Hverju breyta jólin?

Fjölskyldan settist niður á aðventunni og horfði saman á teiknimyndina, sem gerð var hér um árið eftir hinni þekktu Jólasögu (A Christmas Carol) eftir Charles Dickens.

Börnin voru að kynnast harðbrjósta nirflinum Ebenezer Scrooge í fyrsta skipti en foreldrarnir nutu þess að endurnýja kynnin við sögupersónurnar. Ekki var laust við að afturganga Marleys, viðskiptafélaga Scrooge, skyti börnunum skelk í bringu, þar sem hann birtist félaga sínum til viðvörunar og hvatti hann til að bæta ráð sitt áður en það yrði um seinan. Andar liðinna jóla, yfirstandandi og ókominna jóla buðu upp á allan tilfinningaskalann. Endirinn er auðvitað hugljúfur, þegar Scrooge fagnar jóladegi, þakklátur fyrir nýtt tækifæri í lífinu, breytir um stefnu og gengur nú erinda kærleikans í stað erinda Mammons. Tommi litli (Tiny Tim), veikur sonur skrifara Scrooge, á einnig von um betri tíð og á lokaorðin frægu í sögunni: Guð blessi okkur, öll sömul.

Viðsnúningur á borð við þann, sem Dickens lætur Scrooge upplifa í ævintýrinu, er víst sjaldgæfur í raunveruleikanum. Samt snerta jólin við mörgum okkar. Auðvitað eru þau ýmsum erfið, t.a.m. þeim sem hafa upplifað sáran missi. En þau geta líka kallað fram okkar bestu eiginleika, t.d. gjafmildi og náungakærleika, enda vilja margir nota hátíðina til að gefa til góðra málefna. Jólin geta líka laðað fram í okkur barnslega einlægni og gleði, þegar bernskuminningarnar rifjast upp eða þegar við leyfum börnunum í kringum okkur að smita okkur af sínum tilgerðarlausa jólafögnuði. Jólin geta enn fremur eflt með okkur trúartraust, þegar við leyfum okkur að skynja fegurðina í guðspjallinu og boðskap jólasálmanna.

Það er þó ekki von til að jólin snerti við okkur nema við leyfum okkur að opna – ja, í það minnsta örlitla rifu á sálinni – til að hleypa þeim að. Jólin munu varla ná til okkar, nema við gefum okkur örlítinn afslátt af daglega töffaraskapnum okkar, skrælum utan af skrápnum og drögum kannski í leiðinni úr eftirsókninni eftir veraldlegum gæðum. Og þá gefst okkur líka rými til að hleypa Guði að; hleypa jólabarninu að.

Hverju breyta þá jólin? Breytir einhverju hvort við höldum upp á þessa hátíð? Skilur hún nokkuð eftir sig, þegar búið er að ropa upp jólaölinu og fleygja gljápappírnum?

Ef jólin eru fyrir okkur lítið annað en kapphlaup eftir óhófi í mat og drykk, samkeppni í að gefa sem dýrastar jólagjafir eða þrífa eða skreyta húsin sem mest, þá verðum við sjálfsagt dauðfegin þegar jólunum lýkur. Þau hafa þá engu breytt í lífi okkar, enda erum við hvort eð er örþreytt eftir þetta tómlega jólahald. En jól sem haldin eru af gleði yfir komu Jesú í heiminn, jól sem gleðjast yfir boðskap hans og verkum, það eru jól sem geta hreyft við okkur með varanlegum hætti. Það eru jól sem ausa andlegu vatni „úr lindum hjálpræðisins“ eins og Jesaja spámaður orðar það (Jes. 12.3).

Fjárhirðarnir eru býsna áhugaverðar persónur í jólaguðspjallinu. Þeir voru lágt settir í samfélaginu og margir litu niður á þá, töldu þá jafnvel þjófóttan rumpulýð. Svo mikið er víst að vegna starfa sinna og aðstæðna gátu þeir ekki framfylgt lögmáli Gyðinga í smáatriðum. Samt eru þeir valdir til að upplifa hin fyrstu jól, í fjárhúsinu í Betlehem. Og ekki nóg með það. Þeir verða fyrirmyndir trúaðra, vegna þess að þegar þeir snúa aftur til baka frá fyrstu jólunum og hafa séð allt sem engillinn sagði þeim, þá vegsama þeir Guð og lofa „fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð“.

Jólin höfðu snert við hjörtum hirðanna, rétt eins og þau hreyfðu við hjarta Scrooge í sögu Dickens. Guð gefi okkur öllum náð til að leyfa gleði jólanna að ná inn í okkar hjörtu, svo að við lofum Guð bæði í orðum og kærleiksríkum verkum – einnig þegar við snúum aftur frá jólahaldinu.

Höfundur er sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.