Kjötneysla og umhverfi

Á Alþingi var í síðustu viku var umræða um landbúnað. Af henni mátti greina átakalínurnar. Af þeim sökum datt mér í hug að setjast niður og skrifa nokkur orð um umhverfi og landbúnað, sérstaklega hvort að kjötneysla sé allt að drepa.

Árið 2006 var gefin út skýrsla sem hefur dregið dilk á eftir sér. En í skýrslu Alþjóða matvælastofnunarinnar (FAO), „Livestock‘s long shadow“ er því haldið fram að 18% af útblæstri gróðurhúsaloftegunda sé vegna búfénaðs. Þessar niðurstöður hafa verið túlkaðar sem svo að búfénaður, kýr, kindur, geitur og svo framvegis voru að skilja eftir sig stærra kolefnisfótspor heldur en allar samgöngur samanlagðar. Allar þoturnar, bílarnir, lestirnar og flutningaskipin.

Þessi túlkun niðurstaðanna er röng og höfundur skýrslunnar hefur leiðrétt þetta. Ástæðan eru þær að í skýrslunni voru bornar saman epli og appelsínur. Svokölluð lífsferilsgreining (e. Life-Cycle Assessment) var notuð fyrir búpening en slík greining var ekki gerð fyrir samgöngur. Lífsferilsgreining leitast við að leggja mat á hversu mikið heildar kolefnisspor er af öllu lífshlaupi gripsins. Slík greining er einfaldlega ekki til fyrir samgöngur. FAO hefur viðurkennt að um misvísandi samanburð var að ræða.

Hvað gerist þegar við berum saman epli og appelsínur?

Þegar gerð er lífsferilsgreining á nautgripum þýðir það að rannsakendur telja saman allt það kolefni sem er losað við að búa til áburð, ræktarland, afla fóður og flytja fóður, áburð, afurðina og svo framvegis. Þessar niðurstöður voru svo bornar saman við einfalda útreikninga á útblæstri frá samgöngum. Ef appelsínur og appelsínur hefðu verið bornar saman þá hefði maður gert samanburð við lífsferilsgreiningu á samgöngum þar sem talið væri saman saman kolefnið sem losnar við að búa til vegi, viðhalda þeim, afla hráefna til að búa til bíla, flugvélar og skip, flytja hráefnin að verksmiðjunum og svo framvegis.

FAO tók þetta til sín um leið og þeim var bent á það. Þó að það sé að verða áratugur síðan þetta var leiðrétt virðist vera býsna stór hluti fólks sem telur að kjötneysla sé það sem sé að eyðileggja loftslag jarðarinnar. Og telur jafnvel að það sé heppilegra fyrir umhverfið að borða sojabaunir frá Brasilíu heldur en að borða íslenskar landbúnaðarafurðir, kjöt og mjólk.

Byggjum ályktanir á mælanlegum stikum

Í svona greinarstúf er ekki mögulegt að fara í yfirferð á vísindalegum rannsóknum. En í örstuttu máli má segja að rannsakendur séu sammála um að landbúnaður hefur áhrif á losun gróðurhúsaloftegunda, en enn er deilt um hversu mikil sú áhrif eru.

Það er hinsvegar hlutir sem eru óumdeilanlegir og eru mælanlegir, ólíkt lífsferilsgreiningu sem er í eðli sínu spá sem byggir á líkani. Gæði líkansins eru háðar byggingareiningunum, sem geta verið jafn misjafnar og hús grísanna sem gerð voru úr stráum, spýtum, og múrsteinum. Mælanlegu þættirnir eru áhrif rannsókna, kynbóta og tækni á framleiðni landbúnaðar.

Eitt stærsta umhverfisspor jórturdýra er útblástur af metani sem verður til í vömb þeirra við niðurbrot á trénisríku fæði. Vísindin eru á góðri leið með að koma með tæknilega lausn á þessu vandamáli. Á næstu tíu árum er ekki ólíklegt að verulega verði hægt að draga úr losun metans úr vömb kúa. Til dæmis með lofar 3-nitroxyprópanól (3NOP) góðu. En með því að bæta því í litlu magni (mg/kg fóðurs) í fóður gripa þá hindrar 3NOP methýl kóensím-M reduktasa í einu lokaskrefinu af nýmyndun metans í vömb. Um þetta efni hefur verið skrifað talsvert í vísindarit á sviði nautgriparæktar og það hefur verið í prófun í nokkur ár. Vonir standa til að það verði komið á markað innan fárra ára.

Hagkvæmni í þjónustu loftslagsins

Þá hefur framleiðni aukist, þ.e.a.s. aðföng sem notuð eru á hvert kg afurða lækkað í öllum landbúnaðargreinum um allan heim á slíkum hraða að annað eins hefur aldrei gerst í mannkynssögunni. Kýr á Íslandi, sem eru fjarri því að vera afurðamestu gripir í heimi framleiða u.þ.b. 20 lítra af mjólk á dag. Kýr á Indland framleiða 5 lítra. Ef kýrnar á Indlandi væru með eins góða framleiðni og íslenskar kýrmætti fækka nautgripum á Indlandi um 75% og þar með draga úr losun metans. Með því að nýta þekkingu til a bæta framleiðni væri hægt að minnka loftlagsáhrifin á nautgriparækt.

Metanframleiðsla á hvert kíló af mjólk hefur hrunið sem er sá mælikvarði sem við hljótum að hafa mestan áhuga á því að lækka. Þetta þýðir að umhverfisfótspor hverrar mjólkurfernu hefur lækkað hratt síðustu áratugina og mun gera það áfram. Með tilkomu 3NOP gæti sú framþróun margfaldast.

Við eigum að styðja við innlendan landbúnað, nýsköpun í landbúnaði og vísindi tengd landbúnaði. Þannig tryggjum við fæðu, matvælaöryggi og lækkum vistspor þess matar sem við neytum. Þetta finnst mér að bændur og stjórnvöld eigi að hafa í huga við endurskoðun búvörusamninga.

kari gauta1


kari gauta2Mynd1: Samanburður á aðferðum í útreikningum FAO.


Mynd2: Þróun í bandarískri nautgriparækt síðustu 60 ár.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.