjum í hvívetna tilmælum sóttvarnaryfirvalda.

Við verðum líka að taka vel utan um þá sem veikjast. Það er ekki ætlun neins að smitast og hvað þá að smita aðra. Þeir sem verða fyrir því mega ekki undir nokkrum kringumstæðum finna fyrir skömm eða útskúfun. Hendum orðinu „smitskömm“ og einbeitum okkur að því sem við gerum best í svona aðstæðum, að passa upp á okkur nánust, tökum upp símana og heyrum í okkar fólki, nýtum okkur tæknina til að eiga í samskiptum við fólk í sóttkví og einangrun.

Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig samfélagið í Fjarðabyggð hefur tekist á við þær áskoranir sem þessum faraldri hafa fylgt. Framundan eru enn fleiri verkefni sem við þurfum að takast á við og þau munu reyna á okkur. En samstaðan er öflug og ef við höldum þeirri samstöðu áfram þá verða þessi verkefni okkur mun auðveldari viðfangs. Það er mikilvægt að muna að það kemur að því, fyrr en seinna, að við sjáum fyrir endann á faraldrinum – það mun vora að nýju!

Karl Óttar Pétursson,
bæjarstjóri Fjarðabyggðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.