Hvers vegna sögðum við já?

Á bæjarstjórnarfundi þann 17. maí var samþykkt af meirihluta bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að ganga til samninga við íþróttafélagið Hött um frekari uppbyggingu Íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum. Í samningnum felst að bæta starfsmannaaðstöðu, búningsaðstöðu og aðstöðu til fimleikaiðkunar.

 

Fulltrúar Á-, D- og L- lista í bæjarstjórn telja þessa framkvæmd löngu tímabæra og mikið framfaraskref fyrir íbúa sveitarfélagsins. Með þessum samningi við íþróttafélagið Hött er mögulegt að að fara í þessa framkvæmd á hagkvæman hátt m.a. vegna þess hvaða leið er farin við fjármögnun og samstarf sem byggir á samheldnu átaki innan íþróttahreyfingarinnar og bakhjörlum hennar.

Við erum ....
......hlynnt uppbyggingu íþróttamannvirkja.
......stolt af starfi allra deilda innan Hattar.
......fullkomlega meðvituð um hversu mikið íþróttastarfið innan sveitarfélagsins alls skiptir okkur miklu máli og hefur áhrif á val einstaklinga til búsetu.
......meðvituð um að margar framkvæmdir eru brýnar en viljum forgangsraða í þágu barna og unglinga.

Alllangur aðdragandi er að þessum samningi. Í júlí 2015 var undirrituð viljayfirlýsing vegna uppbyggingar við íþróttamiðstöðina og stóðu fulltrúar allra lista í bæjarstjórn að þessari viljayfirlýsingu. Í upphafi var stefnt að gerð samnings um uppbyggingu fimleikahúss og frágangs búningsherbergja en auk þess endurnýjun á gólfefnum í aðalsal íþróttamiðstöðvarinnar sem var framkvæmt í ágústmánuði 2015.

Á þessum tæpum tveimur árum sem liðin eru frá undirritun viljayfirlýsingarinnar hefur heilmikil gagnasöfnun farið fram sem liggur til grundvallar þeirri kostnaðaráætlun sem íþróttafélagið Höttur hefur lagt fram. Auk þess hefur verið bætt við verkefnum inní samninginn, m.a. breyting á starfsmannaaðstöðu ásamt því að skoða möguleikann á hlaupabraut í hinum nýja sal.

Í samningnum er settur fyrirvari, sem felst í að sveitarfélagið og íþróttafélagið meti forsendur og framgang verkefnisins þegar endanleg hönnun liggur fyrir og ítarleg kostnaðaráætlun. Þá þurfa báðir aðilar að aflétta fyrirvaranum svo að af frekara samstarfi geti orðið.

Það voru ákveðin vonbrigði að fulltrúar B-lista skyldu ekki styðja við þetta verkefni eins og þeir gerðu þegar viljayfirlýsingin var undirrituð. Það er vissulega þörf á að greina þörf fyrir dagvistarpláss eins og fulltrúar B-lista benda á, en sú vinna er þegar í gangi. Við ákvarðanatöku um frekari uppbyggingu þarf að byggja á nákvæmari greiningu á íbúaþróun og líta til baka á þær árgangasveiflur sem hafa orðið síðustu árin. Út frá þeirri greiningu er svo hægt að taka næstu skref í leikskólamálum. Það er ekki skynsamlegt að fresta ákvörðunum um aðrar framkvæmdir þó sú vinna sé í gangi.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað stendur að öflugu leikskólastarfi og mun áfram gera það.

Næsta skref í vinnunni er að Höttur fer í hönnunarvinnu sem snýr að því að leita lausna með samstarfsaðilum sínum og frekari útfærslu varðandi þá verkþætti sem liggja fyrir og samið var um.

Við fögnum því að nú verður hægt að taka næstu skref í að bæta þá aðstöðu sem hundruð íbúa nýta sér daglega.

Anna Alexandersdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs
Sigrún Blöndal, varaformaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.