Hvað felst í fráveituframkvæmdum á Egilsstöðum?

Það kom þeim sem þetta ritar verulega á óvart þegar hann frétti á starfsmannafundi hjá fyrirtækinu sem hann starfar hjá að Hitaveita Egilsstaða og Fella (hér eftir HEF) var búin að sækja um leyfi til að fara með útrás fyrir fráveitu Egilsstaða gegnum land fyrirtækisins. Þar sem ég sit í umhverfis og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs fór ég og kannaði málið nánar og komst þá að sláandi niðursstöðu.

Stjórn HEF og framkvæmdastjóri hafa á undanförnum mánuðum unnið að breytingum á skólphreinsimálum sveitarfélagsins ásamt ráðgjöfum frá verkfræðistofunni Eflu nánast án nokkurs samráðs við bæjaryfirvöld eða þá aðila innan bæjarinnns sem hafa með skipulag að gera. Ekki liggur heldur fyrir hver heildarkostnaður verkefnisins verður.

Í aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 segir að hreinsa skuli skólp með tveggja þrepa hreinsivirkjum. Hugmyndir HEF eru að hætta þeirri hreinsun, grófhreinsa aðeins skólp og dæla því síðan út í Lagarfljót. Ljóst er að sú aðferð stenst ekki reglugerð nr 798/1999 um fráveitur og skólp né heldur aðalskipulag Fljótsdalshéraðs.

Því er ljóst að hugmyndir HEF fela í sér afturför í hreinsun skólps í sveitarfélaginu og hefur manni á stundum þótt þau mál í ólestri með núverandi kerfi. Þegar á menn er gengið svara menn því til að það sé hugsanlega væntanleg breyting á reglum sem slaki á kröfum um hreinsun. Í ljósi umræðunnar um örplast og plastmengun held ég að um hreina óskhyggju sé að ræða. Ekki er líklegt að slakað verði á kröfum um hreinsun skólps heldur þvert á móti.

Hver er staðan núna?

Núverandi kerfi er vissulega ekki gallalaust eins og oft hefur verið bent á. Í leysingum ræður kerfið ekki við innstreymið og fer á yfirfall með tilheyrandi mengunn. Aðalvandinn liggur í því að ekki er tvöfalt kerfi í stæstum hluta bæjarinns þ.e. að skólp og regnvatn er í sömu lögnum og fer allt í gegnum hreinsivirkin. Þegar síðan hlánar snögglega eða rignir mikið yfirfyllist kerfið og fer á yfirfall.

Á sínum tíma var tekin sú ákvörðun að hafa hreinsivirkin ekki stærri en raun ber vitni til að halda kostnaði við þau niðri, en vinna heldur í því að ná regn og yfirborðsvatni úr kerfinu. Þetta hefur því miður lítið gengið eftir en þó hafa stórir póstar verið teknir út undanfarið sem hafa bætt reksturinn verulega. Ljóst er að þetta vandamál mun ekkert breytast með tilkomu dælustöðvar. Enn verður þörf fyrir yfirfall þegar toppar koma sem kerfið ræður ekki, við nema menn ætli að setja upp geyma sem taka hundruð rúmmetra til að koma í veg fyrir að ósýjað skólp berist út í vatnakerfið.

Menn hafa gagnrýnt kostnað við rekstur núverandi kerfis sem sem er vissulega ekki ókeypis. Sú upphæð sem bærinn greiðir fyrir leigu og rekstur á fimm hreinsivirkjum er 39,6 milljónir á ári, fyrir utan virðisaukaskatt, sem gerir tæpar átta miljónir á ári fyrir utan virðisaukaskatt, fyrir hvert hreinsivirki.

Ekki hefur fengist uppgefin tala um áætlaðan rekstrar og viðhaldskosnað á hinu nýja mannvirki en ljóst er að um einhverja tugi miljóna er að ræða.

Gagnrýnt hefur verið að sveitarfélagið eigi ekki hreinsivrkinn heldur leigi þau af einkaaðila og nú sé samningstíminn að renna út og því þurfi að gera eitthvað. Í samningunum eru ákvæði um að sveitarfélagið geti eignast hreinsivirkin að samningstíma liðnum fyrir ákveðna upphæð. Hvort það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma geta menn deilt um, en þetta er sú leið sem ákveðið var að fara

Hvað kostar nýtt kerfi?

Kostnaður við uppsetningu hins nýja kerfis er einnig nokkuð á reyki. Þó virðist vera að menn áætli að fyrsti áfangi kosti um 550 miljónir króna en ljóst er að hann uppfyllir ekki aðalskipulag Fljótsdalshéraðs eða kröfur reglugerðar 798/1999. Hver kostnaðaraukningin er til að ná þeim kröfum hefur ekki fengist upp gefin með óyggjandi hætti, en fleygt hefur verið fram tölum upp á 250 miljónir sem setur heildarkostnað verkefnisins í 800 miljónir. Tekið skal fram að ekki liggja nákvæmar kostnaðaráætlanir að baki þessum tölum. Það hefur reynst eðli kostnaðaráætlanna að vera frekar og lágar en of háar þannig að það mætti vel áætla að þessi framkvæmd kosti upp undir miljarð þegar upp verður staðið.

Það er með ólíkindum að undirstofnun sveitarfélagsins skuli vera farin af stað í þennan leiðangur sem að er ljóst að stenst ekki gildandi reglugerðir eða aðalskipulag án þess að farið hafi fram umræða innan stjórnkerfisins, ætli að koma þessum breytingum í gegn umræðulaust og á bakvið tjöldin og eyða hundruðum miljóna af skattfé sveitarfélagsins í þá framkvæmd án þess að skoða hvaða aðrir kostir eru í stöðunni.

Það er skýlaus krafa að lögð sé fram kostnaðaráætlun verkefnisins þannig að það uppfylli gildandi lög og reglugerðir. Eins að menn skoði hvað þurfi að gera við núverandi kerfi til að það uppfylli sömu kröfur. Þegar farið er í svona framkvæmdir þurfa menn að geta borið saman kosti og galla ásamt kostnaði eða eins og sagt er menn þurfa að bera saman epli og epli en ekki epli og appelsínur. Ekki hefur verið óskað eftir breytingum á aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs vegna fyrirhugaðra breytinga. Í vor fara framm sveitarstjórnarkostningar og ég skora á þá sem bjóða sig fram að skoða þessi mál með opnum huga.

Höfundur situr í umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar