Í tilefni af Degi leikskólans

Við sem erum foreldrar þekkjum öll hvað það eru mikil tímamót þegar barnið byrjar í leikskóla. Hér á Egilsstöðum komast börnin frekar ung inn á leikskóla og stór hluti þeirra hefur því ekki verið áður hjá dagmömmu. Þá verða tímamótin enn meiri. Allt í einu þarf að treysta ótengdu fólki fyrir umönnun þess dýrmætasta sem maður á – jafnvel stærstan hluta af vökutíma barnsins, fimm daga í viku! Svona þegar málið er hugsað til enda, þá finnum við foreldrarnir sennilega hvergi ríkari hagsmuni en einmitt að leikskólastarfið sé vel unnið.

Og þess vegna er ástæða til að staldra við akkúrat í dag – á Degi leikskólans, 6. febrúar. Í daglegri umræðu er venjan oft að horfa frekar til þess sem er neikvætt og gagnrýnivert í okkar samfélagi. En í dag langar okkur, sem sitjum í stjórn foreldrafélagsins í leikskóla barnanna okkar, til að þakka fyrir og hrósa starfinu í leikskólanum.

Krílin okkar eru nemendur í leikskólanum Tjarnarskógi á Egilsstöðum. Þau eru svo heppin að í leikskólanum þeirra vinnur afar hæft starfsfólk, sem áttar sig manna best á að vellíðan og þroski barnanna er það sem öllu skiptir í leikskólanum.

Börnin okkar eru þess vegna ekki bara sett „í geymslu“ yfir daginn á meðan foreldrarnir eru bundnir í vinnunni. Þau eru í leikskóla þar sem þau fá athygli og umönnun, aðstoð og örvun til sjálfshjálpar í athöfnum daglegs lífs, verkefni við hæfi til að læra og þroskast, aðstæður til að tengjast jafnöldrum og æfa sig í að vera félagi, útivist og hreyfingu, sögur og söngva...

Börnin okkar búa líka við það lán að tiltölulega margir menntaðir leikskólakennarar og aðrir háskólagengnir starfsmenn annist nám þeirra og umönnun yfir leikskóladaginn, auk frábærs hóps af öðru starfsfólki með hjartað og heilann á réttum stað. Sumir í þeim hópi hafa jafnvel áratuga reynslu í sínu starfi, enda er starfsmannaveltan ótrúlega lítil.

Ekki má gleyma að börnin okkar fá góðan og næringarríkan mat á hverjum degi: heitan mat í hádeginu og aðrar máltíðir frá morgni til síðdegis eftir vistunartíma þeirra. Lögð er áhersla á að þau fái þá hvíld sem þau þurfa. Leikskóladagurinn þeirra, umgjörð hans og umhverfið í skólanum; allt er þetta úthugsað með það að markmiði að börnunum líði vel og þau þroskist á alla vegu – t.d. í máli, hreyfigetu og félagsfærni. Og þegar þau eldast og stækka eru þau í leikskólanum smám saman búin undir að takast á við að byrja í grunnskóla, bæði með því að bjarga sér sjálf með æ fleiri atriði dagsins og með því að hugað er að undirbúningi t.d. lestrar- og stærðfræðináms.

Leikskólanum er auðvitað aldrei ætlað að koma í staðinn fyrir foreldrana. Við sem vorum svo lánsöm að eignast börnin fáum líka það hlutverk að sinna þeim, ala þau upp og reyna að hjálpa þeim til þroska á allan máta. En leikskóli barnanna er bakhjarlinn okkar og samstarfsmaður í því hlutverki. Þess vegna ættu eiginlega allir dagar að vera Dagar leikskólans hjá okkur ...

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.