Norðfjarðargöng eins árs – tækifærin aldrei fleiri

Fyrir ári síðan, þann 11. nóvember 2017, voru Norðfjarðargöngin vígð og eru þau því formlega eins árs í dag. Hvað breyttist og hvað hefur í raun gerst í okkar samfélagi við þessa miklu samgöngubót?

Í tilefni af vígslu ganganna fyrir ári síðan skrifaði ég grein á þessum vettvangi og velti því fyrir mér hvað áhrif Norðfjarðargöngin myndu í raun hafa. Nú ári síðar velti ég því fyrir mér hvort væntingar um áhrif ganganna hafi gengið eftir. Í aðdraganda þessara skrifa hafði ég samband við fjölmarga aðila sem lifa og starfa á Austurlandi til þess að fá betri innsýn inn í þær breytingar sem greinilega hafa orðið með tilkomu ganganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er gert ráð fyrir að meðalfjöldi ökutækja á sólarhring fyrir árið 2018 verði um 650 ökutæki sem aka um Norðfjarðargöng samanborið við 490 ökutæki sem fóru um Norðfjarðarveg árið 2017, þá í gegnum Oddskarð. Eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti eru einkenni umferðarinnar með svipuðum hætti á milli ára en aukning umferðar á þessu fyrsta ári er umtalsverð eða 33%.

Ástæður þessarar aukningar á umferð geta verið af ýmsum toga. Í fyrsta lagi telur fólk að meiri samgangur sé almennt á milli bæjarkjarnanna í Fjarðabyggð sem og annarra staða á Austurlandi. Ekki þarf lengur að hafa áhyggjur af ófærð eða því óöryggi sem fylgdi ferðum yfir Oddsskarðið hér áður fyrr. Fólk fer því oftar frá og til Neskaupstaðar til að sinna hinum ýmsu erindum eða hreinlega skreppur oftar í bíltúr á milli bæjarkjarna.

Þá er greinilegt að menning, íþróttastarf og allskonar afþreying lifir enn betra lífi en áður að ónefndri þeirri staðreynd nú sjást fleiri einstaklingar á veitingahúsum Fjarðabyggðar heldur en fyrir göng. Það er til dæmis upplifun undirritaðs að maður setur ekki lengur fyrir sig að renna yfir í næsta bæjarkjarna til að sækja menningu eða þjónustu. Þá að sjálfsögðu einnig til annara staða á Austurlandi enda tel ég að göngin hafi stuðlað að aukinni einingu Austfirðinga en fólk sækir vinnu, menningu, íþróttir, verslun og þjónustu enn meira um allt Austurland.  Jafnvel má leiða líkur að því að þessar breytingar séu fyrirboði um eitt sveitarfélag á Austurlandi áður en langt um líður og eðlilegt verður að teljast að slíkur framgangur muni gerast í skrefum.

Í öðru lagi kom fram í samtölum mínum að íbúar horfi nú frekar á sveitarfélagið sem eina heild eftir að göngin komu enda sveitarfélagið orðið að einu þjónustu- og atvinnusvæði. Fasteignamat eigna er á töluverðri uppleið og fasteignamarkaður líflegur um þessar mundir. Það færist enn í vöxt að fólk velji sér ekki endilega búsetu í þeim bæjarkjarna sem það stundar atvinnu, enda verður með hverri stórframkvæmdinni minna tiltökumál að aka óhindrað milli staða innan sveitarfélagsins.

Í þriðja lagi lýstu atvinnurekendur sem ég ræddi við, m.a. í Neskaupstað, að nú væri betra og auðveldara að skipuleggja atvinnustarfsemi en áður fyrr og hægt væri m.a að auka ýmsa þjónustu á staðnum með hagkvæmari hætti. Þar sem ekki þarf lengur að hafa áhyggjur af veðri væri skipulag vinnuvakta til að mynda með allt öðru formi og sá áreiðanleiki að fá sendar vörur og önnur aðföng væri nú mun betri en áður. Einhverjir voru þó á því að enn fleiri tækifæri væru til staðar og það mætti vera meiri kraftur í því að nýta þau. Auðveldara aðgengi að heilbrigðisþjónustu, öruggari sjúkraflutningar ásamt skjótari viðbrögðum ýmissa viðbragðsaðila skipta síðan miklu máli fyrir alla Austfirðinga.

Í fjórða lagi hafa aðilar sem sinna flutningaþjónustu lýst tilkomu Norðfjarðarganga sem algjörri byltingu, en mikill akstur stórra fólks- og vöruflutningabifreiða eru til og frá Neskaupstað. Með tilkomu ganganna hefur aksturstími minnkað til muna ásamt því að slit á bílum og olíeyðsla er ómælt minni. Þá eru ónefnd öll þau óþægindi og bras sem oft einkenndi akstur stórra og minni bifreiða yfir Oddskarð í hálku, ófærð eða slæmum veðrum. Síðast en ekki síst hefur öryggi vegfaranda allra aukist stórkostlega.

Þó að hér sé ekki um vísindalega rannsókn að ræða við ritun þessarar greinar er það niðurstaða mín að fljótt á litið hafa Norðfjarðagöng breytt lífi okkar Austfirðinga á mjög svo jákvæðan hátt. Væntingar okkar um betra líf og samfélag eftir tilkomu Norðfjarðarganga hafa gengið eftir. Allt sem upp var talið í grein minni frá 11. nóvember 2017 virðist ætla að ganga eftir með einum eða öðrum hætti. Mikilvægt er þó að halda vel á spöðunum hvað varðar frekari uppbyggingu og þjónustu og nýta þau fjölmörgu tækifæri sem svona mikil samgöngubót færir okkur.

Umfram allt er þó mikilvægt að tala samfélagið okkar upp og allt það góða sem það hefur uppá að bjóða, enda engin ástæða til annars. Tækifærin í svo mörgu eru núna......núna sem aldrei fyrr.

Mynd: Sólarhringsumferð um Norðarfjarðarveg 1.1.2018-8.10.2018 borin saman við sama tímabil árið 2017. Heimild: Vegagerð ríkisins

umferd oddsskard pbg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.