Jarðakaup erlendra aðila

Stjórnmálamenn hafa á undanförnum vikum og mánuðum lýst miklum áhyggjum af jarðakaupum erlendra aðila. Sérstaklega hafa augu þeirra beinst að jarðakaupum efnamanna á Norðausturlandi. En hvers vegna skyldi staðan vera sú að menn kjósi að selja frá sér jarðir í stað þess að nýta þær til búskapar og framfærslu fyrir sig og fjölskyldu sína. Það virðist vera erfitt að reka sauðfjárbú. Reksturinn kallar á mikla vinnu, lélegt afurðaverð og þar með laka afkomu.

Verð á jörðum hefur fylgt afkomunni, verið mjög lágt og erfið söluvara. Því hafa þær oftar en ekki dagað upp hjá fjölskyldum og ættingjum sem ákveðin byrði á þeim. Um nokkurt skeið hafa erlendir aðilar fengið augastað á jörðum, þá aðallega þeim jörðum sem hlunnindi fylgja. Verð á landi hefur hækkað og landeigendur sem áður sátu fastir á óseljanlegri jörð fá nú loksins viðunandi verð fyrir ævistarfið.

Þá rísa þingmenn upp og sjálfskipaðir ráðgjafar úr 101 spretta fram á sjónarsviðið, þegar fólk utan Elliðaár fer jafnvel að græða peninga. Fjölmiðlarnir dansa með og niðurstaðan er að þetta verði að stoppa. Upp koma hugmyndir um að banna verði útlendingum að kaupa jarðir. Sett verði í lög að ríki eða sveitarfélög hafi forkaupsrétt að jörðum. Slíkt hefur verið við lýði áður, sem hafði þau áhrif að jarðarverð var í lágmarki. Auk þess var forkaupsrétturinn oftar en ekki nýttur til að koma jörðum í hendur hinna útvöldu.

Á sama tíma og þessi umræða stendur sem hæst kaupir fjárfestir frá Malasíu 75% í einni stærstu hótelkeðju Íslands. Þá er erlend hótelkeðja að byggja hótel á einni dýrustu lóð landsins í miðbæ Reykjavíkur. Engar athugasemdir koma frá þingmönnum um þessi viðskipti, eða öðrum sem hafa varað við jarðakaupum erlendra aðila. Ferðamannaiðnaðurinn er þó stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Þá er ég ekki að segja að aðkoma erlendra aðila að ferðamannaiðnaðinum sé neikvæð fyrir okkar land. Heldur sé ég ekki í fljótu bragði muninn á þessu tvennu, þ.e.a.s. kaupum á jörðum eða atvinnufyrirtækjum.

Í stað lagasetningar um bann erlendra aðila á jarðakaupum, mætti að mínu mati skoða aðrar leiðir til að styrkja við landbúnað. Jarðakaup ein og sér vernda ekki Norður-Atlantshafslaxinn. Eðlilegt framhald slíkrar fjárfestingar, væri uppbygging rannsóknar og fræðaseturs á því svæði sem árnar renna um. Þar gæfist almenningi kostur á fræðslu um mikilvægi verndunar laxastofnsins.

Þá eru laxveiðiár auðlind sem leggja mætti á auðlegðarskatt líkt og í sjávarútvegi. Jarðir eru keyptar fyrir háar upphæðir, en fasteignamat þeirra er lágt og ekkert í samræmi við kaupverðið. Breyta mætti lögum þannig að fasteignagjöld væru reiknuð út frá kaupverði, slíkt mundi skila sveitarfélögum töluvert hærri tekjum af viðkomandi jörðum. Nýta mætti tekjur sem kæmu af auðlegðarskatti til að styrkja ungt fólk til að hefja búskap á svæðum þar sem samdráttur í landbúnaði er mestur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.