Lúter var 34 ára, ég 36

Ég er asni, það er alveg ljóst. Ég hefði ekki þurft að spyrja, kannski hugsa. Auðvitað er það líka ljóst að okkar hluta dýrategundarinnar sem erum „hvítir karlar“ er kannski flest betur gefið en einmitt það; að hugsa. Auðvita kann það að vera að karldýr af öðrum litum séu heldur ekki gefin fyrir að hugsa, þó aldrei væri nema að hugsa sig um. Smá stund er kannski eitthvað sem mætti fara framá. Nei, við þessir hvítu, eigum, held ég, bara svo miklu betur skjalfest hugsunarleysi, jæja, eða grimmd.

Á nýliðnu ári var haldið upp á það þegar Marteinn Lúter negldi tesurnar sínar 95 á hurð hallarkirkjunnar í Wittenberg. Nú segir náttúrlega einhver: „ætlar Krummi að fara bera sig saman við Martein“. Svarið er umsvifalaust já. Ég gat heldur ekki annað. Þá segir líklega trúlega þessi einhver að þessi frasi sé nú þreyttur orðinn og höfundur þessara lína muni fæddur 400 árum eftir að Marteinn dó.

Þennan gagnrýnanda minn skal ég upplýsa strax um að ég hef ævinlega verið hrifnari af Erasmusi, félaga Marteins, enda samdi Erasmus, að mínu takmarkaða viti, betri bók, eða þannig. Sú bók, ef einhver skildi ekki þekkja hana, heitir í Þýðingu séra Hjörleifs á Þvottá frá 1730, „E.roterodami Heimskunnar Hrósan”; „Lof heimskunnar í Bókmenntafélagsútgáfunni, og úr eftirmálanum á henni hef ég: „Enda þótt þýðing séra Hjörleifs hafi aldrei komist á prent verður að telja það merkt framtak af klerki á Austfjörðum að snúa þessu riti á íslensku snemma á 18. öld.“ Ég held að þýðendurnir, tveir hvítir karlar, hafi ekki verið að furða sig að prestur hafi þýtt, heldur Austfirðingur.

Annað sem ég vil telja Erasmusi til tekna var að hann var á móti því að fjölga flokkum á þingi; kirkjuþingi alltso.

En ég hafði enga hallarkirkjuhurð 1982 og lét sitja við að negla mína einu tesu á tjöruborinn tréstaur sem bar annars uppi raflínur þorpsins á Stöðvarfirði nema helst á, já, „Lúterskum kirkjuhátíðum“.

Þessi auglýsing lét ekki mikið yfir sér og fór ekki fyrir kirkjuþing, bara fyrir hreppsnefndina. Þarna tilkynnti ég sveitungum mínum að ég yrði ekki í framboði til sveitastjórnar og bað þá að kjósa konur. Þetta síðasttalda er það eina sem ég tel mér til tekna í þessu lífi. Bara svo það sé á hreinu.

Það er auðvitað of seint að spyrja Martein við hverju hann hafi búist í bættum siðum en ég bjóst við árangri. Til að vera alveg ærlegur; ég var ekki á leiðinni að þakka mér hann. Vigdís hafði verið kosin forseti 1980 og búið að ákveða kvennaframboð í borginni. Það komu tvær konur í 5 manna sveitastjórnina. Þær voru tvær til 1990 að þeim fjölgaði í þrjár. Meirihluta í óhlutbundinni kosningu. Hér ætla ég að sneiða hjá framhaldinu.

Ég er búinn að skrifa það að ég sé asni. Ég fylgdist bara einu sinni með talningu og ég tíndi gögnunum mínum eða hreinlega fleygði þeim. Það sem ég man frá þessu er að atkvæðin dreifðust á fleiri konur og ég hafði pata af, að í mínu tilfelli 1978, höfðu einmitt karlar til sjós sammælst.

Eins og flestir vita auðvita, felst snilldin í því að spyrja og ég hef spurt: „Hvernig stendur á því að þrátt fyrir að meirihluti fólks telur, væntanlega, að það sé heppilegra að stjórnendur hafi þekkingu á því sem á að ráðskast með, skulum við ekki vera með afgerandi meirihluta kvenna á alþingi og í sveitastjórnum“.

Flestir held ég að hafi skilið að við eigum tölfræðilega miklu meiri líkur á að finna heppilega stjórnendur meðal kvenna ef við horfum á málefnin sem fengist er við, á vettvangi stjórnmálanna, og miðað við núverandi verkaskiptingu kynjanna. Það fólk sem svaraði mér, og það voru fæstir, átti að mér finnst ekki önnur svör en þau að konur hefðu vit á að taka ekki að sér vitlausa hluti og væru einfaldlega lausar undan „hanalátum strákanna“.
Fyrir rúmu ári kusu Kanar sér klámkjaft fyrir forseta og síðustu mánuði hafa konur fest sínar tesur á hallarkirkjuhurðir samtímans. Eitt af því sem kom gott af brölti Marteins fyrir 500 árum var að
Hjörleifur á Þvottá lagði á sig að snúa 200 ára gömlu öndvegisriti Erasmusar af latínu á Íslensku en það liðu hátt í 300 ár þar til „fólkið í landinu“ fékk að berja spekina augum.

Það fækkaði konum á þingi í haust. Það er galið. Það á að kjósa til sveitastjórna í vor og ég vil sjá góðan meirihluta kvenna í þeim og ekki síst á Austurlandi þar sem búið er að þýða „Lof heimskunnar“ fyrir svona löngu. Karlar standið upp fyrir konum. Það er siðbót. Konur ekki bíða eftir að „karlar biðji ykkur að vera memm“; takið slaginn, ykkur í fyrstu sætin, og í guðanna bænum, (ekki Marteins, hann var klámkjaftur), ekki segja: „ekki ég“; einfaldlega vegna þess að það getið þið allar sagt. Það er rétt, skýringarnar eru, eins og greinar Marteins Lúters á hurðinni, núna bara á Fésbókinni. Ekki bíða í 500 ár, ekki 300, bara ekki bíða neitt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar