Nýskapandi sókn á landsbyggðinni

Fjórða iðnbyltingin er skollin á og við finnum það í okkar daglega lífi hvernig stafræn tækni verður sífellt stærri partur af tilveru okkar – bæði í vinnu og á heimavelli.

Lærdómur hinna byltinganna sem á undan komu er að þeim þjóðum vegnar best sem eru tilbúnar til að tileinka sér nýja hugsun og tækni, aðlaga sig breyttum aðstæðum og grípa tækifærin. Þær þjóðir sem eru á hinn bóginn seinar að bregðast við nýjum áskorunum eiga það á hættu að missa af lestinni og þurfa að gjalda fyrir það með lakari lífskjörum.

Svarið við því hvernig við best tryggjum góð lífskjör á Íslandi til framtíðar felst í því hvernig okkur tekst að efla og styrkja nýsköpun um allt samfélagið.

Framsækni nýsköpunarkrafturinn og áræðnu nýsköpunarhugmyndirnar verða að koma frá fólkinu og fyrirtækjunum. Við eigum framúrskarandi dæmi um stór og smá íslensk fyrirtæki sem í krafti nýsköpunar hafa náð frábærum árangri á alþjóðlegum vettvangi með tilheyrandi ávinningi fyrir íslenskt samfélag. Nú skiptir öllu að við eflum enn frekar kraft nýsköpunar um land allt, bæði í nýjum frumkvöðlafyrirtækjum sem og rótgrónum fyrirtækjum.

Ríkið gerir það best með að huga að vélinni, séð til þess að hún sé í lagi, tryggt henni gott súrefnisflæði en að vera einfaldlega að öðru leyti ekki fyrir hugviti og krafti fólksins í landinu. Hið opinbera ber hins vegar ábyrgð á að búa til jarðveginn fyrir öflugt frumkvöðlastarf hugvitssama og þrautseiga frumkvöðla og athafnafólk.

Fyrir réttu ári kynntum við nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og síðan þá höfum við eflt stuðning við nýsköpun með margvíslegum hætti; s.s. með auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð, hækkun endurgreiðslna vegna rannsóknar- og þróunar, stofnun Kríusjóðsins sem ætlað er að efla umhverfi vísifjárfesta og veitt tímabundinn stuðning við nýsköpunarfyrirtæki með því sem við köllum Stuðnings-Kríu.

Eitt af leiðarljósum nýsköpunarstefnunnar er að hugvit einstaklinga er mikilvægasta uppspretta nýsköpunar. Verðmæti einstaklingsins er eitt það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf skilið vel en einstaklingarnir geta saman myndað verðmæta heild. Ég hef þá trú að sameinað sveitarfélag með áherslu á þau verðmæti undir forystu Sjálfstæðisflokksins geti verið nýtt og leiðandi afl.

Endurskoðun verkefna Nýsköpunarmiðstöðvar er tækifæri fyrir landsbyggðirnar

Nýsköpun krefst þess að við höfum þor og dug til að leita allra leiða til að gera stöðugt betur. Við sem erum í stjórnmálum verðum stöðugt að huga að því hvernig við getum hagrætt í ríkisrekstrinum og hvar við getum forgangsraðað verkefnum betur. Ég tilkynnti í febrúar síðastliðnum áform um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands í núverandi mynd með það að augnamiði að straumlínulaga verkefnum og forgangsraða áherslum. Ein af þeim áherslum er að framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni verði aukin í samvinnu við sveitafélög, atvinnulíf og þekkingarsamfélag á staðnum.

Lögð verður sérstök áhersla á að efla stuðning við nýsköpun á landsvísu á forsendum svæðanna sjálfra og í náinni samvinnu við atvinnulíf og menntakerfi á einstökum svæðum. Unnið verður að sterkari umgjörð fyrir starfsemi stafrænna smiðja á landsbyggðinni sem byggir á samvinnu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og atvinnulífs. Þá verður sérstökum framlögum varið til stuðnings nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni í samvinnu við sveitarfélög og atvinnulíf. Enn fremur verður stutt við framtak aðila sem bjóða fram þjálfun og stuðning við frumkvöðla á landsvísu.

Tækniþróunarsjóður er í lykilhlutverki þegar kemur að því að efla frumkvöðlastarf. Sagan segir okkur að hlutfallslega fáar umsóknir koma frá landsbyggðinni og því renna fáir styrkir til fyrirtækja og frumkvöðla sem eru staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. Við svo búið má ekki una og því er það mikilvægt að við horfum á stuðningsumhverfið í stærra samhengi og leitum svara við því hvernig við getum aukið menntun og færni um land allt og dregið fram sérstöðu hvers og eins landshluta.

Nýtum öll tækifæri

Á þessum krefjandi tímum í samfélaginu verðum við að nýta öll þau tækifæri sem við höfum til að sækja fram. Hinir mörgu kostir Íslands eru að verða sífellt skýrari og betur þekktir í alþjóðlegu samhengi og í því felast mörg tækifæri.

Ein breyting sem margir telja að verði varanleg er að fyrirtæki leyfi starfsfólki sínu í auknum mæli að vinna utan skrifstofunnar. Google og Facebook hafa þegar gefið út að starfsfólk megi vinna heiman frá sér út þetta ár. Twitter gekk enn lengra og setti engin tímamörk á hið nýja fyrirkomulag, sem virðist því vera orðið varanlegt. Ég tel augljóst að hér sé að skapast áhugavert tækifæri fyrir Ísland og fyrir sérfræðinga í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum getum við boðið upp á mikil lífsgæði í fallegu umhverfi. Á sama tíma hefur íslenskt samfélag almennt, og nýsköpunarumhverfið sérstaklega, mjög gott af því að fleiri erlendir sérfræðingar með sína reynslu, tengingar og þekkingu komi og starfi héðan. Ef við gerum þeim auðvelt fyrir að setjast hér að græðum við öll og ekki síst á þeim svæðum þar sem aðeins örfáir öflugir einstaklingar geta breytt heilmiklu í nærumhverfi sínu. Vinna sem hefur þetta að markmiði er langt komin og ég bind miklar vonir við.

Efnahagslegt sjálfstæði okkar allra út um allt land veltur að verulegu leyti á því að við tökum afgerandi stöðu með hugvitinu. Þannig búum við íslenskt samfélag best undir ólíkar áskoranir með það að markmiði að auka samkeppnishæfni og lífsgæði.

Höfundur er varaformaður Sjálfstæðisflokksins


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.