Orkumálinn 2024

Landbúnaður - Hvað er til ráða?

Landbúnaður er mikilvæg grunnstoð fyrir íbúa Austurlands. Rúm 60% rekstrartekna koma frá sauðfé og tæp 40% samanlagt frá kúabúskap og nautgripabúum. Landbúnaður á Íslandi stendur á krossgötum og hefur gert í þó nokkur ár. Neyslubreytingar almennings, aukin alþjóðleg sem og innlend samkeppni, breyttur ríkisstuðningur (minni beinn framleiðslustuðningur) hafa valdið lægri tekjum á framleiðslueiningu hjá bændum.

Á móti hefur vaxandi ferðamannafjöldi, nýsköpun í störfum á landsbyggðinni og stærri bú vegið á móti. Mikill stuðningur landsmanna er við innlenda framleiðslu – enda er hún hágæða vara, hrein og ómenguð. Þá hefur aukin krafa um minna kolefnisfótspor, minni lyfjanotkun, meiri sjálfbærni, meiri hollustu ýtt undir framleiðslu íslenskra bænda. Ljóst er þó að gera þarf betur. Ríkisstjórnin hefur tekið á nokkrum þeim þáttum sem munu ýta undir jákvæða þróun – en nefna má fleiri. Í þessari grein verður tæpt á nokkrum þeirra.

Samstarf afurðastöðva

Í þó nokkur ár hefur það blasað við að litlar afurðastöðvar í kjöti mega sín lítils í alþjóðlegri samkeppni við mun stærri aðila – hvort sem er innanlands eða á erlendum mörkuðum. Því er lífsnauðsynlegt að heimila afurðastöðvunum samstarf – ekki ósvipað og heimilt er í mjólkuriðnaðinum. Nýverið lýsti ríkisstjórnin vilja sínum til að fara þá leið og auka þar með hagkvæmni og skilvirkni í greininni, í yfirlýsingu sinni vegna endurskoðunarákvæðis lífskjarasamninganna. Fyrirmyndir má sækja til mjólkuriðnaðarins eða sjávarútvegs fyrri tíma og samstarfs fyrirtækja undir merkjum SÍS, SÍF og SH svo dæmi séu tekin. Einnig hafa þingmenn Framsóknar lagt fram slíkt mál á liðnum þingum.

Frelsi til heimavinnslu - nýsköpun

Samhliða breytingum hjá afurðastöðvunum er mjög mikilvægt að auka frelsi bóndans til athafna og tengja hann betur markaðsstarfinu. Í því skyni á að heimila örslátrun og minni sláturhús með heimavinnslu. Á bak við slíka lagabreytingu þarf að liggja jákvætt áhættumat sambærilegt við það sem Matvælaöryggisstofnun Þýskalands, með Íslandsvininn Dr. Andreas Hensel í broddi fylkingar, gerði þegar heimiluð var heimaslátrun og nær-markaðssala á lömbum/lambakjöti í Þýskalandi fyrir nokkrum árum. Í kjölfar áhættumats á lambaslátrun ætti að fara í sambærilegt verkefni varðandi ungnautaslátrun með sama markmið, þ.e.a.s. heimila örsláturhús með ungneyti. Það sama er hægt að gera í mjólkurframleiðslunni. Vaxandi áhugi er á að kaupa mjólk beint frá bónda og nútímatækni gerir það kleift að vera með gerilsneyðingu við afgreiðslu.

Einnig þarf að styrkja nýsköpun og markaðsþekkingu hjá hinum almenna bónda. Það er mikill áhugi hjá bændum en einnig almenningi að versla „beint frá býli“. Ríkisstjórnin hefur þess vegna stóraukið fjármagn til nýsköpunar með stofnun Matvælasjóðs. Þar eru tækifæri fyrir framsækið fólk til sveita.

Tollasamningar endurskoðaðir og rannsakaðir

Fyrirkomulag tollverndar er mikilvægur þáttur í starfskjörum bænda. Innan stjórnkerfisins hefur verið unnið að úttekt (sbr. þingsályktun 1678-149, aðgerðaráætlun í 17 liðum, um hrátt kjöt, ofl.). Vinnunni hefur seinkað, átti að vera lokið í desember 2019 en liggur vonandi fyrir von bráðar enda væntanlega ein af forsendum þeirrar stefnumótunnar sem er í gangi.

Í kjölfar tollasamninga við ESB er mikilvægt að fara yfir hvernig eftirliti er háttað með framkvæmd þeirra. Þar undir er útfærsla útboða – tollvernd er til að jafna mun milli innlendrar framleiðslu og erlendar – þess vegna ætti markmið útfærslunnar að vera að vernda innlenda framleiðslu.

Eftirlitið þarf að virka. Þær fréttir berast þessi misserin að þar sé allt í skötulíki. Innflutningsfyrirtækin komist upp með að brjóta tollasamninginn með rangri flokkun á vörum, jafnvel svo árum skipti. Afleiðingin eru undanskot á tollum, jafnvel svo nemur hundruðum milljóna án þess að nokkur eftirlits- og ábyrgðaraðili bregðist við. Það er ekki hægt að sætta sig við að samningar séu brotnir, þannig skekkist samkeppni við bændur, samkeppni milli fyrirtækja sem halda sig innan laga og hinna sem svíkjast um að greiða opinber gjöld og snuða þannig almenning beint. Þetta þarf að rannsaka.

Að auki hefur orðið forsendubrestur eftir að samningurinn komst á. Annars vegar hafa þeir sem fóru fram á að samningar yrðu gerðir, mjólkuriðnaðurinn og „afurðastöðvar í kjöti“, einhverra hluta vegna ekki nýtt tækifærin sem samningurinn skapaði þeim. Hinsvegar hefur Bretland gengið út úr ESB – eða er í þann mund að gera það. Það er því mín skoðun og til skoðunar innan ríkistjórnarinnar að það eigi að segja þessum ESB tollasamningi upp.

Lýðheilsa – matvælaöryggi – sýklalyfjaónæmi

Ein stærsta áskorun samtímans og þar með framtíðarinnar er sjálfbær matvælaframleiðsla sem tryggir annars vegar örugg matvæli og hinsvegar nægjanlegan mat handa sífellt fleira fólki án þess að ganga á auðlindir jarðar. Víða um heim eru framleidd matvæli sem hvorugt standast, þ.e.a.s. eru ágeng í auðlindanýtingu (menga, spilla landi/vatni) og eru menguð/spillt sjálf. Þannig er þauleldi (svín, fuglar, naut) víða þannig að afurðirnar eru salmonellusmitaðar, kamfýlubakteríusmitaðar og í vaxandi mæli með bakteríur sem þola öll venjuleg sýklalyf. Almennt má segja að allur heimurinn glími við þessi vandamál – þó mismikið. Ísland og Noregur skera sig þó úr – staðan í þessum löndum er mjög góð og Svíþjóð og Finnland skammt þar fyrir aftan. Enda er tíðni matarsýkinga hérlendis mjög lág í alþjólegum samanburði og þ.a.l. kostnaður við slík leiðindi lágur hérlendis. Staðan er víða mjög slæm – t.a.m. víða í Asíu, Suður- og Austur-Evrópu og Ameríku. Þannig er talið að um 50 þúsund manns látist árlega vegna sýklalyfjaónæmis bæði í Bandaríkjunum sem og Evrópu. Og um 2050 muni jafnmargir látast vegna sýklalyfjaónæmis og af völdum krabbameins.

Staðan á Íslandi er því eftirsóknarverð með hrein og örugg matvæli, gnægð af hreinu hágæðavatni og loftgæði eins og þau gerast best. Í þessu felast mikil lífsgæði.

Fæðuöryggi

En hvernig tryggjum við öruggan aðgang að innlendum matvælum? Það þarf augljóslega að grípa til í það minnsta þeirra aðgerða sem nefndar hafa verið til þess að bæta afkomu bænda. Svo höfum við val. Ríkisstjórnin styður við frumkvæði um að velja íslenskt. Átakið – láttu það ganga – er gott og gilt, styður við innlenda framleiðslu og skapar störf. Regluverkið um upprunamerkingar þarf að vera skýrara. Að einhverju leyti er framtíð landbúnaðar í höndum hvers og eins. Ef við viljum fá öruggan, ómengaðan og hollan mat á borðið – fyrir börnin okkar og foreldra sem og okkur sjálf – þá eigum við að geta gert kröfu í versluninni, á veitingastaðnum og mötuneytinu um upprunamerkingar. Við höfum val. Íslenskt - já takk.

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.