Orkumálinn 2024

Kjörið tækifæri Kristjáns Þórs

Í kjölfar Samherjamálsins hafa komið fram vangaveltur um hæfi sjávarútvegsráðherra til að sinna embætti sínu. Þá má telja líklegt að andstöðu muni gæta við nýja reglugerð um grásleppuveiðar og þá ekki síst hjá smærri útgerðum. Raunar virðist sumum sú reglugerð vera sett fram með það að markmiði að eyðileggja núverandi kerfi svo menn muni taka kvótasetningu hrognkelsis fegins hendi þegar þar að kemur en þar má ljóst þykja að vilji ráðherra liggur. Að þessu sögðu má líka ljóst vera að ráðherra stendur frammi fyrir erfiðri áskorun að sanna fyrir almenningi að þar fari ekki handbendi stórútgerðarinnar. Á Borgarfirði eystri leynist stórgott tækifæri fyrir ráðherra til að gera einmitt það.

Smá formáli

Borgarfjörður eystri er brothætt byggð og tekur þátt í því verkefni undir hatti Byggðastofnunar. Þar er smábátaútgerð ein mikilvægasta atvinnugreinin. Þaðan eru gerðir út nokkrir bátar allt árið um kring en fiskisæld er þó nokkuð árstíðabundin, minnst yfir hávetur en mest síðsumars og fram á haust. Á sumrin koma margir aðkomubátar á Borgarfjörð til að stunda strandveiðar og sumir ílengjast fram á haust þó að strandveiðitímabilið klárist, enda handfæraveiðar þá með besta móti og stutt á miðin.

Nokkrar staðreyndir til hliðsjónar

Fyrst ber að taka fram að í gildi eru lög um fiskveiðilandhelgi Íslands. Þar er hin almenna regla að togarar mega ekki stunda togveiðar innan 12 mílna frá landi. Á því eru þó nokkrar undantekningar og á nokkrum stöðum á landinu eru svæði þar sem togarar mega stunda veiðar allt að 6 mílur frá landi. Eitt slíkt svæði nær frá Glettinganesi og norður á Font á Langanesi og er kallað „Skápurinn“. Innan Skápsins eru þau mið sem bátar á Borgarfirði sækja stífast. Ástæðan fyrir tilurð Skápsins er einna helst sú að Vopnfirðingar gerðu lengi vel út lítinn togara sem bar nafnið Eyvindur Vopni. Því var þessu svæði haldið opnu fyrir togveiðar svo auðveldara væri að gera út togara þaðan. Þróun mála hefur orðið sú að að minnsta kosti þrisvar til fjórum sinnum öflugri togarar sækja nú heimamið Borgfirðinga stíft. Það er orðinn árlegur viðburður að í byrjun hvers kvótaárs (1. september) fyllist suðurhluti skápsins af togurum. Þetta er, svo höfundur viti til, eina svæðið á landinu þar sem togarar mega veiða svo grunnt á hörðum botni allt árið.

Hvert er vandamálið?

Þegar togari hefur farið yfir verður í besta falli erfitt, en í raun nánast ómögulegt, fyrir minni báta að gera út á handfæri eða línu á því svæði sem hann hefur verið á. Síðastliðið haust voru sjómenn ítrekað með undir 100 kg afla í handfæraróðrum þegar fiskisæld átti að vera með besta móti. Ástandið hefur verið þannig undanfarin haust að smábátarnir hafa þurft að sigla allt að 40 mílur út fyrir togarana til að finna fengsæl fiskimið. Stór hluti báta á Borgarfirði eru hæggengir sökum nándar við miðin en heimamiðin hafa verið þurrkuð upp. Ekki er að sjá af löndunum þessara togara að verið sé að ná sérstaklega öðrum afla en þorski. Ástandið er verst í september-október en togararnir sjást svo reglulega hér alveg fram í janúar. Hins vegar er ekkert sem kemur í veg fyrir að þeir mæti í júlí – ágúst og þá yrði erfitt að réttlæta útgerð á strandveiðibátum á svæðinu. Að auki berast fréttir af nýsmíði báta hjá stórútgerðum sem verða hannaðir þannig að þeir megi herja á þetta svæði. Af því hafa útgerðarmenn á Borgarfirði þungar áhyggjur.

Hvað þarf að gera?

Sveitarstjórn Borgarfjarðarhrepps fékk fund með sjávarútvegsráðherra í haust þar sem farið var yfir þetta mál. Úrlausnin er flókin þar sem hún þarfnast lagabreytinga en felst í því að minnka skápinn um 10–15% í suðurenda hans þ.e. banna togveiðar innan 12 mílna frá Glettinganesi norður á Héraðsflóa. Tímabundin lokun ár hvert frá júlíbyrjun til desemberloka væri fullnægjandi. Að gera það skiptir togarana litlu sem engu máli en smábátaútgerðina á Borgarfirði öllu máli. Þetta mál er ógn við trilluútgerð í brothættri byggð og spyr undirritaður hvort það hafi virkilega ekkert vægi í sjávarútvegsráðuneytinu? Ráðherra óskaði eftir að við sendum þau gögn sem honum voru sýnd á fundinum til ráðuneytisins og var það gert í haust. Þar á meðal var tillaga að þeirri breytingu sem gera þarf á lögum nr. 79/1997 um fiskiveiðar í landhelgi Íslands, nákvæmlega útlistuð með myndum og hnitum. Þó ber að geta að þessu svæði hefur áður verið lokað fyrir togveiðum með reglugerð sem er tiltölulega einfaldari aðgerð en lagabreyting.

En af hverju?

Af þeim íbúum Borgarfjarðar sem hafa þar heilsársbúsetu starfa langtum flestir við störf tengd sjávarútvegi. Fyrir utan sjómenn sem sækja fiskinn er stærsti vinnuveitandi staðarins fiskverkun. Þegar heimamiðin eru þurrkuð upp og aflanum landað víðs fjarri hefur það djúpstæð áhrif á kjarnaatvinnugrein staðarins. Fyrir utan þau augljósu byggðasjónarmið að koma til móts við kjarnaatvinnugrein í brothættri byggð þá á ekki síður að fara í þessa lagabreytingu af umhverfissjónarmiðum. Smábátaveiðar eru umhverfisvænni en togveiðar bæði er varðar olíueyðslu sem og rask á sjávarbotni. Þessi lokun væri hins vegar ekki á óskalista stórútgerðarinnar. Stjórnar hún sjávarútvegsráðuneytinu? Ég skora á Kristján Þór að aðhafast í þessu máli og sanna þannig að svo sé ekki.

Höfundur er hreppsnefnfdarmaður Borgarfjarðarhrepps og fyrrum smábátaskipsstjóri

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.