Jim Ratcliffe - úlfur í götóttri sauðargæru

Ég verð að segja að ég er mjög sleginn yfir viðtali við Jim nokkurn Ratcliffe í Kastljósi um daginn. Þar lýsir nýbakaður stórjarðeigandinn því yfir þvílíkur náttúruunnandi hann sé , og jafnframt því að ósnortið land hafi sífellt meira gildi fyrir mannkynið, þar sem það sé sífellt að minnka. Þá er og yfirlýstur tilgangur hans með jarðakaupunum að vernda laxastofna á svæðinu. Gott og vel. Það var hinsvegar yfirlýsing hans um að byggja laxastiga í Hofsá, sem varð til að kjötbitinn hrökk öfugur ofan í mig.


Ég sé ekki hvernig hægt er að hrífast af ósnortnu landi, en ætla sér svo að eyðileggja það. Bygging laxastiga í Hofsárfossi er ekki gerleg nema með stórkostlegum óafturkræfum umhverfisspjöllum. Mér vitanlega er fossinn í Hofsá hinn eini í allri ánni. Hann er einstök náttúruperla sem og allt hans umhverfi. Fellur sjálfsagt 12-15 m hár niður þröngt gil sem er litríkt og með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðri. Þar að auki stendur fornbýlið Foss nánast á brún fossins. Afar tilkomumikið bæjarstæði. Því miður þekkja of fáir þennan dal og fegurð hans. Þennan dal og ána, ætti í raun að friðlýsa.

Kæru vinir mínir á Vopnafirði. Ekki falla fyrir fagurgala þessa manns um að þessi aðgerð sé nauðsynleg fyrir verndun laxins. Ef Hofsárlaxinn og aðrir stofnar lax þurfa vernd, þá ættu Ratcliffe og félagar að berjast gegn stórfelldum áformum um laxeldi hér við land. Þarna býr ekkert að baki annað en gróðahugsun. Raunveruleg áform um verndun væri miklu frekar að fara með hrygningarfisk upp fyrir foss, eins og gert hefur verið , og leyfa aldrei veiðar þar né nokkurt ónauðsynlegt umhverfisrask.

Reynslan úr Sunnudalsá sýnir að jafnvel frekar „litlir“ laxastigar valda ómældu umhverfisraski og eyðileggingu á veiðistöðum og umhverfi þeirra. Sú framkvæmd er ekkert annað en umhverfisslys.

Vonandi ber stjórn Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár, landeigendur, sveitarstjórn Vopnafjarðar og aðrir aðilar er málið varða, gæfu til að samþykkja aldrei byggingu laxastiga í Hofsá. Ég er ekki Sigríður í Brattholti. En ég skal vera Þórður á Selásnum sem barðist gegn byggingu laxastiga í Hofsá.

Höfundur er fyrrverandi veiðivörður og leiðsögumaður við Hofsá

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.