Jafnvægi í skammdeginu

Það er hlýtt inni í stofu og ég er búin að kveikja á tveimur lömpum og nokkrum kertum. Mér er samt kalt og myrkrið, sem er það eina sem sést út um alla glugga, liggur eins og þyngingarsæng á augnlokunum á mér. Kaffi er hætt að virka og farið að hafa öfug áhrif, einn blundur fyrir hvern bolla.

Ég sem ætlaði að nýta vetrarmánuðina í að mæta í ræktina fimm sinnum í viku, fara í göngutúra, lesa bækur, prjóna föt og byrja snemma að þrífa fyrir jólin. Ég ætlaði að vera á undan áætlun í náminu, taka að mér hlutavinnu, skipuleggja vinkonuhittinga, láta sjá mig niðri í bæ, vera hress, vera til staðar, vera sýnileg. Ætlaði, ætlaði, ætlaði, en get ekki.

Þessi neikvæðnismantra rennur í gegnum hausinn á mér og hljómar þar eins og talandi skammarbréfin í Harry Potter. Ég myndi svara fyrir mig og láta bréfið heyra það, en það talar í minni eigin röddu svo það væri til lítils.

Skammdegisþunglyndi er árstíðarbundin andleg vanlíðan sem leggst yfir hluta þjóðarinnar þegar daga fer að stytta. Oft fylgir orkuleysi, röskun á svefni, vonleysi og þörf til að einangra sig. Á þessum árstíma er mikilvægt að fylgjast með þessum einkennum og áhrifum þeirra á daglegt líf. Jafnvægi í daglegu lífi er vanmetin kúnst og oft þarf lítið til að raska því. Í iðjuþjálfunarfræðum lærum við að jafnvægi í daglegu lífi næst þegar jafnvægi er á milli þess sem við verðum að gera (eigin umsjá, störf, skyldur) og þess sem okkur langar að gera. En grundvallaratriðið er að við gerum það skiptir okkur mál.

Ef þú ert í sömu sporum og ég og þarft að finna þitt jafnvægi aftur er hægt að byrja á spyrja sig; Hvað er það sem ég þarf að gera? Hvað er mér mikilvægt? Þegar orkan er lítil og viljinn enn minni er mikilvægt að sigta út það sem skiptir mestu máli, nota orkuna sína í það – og gefa sér svo smá breik. Setja sér lítil markmið, hrósa sjálfum sér fyrir litlu skrefin í rétta átt, fyrirgefa sér fyrir að vera ekki 100% til staðar. Jafnvægi er huglægt og getum við sjálf skilgreint hvað það þýðir í okkar lífi. Hættum að setja á okkur háar kröfur á erfiðum tíma, hættum að miða okkur við aðra og hættum að brjóta okkur niður.

Þennan veturinn ætla ég að geyma skammarbréfið. Ég ætla hins vegar að skrifa langt þakkar- og kærleiksbréf og bera það með mér. Allavega þar til fer að vora.

Höfundur er nemi á 4.ári í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.