Hvers vegna við erum þakklát fyrir Ísland?

Fyrir nokkrum vikum var vinsælasta greinin í norskum fjölmiðlum pistill eftir Per Fugelli. Eflaust kannast fáir Íslendingar við Fugelli en hann er nógu þekktur til að finna með hjálp Hr. Google. Hann er læknir og vinsæll álitsgjafi í Noregi, meðal annars þekktur fyrir að gagnrýna þá sem harðast hafa gengið fram gegn reykingum fyrir forsjárhyggju.

Per lá fyrir dauðaum þegar hann skrifaði pistilinn og lést innan við mánuði síðar, 74 ára að aldri, og er grein hans þakkarkveðja til norsks samfélags. „Það er auðveldara að deyja þegar þú veist að konan þín, börnin og barnabörnin lifa áfram í velferðarríkinu Noregi,“ skrifar hann í upphafi greinarinnar í Aftenposten.

Velferðarkerfið ekki náttúrulögmál

Per heldur áfram þaðan og veltir því upp hví hann hafi lifað jafn góðu lífi og raun ber vitni. Genin, fjölskyldan, eigin viljastyrkur en fyrst og fremst norskt samfélag. Þar þakkar hann fyrirbæri sem sjaldan fær þakkir í dag fyrir - nefnilega stjórnmálaflokkunum. Per bendir á að það hafi þurft pólitískan vilja til að byggja upp velferðarkerfið, það hafi ekki verið afhent norsku þjóðinni á silfurfati. Útkoman sé ríki sem skapi og útdeili tækifærum til góðs lífs, heilsu og menntunar til allra þegna, nær óháð efnahag, kyni eða sjálfsáliti.

Per veltir upp þeim gildum sem hafi skipt mestu máli í norsku samfélagi og telur þar til sanngirni, traust og frelsi. Traust ríki þegar fólk vilji hvert öðru vel eins og reyndin hafi verið í Noregi. Landið sé öruggt, ofbeldi fátítt og lögreglan alla jafna indæl. Sanngirni ríki í skiptingu gæða en eins verði að ríkja frelsi til að einstaklingurinn geti elt drauma sína og fundið sér tilgang í samfélaginu.

Niðurstaða Per er að Noregur sé besta ríkið til að lifa í – og deyja – því hann viti að haldið verði vel utan um afkomendur hans.

Greininni lýkur Per á æfingu til lesenda, biður þá að hugsa út í hvernig væri að deyja í landi frá sínum nánustu þar sem einungis hinir ríku fái menntun og heilbrigðisþjónustu? Þar sem hatrið ráði ríkjum, þar sem fólk einangrist í glæsihverfum eða gettóum? Þar sem trúar- eða stjórnmálaskoðanir ráði hvernig lífið verður?

Aftenposten fylgdi grein Fugelli eftir með því að leita álits á hvað fólk teldi mikilvægustu gildin í norsku samfélagi. Nafntogaðir álitsgjafar ýmist taka undir með Per, bæta við gildum eða koma með sína eigin útfærslu.

Við höfum almennt valið vel

Og af hverju skipta hugleiðingar deyjandi Norðmanns Austfirðinga eða Íslendinga máli? Grein hans er í fyrsta lagi rýni á norskt samfélag, sem á margan hátt er líkt því íslenska að uppbyggingu. Bæði ríkin skora ofarlega á flestum listum þegar borin eru saman lífskjör.

Það er eðlilegt að hafa þann metnað að vilja stöðugt bæta umhverfi sitt. Til þess þarf að benda á það sem betur mætti fara. Annað slagið er hins vegar nauðsynlegt að minnast þess hve vel við búum og rifja upp hversu miklar framfarir hafa orðið á undanförnum áratugum. Þær framfarir urðu ekki til af sjálfu sér, síður en svo alltaf átakalaust og ekki á heldur neinn einn heiðurinn af þeim. Við hefðum getað byggt okkur öðruvísi upp heldur en við höfum kosið að gera. Fleiri þjóðir eru ríkar af náttúruauðlindum, eins og við, en án þess að þar ríki almenn velsæld og lífshamingja.

Íslendingar hafa þann metnað að bera sig reglulega saman við hin Norðurlöndin, sem svo oft eru efst á lífskjaralistanum. Það er eðlilegt í viðleitninni að bæta samfélagið enn frekar og læra af því sem vel er gert annars staðar.

Það er líka þess virði að fara yfir hvaða gildi hafa skipt okkur mestu máli. Hver er til dæmis staða traustsins eftir hrunið sem varð fyrir tæpum tíu árum? Að hve miklu leyti höfum við endurheimt það? Hvernig förum við að því? Viljum við hvert öðru vel?

Eins er vert að minna sig á hvaða árangur náðst hefur því við viljum standa vörð um hann, en líka til að minna okkur á að við getum með asnaskap rifið hann niður.

Spurningarnar munu leita á okkur áfram – eðlilega. En það er kannski rétt að ljúka þessu á æfingu fyrir hugann, líkt og Fugelli, og spyrja: Hvaða gildi eru það sem skipta okkur mestu í íslensku, eða austfirsku samfélagi, af hverju og hvað felst í þeim?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar