Jarðgöngin koma í röðum

Nýlega birtist frétt í Vísi undir fyrirsögninni „Jarðgöngin koma í röðum.“ Þar er fjallað um jarðgangagerð hjá frændum okkar Færeyingum. Í fréttinni kemur fram að skipulega er unnið að því að tengja byggðir saman með jarðgöngum, í gegnum fjöll og með neðansjávargöngum. Nýjustu göngin tengjast 80 manna byggð við þjóðvegakerfið.

Stefna Færeyinga í byggðamálum er athyglisverð að því leyti að gert er ráð fyrir heilsárs samgöngum milli byggðakjarna. Það má reyndar segja það sama um Sunnlendinga, sem virðast hafa áttað sig á því að góðar samgöngur allan ársins hringinn eru nauðsynlegar til að byggja upp samfélög. Á flatlendinu á Suðurlandi er gert ráð fyrir því á skipulagi að jarðgöng verði undir Reynisfjall við Vík í Mýrdal, en Reynisfjall er um 119 metrar á hæð.

Hvað með okkar sýn á framtíðina:

Til þess að byggja upp samfélög þarf samgöngur. Uppbyggður vegur í um 530 metra hæð yfir Öxi sem oftar en ekki er lokaður vegna snjóa allt að fimm mánuði á ári, getur varla talist mikill samgöngubót. Slíkur vegur er ekki til þess gerður að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu samfélaga á svæðinu og þjónustu sem henni fylgir. Meiri líkur eru til þess að íbúar og fyrirtæki á svæðinu sem búa við slíkar samgöngur leiti á önnur mið með aðgang að þjónustu.

Sem dæmi má nefna flutning afurða frá suðurfjörðum Austfjarða, sem nýta sér til dæmis Seyðisfjarðarhöfn, sem útflutnings höfn. Að sögn rekstraraðila flutningabíla fara stórir fulllestaðir flutningabílar ekki um Öxi, þó svo að vegurinn verði uppbyggður með slitlagi. Tafir á varanlegum samgöngubótum innan svæðisins geta því haft áhrif á fleiri þætti má þar nefna uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar. Afleiðingarnar geta því orðið þær að útflytjendur afurða af svæðinu verða tilneyddir til að velja aðrar leiðir til að koma vörum sinni á markað.

Jarðgöng framtíðin:

Í skýrslu sem unnin var af Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri árið 2005 „Jarðgöng á Austurlandi.“ Mat á samfélagsáhrifum og arðsemi er gerð góð grein fyrir þeim kostum sem eru í jarðgangagerð á Austurlandi. Einn af þeim kostum sem lítið hefur verið ræddur eru samgöngubætur milli Skriðdals og Berufjarðar um Breiðdal með jarðgöngum. Um er að ræða jarðgöng 3,6 km. löng frá Skriðdal í Breiðdal og jarðgöng 4,7 km löng frá Breiðdal í Berufjörð.

Stór skref hafa verið tekin:

Stór skref hafa verið tekin í eflingu sveitarstjórnarstigsins á Austurlandi með sameiningu sveitarfélaga meðal annars undir merki Múlaþings. Núverandi stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á eflingu sveitarstjórnarstigsins með sameiningu sveitarfélaga. Það hlýtur því að vera krafa íbúanna sem fylgt hafa vilja stjórnvalda, að stjórnvöld komi samhliða að uppbyggingu innviða. Til þess að ná markmiðum með sameiningu landfræðilegra stórra sveitarfélaga þarf samgöngukerfið innan þeirra að vera þannig uppbyggt að það þjóni íbúum á heilsársgrundvelli. Sveitarfélagið Múlaþing getur vart sinn skyldum sínum við íbúanna nema komið verði á heilsárs samgöngum innan þess. Þrátt fyrir kosti Teams kemur sá samskiptamáti ekki í stað góðra samgangna.

Djúpavogi í október 2021
Ólafur Áki Ragnarsson

jardgong berufjordur bdalur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.