Orkumálinn 2024

Nokkur orð um snjalltæki og samfélagsmiðla

Fjarðabyggð hefur nú (mér vitanlega), fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi, tekið ákvörðun um að banna börnum að nota sín eigin snjalltæki á skólatíma. Nokkur umræða hefur verið um þetta bann og mig langar og fara í stuttu máli yfir rökin sem liggja því til grundvallar.

Hugmyndin að banni á snjalltækjum kom frá fulltrúa Sjálfsstæðisflokks í bæjarráði á síðasta kjörtímabili. Í skólum Fjarðabyggðar hafa verið í gildi reglur um notkun snjallsíma og hefur hún verið takmörkuð við efstu bekki. Í kennslustundum er notkun þeirra er einungis heimil með leyfi kennara, en í frímínútum er notkunin heimil. Skólanir hafa gert tilraunir með símalausa daga sem hafa í flestum tilvikum mælst vel fyrir. Bæjarráð lagði hins vegar til að skoðað yrði að banna notkun þeirra alfarið í ljósi reynslu og rannsókna og þeirrar staðreyndar að lönd á borð við Frakkland hafa alfarið bannað nemendum að koma með sín eigin snjalltæki í skólann.

Bæjarráðs var vísaði tillögunni til faglegrar umfjöllunar hjá fræðslunefnd og málið beið því nýrrar fræðslunefndar í upphafi nýs kjörtímabils. Nefndin taldi sig ekki hafa sérfræðiþekkingu til að ákveða hvort banna ætti slík tæki og kallaði því eftir áliti frá Skólaskrifstofu Austurlands og skólastjórnendum í Fjarðabyggð.

Veigamestu rökin fyrir ákvörðun fræðslunefndar um að mæla með banni komu úr sérfræðiáliti sálfræðinga hjá Skólaskrifstofu Austurlands. Þeir mæltu eindregið með banni í ljósi rannsókna á áhrifum snjalltækjanotkunar. Sálfræðingarnir telja rannsóknir benda til þess að notkun snjalltækja og samfélagsmiðla hafi neikvæð áhrif á námsárangur, einbeitingu, tilfinningalíf, svefn og andlega heilsu. Sálfræðiálitið frá Skólaskrifstofunni hefði að mínu mati eitt og sér dugað til að réttlæta bann á notkun snjalltækja í skólum í Fjarðabyggð og vandséð hvernig fræðslunefnd hefði getað gengið gegn álitinu.

Skólastjórar í Fjarðabyggð skiluðu sameiginlegri greinagerð um málið. Þeir útlistuðu mörg vandamál sem fylgja notkun snjallsíma í skólunum, en sögðust ekki geta mælt með banni nema að skólunum yrði tryggður tækjabúnaður til að nýta kosti netsins í kennslu. Fræðslunefnd sýndi því áliti fullan skilning og mælti með því að farið verði yfir snjalltækjakost skólanna til að endurmeta þörfina fyrir slík tæki til kennslu og svo verði skólanir græjaðir upp eins fljótt og auðið er innan ramma fjárhagsáætlana. Þar verður ekki byrjað með autt borð, því 145 Chromebook tölvur voru keyptar síðasta haust sem var stórt skref í að bæta tækjakost skólanna.

Taka skal fram að snjalltæki til kennslu og persónuleg snjalltæki nemenda eru alls ekki sami hluturinn. Snjalltæki skólans verða eingöngu notuð til kennslu og verða ekki notuð í frímínútum. Haga má kennslunni þannig að lokað sé fyrir samfélagsmiðla og annað óæskilegt efni, auk þess sem kennari getur haft eftirlit með vinnu nemenda í bekknum rafrænt. Stefnan er því alls ekki að stíga einhver skref aftur til fornaldar, heldur þvert á móti efla notkun netsins í kennslu. Mörg sveitarfélög vinna nú af kappi að snjalltækjavæðingu grunnskóla og innleiðingu nýjunga í kennsluháttum og er ljóst að Fjarðabyggð er á sömu vegferð.

Að auki kom álit frá persónuverndarfulltrúa Fjarðabyggðar sem taldi notkun persónulegra snjalltækja í skólanum orka tvímælis út frá persónuverndarsjónarmiðum. (Þegar allir eru með snjallsíma er stöðugt sú hætta fyrir hendi að verið sé að taka upp hljóð eða myndefni).

Ofangreint liggur allt til grundvallar ákvörðun fræðslunefndar um að mæla með banni á notkun persónulegra snjalltækja í skólum. En það eru fleiri rök í málinu sem vert er að velta fyrir sér:

• Samfélagsmiðlar eru ótrúlegustu auglýsinga- og áróðursmaskínur sem mannkynið hefur fundið upp. Barn sem opnar símann sinn í hverjum frímínútum sér sennilega hundruð eða jafnvel þúsundir sérsniðinna auglýsinga á degi hverjum. í hvert skipti sem barnið notar samfélagsmiðla fá svokölluð algrím (algorythm) nýjar upplýsingar sem svo sérsníða skilaboð til viðkomandi enn nákvæmar til að auka líkur á breyttri hugsun og hegðun. Við vitum ekkert hverjir borga samfélagsmiðlunum fyrir að hafa áhrif á börnin okkar, en ljóst er að þetta er afar öflug leið til að selja bæði hugmyndir og vörur.
• Samfélagsmiðlar eru hannaðir til að vera ávanabindandi í því skyni að hámarka tímann sem fólk eyðir í notkun þeirra.
• Samfélagsmiðlar bjóða upp á endalausan og óraunhæfan samanburð við aðra.
• Samfélagsmiðlar gefa nýja möguleika á einelti, áreitni og andlegu ofbeldi sem getur verið mun auðveldara að dylja en annað einelti.
• Sum börn eiga foreldra sem hafa efni á að kaupa handa þeim nýjustu og flottustu snjallsímana á 170.000 kr. Önnur börn eiga foreldra sem hafa kannski bara efni á gömlum og lélegum síma. Símar eru stöðutákn og undirstrika með mjög augljósum hætti misskiptingu og ólíka félagslega stöðu.
• Snjallsímarnir veita óheftan aðgang að endalausu magni kláms og annars óþverra, hvar og hvenær sem er. Maður þarf að vera ansi bláeygur til að ímynda sér að allir nemendur hafi sjálfsstjórn og þroska til að láta slíkt eiga sig á skólatíma.
• Andlegri heilsu barna og ungmenna virðist hraka ógnvænlega. Á árunum 2012-2016 jókst kvíða- og þunglyndislyfjanotkun ungmenna á aldrinum 15-19 um 62%. Aukningin var tæp 86% hjá stúlkum. Frá árinu 2009 hefur verið skimað fyrir kviða og þunglyndi í efri bekkjum grunnskóla í Breiðholti. Síðan þá hefur hlutfall stúlkna yfir viðmiðunarmörkum í þunglyndi meira en tvöfaldast og hlutfall þeirra sem er yfir viðmiðunarmörkum í kvíða hefur nær fjórfaldast. Langstærsta breytingin á daglegu lífi barna og unglinga síðustu árin er þessi sítenging við netið og samfélagsmiðla og það verður að teljast líklegt að þarna sé um orsakasamhengi að ræða, þótt erfitt sé að fullyrða um slíkt.

Svona mætti lengi telja, en allt ber þetta að sama brunni. Sítenging við netið og samfélagsmiðla er stærsta sálfræðitilraun mannkynssögunnar. Við höfum leyft þessum miðlum að verða óaðskiljanlegur hluti af daglegu lífi okkar nánast gagnrýnilaust. Sífellt fleira bendir til þess að þetta geri okkur ekki mikið gott.

Með því að banna persónuleg snjalltæki í skólanum getum við hlíft börnunum okkar við þessum vandamálum sem rædd eru hér að ofan stóran hluta dags. Vissulega bíða samfélagsmiðlarnir þegar heim er komið, en það er þá að minnsta kosti búið að koma í veg fyrir notkun þeirra talsverðan hluta dagsins. Forræðishyggja er leiðindafyrirbæri sem mér hugnast almennt mjög illa, en í þessu tilviki tel ég hana réttlætanlega og skynsamlega.

Bannið mun taka gildi um áramót og mun starfshópur skólastjóra og fræðslustjóra í Fjarðabyggð smíða reglur um hvernig því verður framfylgt. Málið verður kynnt og undirbúið vel áður en bannið tekur gildi og er ljóst að góð samvinna við foreldra, kennara og börnin sjálf verður lykillinn að því að þetta gangi upp.

Höfundur er félags- og mannauðssérfræðingur og formaður fræðslunefndar Fjarðabyggðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.