Lykill að auknum lífsgæðum

Að leggja góðan grunn fyrir rannsóknar- og vísindastarfsemi á vettvangi háskólanna er lykillinn að auknum lífsgæðum landsmanna allra. Á háskólastiginu þarf að leggja meiri áherslu á þróun og uppbyggingu tæknigreina til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Uppbygging tæknigreina má ekki einskorðast við höfuðborgarsvæðið því tækifærin til samvinnu við atvinnulífið eru mikil í dreifðari byggðum landsins. Því ber okkur hér á landsbyggðinni að líta til Háskólans á Akureyri til þróunar og uppbyggingar tæknigreina og byggja þannig upp þekkingu og reynslu sem styrkir atvinnulífið á landsbyggðinni. Dæmi sýna að eftirspurnin eftir tæknimenntuðu fólki hefur verið að aukast hratt undanfarin ár og ekki annað að sjá en að sú þróun haldi áfram.

Þróun á kennsluháttum

Þeir háskólar sem lagt höfðu áherslu á tækni í kennslu fyrir heimsfaraldurinn gátu mætt nemendum sínum betur þegar sú staða kom upp að ekki var hægt að sinna hefðbundinni kennslu í staðnámi Það sýndi hversu mikilvægt það er að háskólar, og í raun menntakerfið í heild sinni, tileinki sér jafnóðum þá þekkingu og tækni sem þegar er til staðar þegar kemur að lausnum varðandi fjarkennslu. Nýta ætti þann meðbyr sem hröð þróun í þessum efnum kallaði á þegar heimsfaraldurinn skall á og stíga skrefið til fulls og efla enn frekar rafrænar lausnir þegar kemur að kennslu á háskólastigi. Ekki bara er það til þess fallið að stuðla að auknu aðgengi að háskólanámi heldur er hér um að ræða tækifæri til að byggja upp tækni og þekkingu sem nýtist áfram til þróunar nútímalegri kennsluhátta, öllum til heilla.

Í þessu ljósi þarf að efla rafræna kennsluhætti í Háskóla Íslands sem og auka námsframboð í Háskólanum á Akureyri til að tryggja bætt aðgengi að námi fyrir landið í heild. Sjálfstæðisflokkurinn vill fara í stórsókn í netvæðingu háskólanáms á Íslandi með þetta að markmiði.

Framfærsla stúdenta í ólestri

Námslánakerfið er stöðugt í umræðu hjá námsmönnum enda gríðarlega mikilvægt fyrir þá flesta að kerfið sé þannig upp byggt að það styðji þá og stuðli þannig að þeim markmiðum sem það byggir á. Námslánakerfið er ekkert frábrugðið öðrum kerfum á vegum hins opinbera, þjónustan verður að taka mið af þörfum námsmanna en ekki sínum eigin, eins og margir hafa því miður rekið sig á í gegnum tíðina að er raunin. Einfalt, gagnsætt og notendavænt kerfi er sjálfsögð krafa námsmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því að námslánakerfið verði að hluta til styrkjakerfi. Námslánakerfið á að jafna stöðu stúdenta en ekki skapa aðstæður sem bæði hægir á námsframvindu þeirra og letur þá til þess að sækja vinnu. Skerðingar á námslánum vegna framfærslu eru úreltar.

Öflugir háskólar og umhverfi sem hvetur og styður stúdenta til fjölbreytts háskólanáms eru forsenda þess að hér á landi byggist upp þekking og reynsla sem svo skilar sér út í atvinnulífið. Öflugt og fjölbreytt háskólanám auk kröftugs atvinnulífs eru á meðal þeirra grunnstoða sem við eigum að byggja á til framtíðar og hlutverk okkar allra að stuðla að því að svo geti orðið.

Höfundur skipar 2. Sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.