Í átt að fjölmenningarsamfélagi

Kæri íbúi!

Jóna Árný Þórðardóttir heiti ég og vinn hjá Austurbrú. Við vinnum að hagsmunamálum allra íbúa Austurlands og veitum þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu.

Ég er fædd og uppalin á Norðfirði, ólst upp í sveit, er heimakær fram úr hófi og eftir nokkur ár í burtu í kringum tvítugsaldurinn sneri ég aftur heim á Skorrastað í Norðfjarðarsveit og hef ekki í hyggju að fara í bráð.

En ég flutti sumsé um tíma af landi brott. Settist að á Englandi í eitt ár ásamt manni mínum og eins árs gamalli dóttur. Þrátt fyrir að landið sé að mörgu leyti kunnuglegt á svo margan hátt kynntist ég því af eigin raun hvernig það er að setjast að í öðru landi og hvernig ég þurfti að aðlagast öðru samfélagi, annarri menningu og öðrum siðum. Þessu fylgdi rótleysi, tengslanetið raskaðist og ýmis leikni og færni, t.a.m. í samskiptum við stofnanir samfélagsins og annað fólk, takmarkaðist þegar ég gat ekki tjáð mig á móðurmáli mínu né tekið við upplýsingum á því. Ég var ekki eins góð í ensku og ég taldi mig vera og þaðan af síður fulllæs á enska menningu. Þetta hafði því talsverð áhrif á líf mitt. Einföld mál, eins og að sækja um opinbera þjónustu af einhverju tagi, urðu flókin, tímafrek og já, hreint og beint leiðinleg.

En vissulega naut ég talsverðra forréttinda. Ég þurfti ekki að setjast að á Englandi. Ég var ekki að flýja neyð af neinu tagi. Þetta var ævintýri.

Ég veit að það nýtur ekki allt fólk af erlendum uppruna á Austurlandi slíkra forréttinda. Fólk er í leit að betra lífi, að vinnu, að öryggi og að tryggri framtíð. Ég segi aðeins frá minni reynslu því ég tel mig, að mjög takmörkuðu leyti, skilja aðstæður fólks af erlendum uppruna sem búsett er hér á Austurlandi. Það er nefnilega krefjandi að vera útlendingur á Íslandi. Tungumálið er okkur dýrmætt, það er hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóðar og íslenskan er eitt af okkar grunngildum. Við ætlumst til að fólk geti tjáð sig á þessari tungu og það segir sig því eiginlega sjálft að þetta er ein stærsta hindrunin þegar kemur að aðlögun fólks sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Því við skulum bara segja það eins og er: Íslenska er erfitt tungumál. Svo erfitt að það reynist jafnvel innfæddum erfitt að læra hana.

En ég trúi því jafnframt að tímarnir séu breyttir og muni breytast mikið á næstu árum. Auðvitað er mikilvægt fyrir Ísland að viðhalda venjum, hefðum og siðum en samfélagið og menningin mun taka breytingum hvað svo sem okkur finnst um þær. Það skiptir eiginlega ekki máli. Við lifum í heimi sem verður sífellt tengdari innbyrðis, Íslendingar sinna störfum þar sem enska er vinnutungumálið, við verðum fyrir allskonar áhrifum erlendis frá og það mun einungis aukast á næstu árum. Við erum að verða að fjölmenningarlegu samfélagi. Hratt.

Að mínu viti er ekki boðlegt að hafna slíkri þróun eða berjast gegn henni eins og sumir gera. Það er engin góð ástæða til þess því ávinningurinn af fjölmenningu er samfélag fjölbreytni, víðsýni og umburðarlyndis. Í þannig samfélagi líður fólki vel. Og þegar fólki líður vel lætur það að sér kveða og þannig getur fjölmenning leitt til þróunar og framfara á öllum sviðum tilverunnar.

Í mínum huga er fjölmenningarlegt samfélag verðugt markmið fyrir Austfirðinga og það er á ábyrgð okkar allra að vel takist.

Nýjasta tölublað Austurgluggans er samstarfsverkefni Austurbrúar og Útgáfufélags Austurlands og blaðið er tileinkað fólki er erlendum uppruna á Austurlandi. Það er gefið út á ensku og þannig vonumst við til að ná til flestra lesenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Greinarnar eru birtar á íslensku á Austurfrétt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.