Leitin endalausa að ódýru flugi

Ég er í hópi á Facebook sem heitir „Dýrt innanlandsflug. Þín upplifun.“ Það er líklega eðlilegt að hópur með því nafni verði svolítið á neikvæðu nótunum. Þar er fólk almennt að lýsa upplifun sinni á dýru innanlandsflugi, sem reyndar er oftar en ekki ástæða þess að fólk virðist almennt hætt að nota innanlandsflugið. Lætur sér að góðu verða að ferðast heilu og hálfu sólarhringana í bíl - allavega hluta ársins, því augljóslega er það ekki fyrir alla að ferðast á þjóðvegum landsins yfir vetrarmánuðina.

Það er hins vegar ósköp krúttlegt og reyndar alveg frábært þegar fólk í athugasemdum við innlegg á síðunni reynir að vera jákvætt, hugsa í lausnum og hvetja þá sem kveinka sér yfir þjónustu eða verðfrumskógi flugfélagsins. „Getur þú ekki fengið Alcoa-far?“, „Ég pantaði um daginn og fékk ferðina á ....“, „Kauptu bara Flugfrelsi, þá færðu ferðina miklu ódýrari“, „Hefurðu prófað Kappa fargjöld?“, „Getur þú ekki nýtt þér þetta tilboð?“, „Krónufargjöldin hjálpa.“ og svo framvegis á þessum nótum.

Þessar hjálplegu athugasemdir sýna hins vegar um margt hluta vandans. Hvers vegna er svona mikið fyrir því haft að finna verð á flugi sem við ráðum, eða getum sætt okkur við? Af hverju virðist það vera regla frekar en undantekning að þurfa ýmist að lengja eða stytta dvöl okkar til þess eins að hafa efni á að komast til höfuðborgarinnar, jafnvel í mikilvægum erindagjörðum til að sækja þangað þjónustu sem við eigum jafn mikinn rétt á og allir landsmenn og höfum greitt jafn mikið til uppbyggingar á?

Er óeðlileg krafa að innanlandsflug verði skilgreint sem almenningssamgöngur, með gagnsæju verði sem allir geta gengið að alltaf, án þess að þurfa að hanga yfir tilboðum, sitja um afsláttarsæti og þurfa kannski 2-3 ferðir til að koma allri fjölskyldunni (svo ekki sé talað um hópa til íþróttaiðkunar eða annað slíkt) til Reykjavíkur?

Það er kannski sárt fyrir marga að sætta sig við þá staðreynd að höfuðborgin er okkur mikilvæg og gott aðgengi að henni líklega enn mikilvægara ef við sem fjærst henni búum ætlum að vaxa sem samfélag og fá fleiri til að velja sér þá staði til búsetu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.