Norðfjarðargöng: Yfirlit samgönguáætlana áranna 2007 – 2017

Nú þegar hátíðar- og gleðistundin runnin upp með vígsludegi Norðfjarðarganga laugardaginn 11. nóvember er ekki úr vegi að rifja upp nokkur atriði á þessari löngu vegferð, eða öllu heldur þrautagöngu, þar sem rætt hefur verið um ný jarðgöng til Neskaupstaðar í stað Oddsskarðsganga sem eru 630 m.y.s. og opnuð voru 1977, fyrir sléttum 40 árum.


Smá upprifjun frá fyrri tíð

Fjallað er um ný göng milli Norðfjarðar og Eskifjarðar ásamt ýmsum öðrum í úttekt á jarðgöngum á Austurlandi 1993.

Í jarðgangaáætlun sem kom út árið 2000 sagði m.a: „Lítillega hefur verið litið á göng úr um 230 m.y.s. innarlega í Fannardal inn af Norðfirði, yfir í 20 m.y.s. við botn Eskifjarðar. Slík göng yrðu um 6 km á lengd. Meira hefur þó verið litið á ný göng undir Oddsskarð, úr 300 m.y.s. í Seldal í Norðfirði í 340 m.y.s. Eskifjarðarmegin. Göngin yrðu 4,2 km á lengd og nýir vegir að þeim 6 km. Stytting leiðar er um 2 km og vetrarsamband verður mun tryggara.“

Eins og að fram kemur hér á undan var þetta árið 2000 og vekur undirritaður sérstaka athygli á hæð jarðgangamunna yfir sjó, sem þarna kemur fram. Sem betur fer varð þetta ekki að veruleika.

Samgönguáætlanir

Ekkert var minnst á Norðfjarðargöng í samgönguáætlun 2007-2010 sem samþykkt var á Alþingi rétt fyrir alþingiskosningarnar 2007.

Undirritaður var alþingismaður Norðausturkjördæmis frá árinu 2003 til októberloka 2016 og ráðherra samgöngumála frá maí 2007 til haustdaga 2010. Öll þessi þingár mín var rætt um gerð nýrra jarðganga í stað hinna gömlu Oddsskarðsganga, sama hvort það var á þingmannafundum eða í venjulegum skemmtilegum samræðum við íbúa, jafnt á vinnustöðum sem á förnum vegi.

Undirritaður lýsti alltaf fullum stuðningi við gerð nýrra ganga og má því segja að hlaupið hafi á snærið hjá jarðganga- og samgöngu- áhugamanninum þegar hann settist í stól samgönguráðherra 24. maí 2007.

Viðauki við samgönguáætlun 2007-2010

Við mikinn niðurskurð þorskkvótans það sumar var ákveðið í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að leggja sérstaka áherslu á framkvæmdir í samgöngumálum og flutti ég tillögu um það á Alþingi sem viðbót við samgönguáætlun sem samþykkt var 24. maí 2008 með 54 samhljóða atkvæðum.


Norðfjarðargöng voru því miður ekki tilbúin til útboðs þá, hönnun nánast ekki hafin og því var ekki hægt að setja þau inn strax til framkvæmda.

Hins vegar var árin 2007 – 2011 varið 250 millj. kr. utan samgönguáætlunar til rannsókna, leiðarvals og undirbúnings.

Hálfnað er verk þá hafið er- eða hvað?

Norðfjarðargöng komu því strax inn í mína fyrstu samgönguáætlun í þessum viðauka en þar sagði m.a.: „Í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð þorskkvótans síðastliðið sumar ákvað ríkisstjórnin að grípa til mótvægisaðgerða í formi framkvæmda í samgöngumálum til að draga úr áhrifum fyrirsjáanlegs aflasamdráttar og styrkja innviði fjölmargra svæða á landsbyggðinni. Tilkynnti ríkisstjórnin flýtingu framkvæmda að upphæð 6.500 millj. kr. Í ljósi svo mikilla breytinga á samgönguáætlun þótti nauðsynlegt að gera viðauka við hana, sem ég legg nú fram í formi þingsályktunartillögu, og geri þar með grein fyrir breytingum á einstökum liðum áætlunarinnar.“

Um Norðfjarðargöng var þetta sagt og ritað í áætluninni: „Framkvæmdum við jarðgöng milli Eskifjarðar og Norðfjarðar verður flýtt og hefjast þær árið 2009 og mun ljúka 2012.“

Fjármagn var í fyrsta sinn veitt til Norðfjarðarganga í þessari áætlun þ.e. 600 millj.kr. fyrir árið 2009 og 1700 millj.kr. fyrir árið 2010.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Efnahagshrun reið yfir landið á haustdögum 2008 og sú saga er öllum kunn.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þurfti að hefja niðurskurð strax í fjárlögum 2009 og samgönguframkvæmdir upp á 6 milljarða kr. og svokallaðir símapeningar duttu út.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna þurfti líka að skera niður um 3.7 milljarða kr. til viðbótar í samgöngumálum. Þetta leiddi til frestunar verkefna og þau fjölmörgu verkefni sem í gangi voru urðu miklu dýrari vegna gengishruns og verðbólgu. Ekki var hætt við neitt verkefni en mörg frestuðust og drógust á langinn.

Næsta samgönguáætlun 2009 – 2012

Í þeirri áætlun sagði þetta um Norðfjarðargöng: „Í gildandi vegáætlun var gert ráð fyrir að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hæfust 2009 en nú er gert ráð fyrir að þær hefjist 2011. Gert er ráð fyrir 220 millj. kr. framlagi 2011 og 1.174 millj. kr. 2012.“

Allir þingmenn kjördæmisins höfðu lýst því yfir að Norðfjarðargöng væru þeirra aðal áhersluatriði varðandi vegaframkvæmdir í Norðausturkjördæmi á komandi árum og að framkvæmdir ættu að hefjast árið 2011.

Þannig var fjárveiting til Norðfjarðarganga áætluð 87% af framkvæmdafé kjördæmisins árið 2012. Jafnframt var í þessari áætlun sagt að ef stór framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu myndu hefjast með fjármögnun frá lífeyrissjóðunum, eins og unnið var að, þá myndu losna fjármunir til að færa yfir í verkefni á landsbyggðinni m.a. Norðjarðargöng. Þessi samgönguáætlun var samþykkt með 42 atkvæðum gegn 2 og 6 sátu hjá.

Frummatsskýrsla var lögð fram til athugunar hjá Skipulagsstofnun í nóvember 2008, og síðan var umhverfismatsskýrsla vegna Norðfjarðarganga lögð fram í mars 2009.

Verkið var komið af stað

Samgönguáætlun 2011-2014

Ögmundur Jónasson þáverandi innanríkisráðherra fylgdi samgönguáætluninni úr hlaði á Alþingi 19. jan 2012 og sagði þetta um Norðfjarðargöng:

„Áætlunin gerir ráð fyrir að þegar Héðinsfjarðar- og Bolungarvíkurgöng verði tilbúin séu Norðfjarðargöng næst á dagskrá, verði byggð á tímabilinu 2015–2018.“

Þarna var sem sagt lagt til að framkvæmdum og upphafi að gerð Norðfjarðarganga væri frestað enn einu sinni, og nú til 2015, og aðeins 50 millj. kr. áætlaðar til Norðfjarðarganga, svona til að halda málinu vakandi. Ég var strax mótfallinn þessari frestun og sagði m.a. í umræðu um samgönguáætlunina á Alþingi vegna þessarar frestunar: „Þess vegna er ég algerlega ósammála því að Norðfjarðargöngum sé frestað í áætluninni, í stað þess að framkvæmdir hefjist á þessu ári eins og segir í gildandi áætlun fyrir árið 2012, það voru einnig settir peningar í þau árið 2011,

Það er skemmst frá því að segja að töluverð átök urðu í umræðum á Alþingi svo og í nefndinni, svo ekki sé talað um á bak við tjöldin!

Meirihluti nefndarinnar lagði til í einni af sínum mörgu breytingartillögum: „Lagt er til að flýta framkvæmdum við Norðfjarðargöng um eitt og hálft ár.“

Framlag til Norðfjarðarganga árið 2013 var síðan samþykkt 1200 m.kr og 2500 m.kr fyrir árið 2014.

Í atkvæðaskýringu við lokaafgreiðslu þessarar samgönguáætlunar sagði ég m.a.: „Um leið og ég fagna þessum metnaðarfullu breytingartillögum fagna ég því alveg sérstaklega sem hér er sagt um Norðfjarðargöng, að staðið verði við þær framkvæmdir og þær boðnar út á þessu hausti og hefjist eins fljótt og hægt er á næsta ári.“

Samgönguáætlunin fyrir árin 2011-2014 var síðan samþykkt 19. júní 2012 með 42 atkvæðum en 5 sátu hjá.

Loksins, eftir mikla þrautagöngu var björninn unninn og framkvæmdin tryggð.

Rétt er að ítreka og taka skýrt fram að allir þingmenn kjördæmisins voru ávallt samstíga og sammála um Norðfjarðargöng sem var mjög mikilvægt í þessari vegferð allri.

Seinna meir væri kannski gaman að skrifa eilítið meira um undirbúninginn upp úr dagbók minni frá mínum ráðherratíma t.d. fundi í Neskaupstað 6. febrúar 2008 þar sem margir voru mættir til að ræða við samgönguráðherrann um ekkert nema Norðfjarðargöng. Þar kynntist ég Guðröði Hákonarsyni - Gurra sem fór með ráðherrann o. fl. fram í Fannardal á sínum fjallabíl, og sagði skoðanir sínar umbúðalaust um hvar göngin ættu að koma út, og hvar alls ekki. Við Gurri höfum verið miklir vinir síðan og hann var góður ráðgjafi! Einnig væri gaman að skrifa úr dagbók ráðherrans þegar Guðmundur heitinn Bjarnason og Helga Jónsdóttir komu í heimsókn til að ræða um Norðfjarðargöng. Þær voru margar og líka ljúfar og góðar heimsóknir.

Lokasamantekt og tímarammi

Heildarkostnaður við Norðfjarðargöng var áætlaður 12 milljarðar kr. á verðlagi í febrúar 2013.

Forval vegna Norðfjarðarganga fór fram síðla árs 2012.
Útboðsgögn voru afhent bjóðendum 20. febr 2013.
Tilboð voru opnuð 16. apríl 2013.
Verksamningur var undirritaður 14. júni 2013.
Fyrsta sprengjan var sprengd 14. nóvember 2013 af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra.
Síðasta haftið var sprengt 25. september 2015 af Ólöfu heitinni Nordal innanríkisráðherra.

Hátíðisdagurinn er loksins upprunninn – loksins loksins. Norðfjarðargöng voru vígð laugardaginn 11. nóvember 2017 kl 13.30.

Til hamingju íbúar Fjarðabyggðar, Austfirðingar svo og landsmenn allir.

Höfundur var alþingismaður NA kjördæmis 2003-2016 og ráðherra samgöngumála frá maí 2007 til október 2010.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar