Nýjar áherslur í sameinuðu sveitarfélagi

Þann 19. september göngum við til kosninga um nýja sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Múlaþingi. Ef tekið er mið af hversu mikill meirihluti samþykkti sameiningu sveitarfélaganna, má draga þá ályktun að íbúar hins nýja sveitarfélags vilji sjá breytingar og nýja nálgun í uppbyggingu samfélagsins. Þjónustu fyrir unga sem aldna og fjölbreytt atvinnutækifæri.

Í Austurglugganum þann 3. september sl. kynntu efstu menn á listum, sem verða í framboði helstu stefnumál og áherslur fyrir komandi kjörtímabil. Þarna voru á ferð aðilar sem tekið hafa þátt í sveitarstjórnarpólitíkinni á Austurlandi margir hverjir árum saman auk þess sem nýir stigu fram.

Eftir að hafa lesið fyrirsagnir frambjóðenda var ekki margt nýtt sem þar kom fram. Leiðtogarnir bentu á gömul gildi s.s. að halda ríkinu við efnið, sveitarfélög út á landi þurfi að vera frekari, mikilvægi umhverfis- og loftslagsmála og framsóknarflokkurinn væri í blóðinu.

Allt eflaust góð markmið, en hverju hafa þau skilað okkur? Á árunum 2013-2018 hefur opinberum störfum í Djúpavogshreppi til dæmis fækkað um 45%. Íbúum á landsvísu hefur fjölgað um 13% á síðastliðnum tíu árum og á sama tíma hefur íbúum hins nýja sveitarfélags fjölgað um 3%.

Framsýnt fólk í forustu

Í yfirferð minni um stefnu flokkanna stoppaði ég við áherslur leiðtoga Miðflokksins í nýju sveitarfélagi. Í áherslum og framtíðarsýn hans má sjá að þar fer maður með mikla reynslu af störfum í hinu alþjóðlega umhverfi. Maður sem kemur með algjörlega nýja sýn á atvinnuuppbyggingu hinna dreifðu byggða.

Það var ákveðin áskorun þegar íbúar þessara fjögurra sveitarfélag ákváðu í kosningu að sameina þau í eitt. Í kosningum til sveitarstjórnar sem fram fara 19. september er mikilvægt að halda áfram í þeirri vegferð sem þar hófst.

Sú vegferð kallar á nýja sýn og nýja hugsun, hugsun sem dregur fram það besta í hverjum frambjóðanda burtséð frá flokkspólitískum línum. Sem leiðir til þess að flokkadrættir verði lagðir til hliðar og reynslumikið og framsýnt fólk verði valið í fremstu víglínu hins nýja sveitarfélags.

Þannig byggjum við upp samfélag sem nýtir þekkingu og hæfileika frambjóðenda í mótun og uppbyggingu á nútíma sveitarfélagi. Sveitarfélagi sem byggir á fjölbreyttum störf og góðri þjónustu fyrir íbúa.

Djúpavogi í september 2020
Ester Sigurðardóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.